Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 17:31:08 (312)

1998-10-12 17:31:08# 123. lþ. 7.9 fundur 14. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[17:31]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það kann vel að vera að við séum að tala í kross. Ég er ekki frá því að það sé rétt. Það sem ég vil hins vegar halda mig við í þessari umræðu er það að Landsvirkjun er að láta fara fram mat á umhverfisáhrifum eins og óskað er eftir að hér verði gert. Það mál hefur verið í undirbúningi frá því í júní í sumar og er í ákveðnum farvegi og á tímamótum nú að mínu viti og því væri rétt að flytja tillögu eins og þessa, ef menn teldu það rétt, þegar menn sjá hvert framhald atburðarásarinnar verður. Ég tel því að málið sé í eðlilegum og réttum farvegi og burt séð frá því hvort okkur finnist að aðrir aðilar eigi að sjá um undirbúninginn þá kveða lögin á um að það sé framkvæmdaaðilinn og það skiptir höfuðmáli.

Ef ég tók rétt eftir var hv. þm. að vitna í skýrslu Önnu Dóru Snæþórsdóttur um ferðir og fjallvegi norðan Vatnajökuls. Ég held að það sé sú eina könnun sem gerð hefur verið á því svæði og Anna Dóra Snæþórsdóttir stýrði þeirri könnun. En bara ef það var einhver misskilningur þá er hún ekki umhverfisstjóri Landsvirkjunar. Hún vann hins vegar þessa skýrslu fyrir Landsvirkjun og fleiri aðila við mat á þessu og viðhorfum ferðamanna á svæðinu.