Umræður um frumvörp um miðlægan gagnagrunn

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 13:51:13 (435)

1998-10-15 13:51:13# 123. lþ. 11.93 fundur 63#B umræður um frumvörp um miðlægan gagnagrunn# (um fundarstjórn), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[13:51]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég kem hér einungis til að mótmæla ákveðinni fullyrðingu sem kom fram í máli hæstv. heilbrrh. Hún heldur því fram að vegna þess að búið sé að ræða meðal þjóðarinnar það frv. sem hér liggur fyrir í sjö mánuði, þá eigi það að njóta forgangs umfram annað frv. sem er lagt fram svo að segja á sama tíma í þinginu. En fullyrðing hæstv. ráðherra er röng. Í þessu frv. sem núna liggur fyrir af hennar hendi eru algerlega nýir hlutir sem varða lykilþætti. Í frv. sem hæstv. ráðherra lagði fram fyrir örfáum dögum er að finna algerlega ný tök á einu umdeildasta atriði frv. sem varðar persónuverndina. Þess vegna er með engu móti hægt að halda því fram að hin nýja hugmynd sem lögð er fram í frv. hafi verið til umræðu meðal þjóðarinnar í sjö mánuði.

Í annan stað, herra forseti, varðar það frv. sem hv. þm. Guðmundur Árni ásamt fleiri þingmönnum jafnaðarmanna hefur lagt fram einmitt þetta tiltekna atriði, þ.e. persónuverndina. Þess vegna hefði það verið skilvirkast fyrir umræðuna að fá það frv. samhliða í umræðu með frv. hæstv. ráðherra. Það hefði dregið fram valkostina sem eru tveir í þessu máli og það hefði gert umræðuna miklu hnitmiðaðri og það hefði auðveldað okkur að komast að málefnalegri niðurstöðu. Síðan, herra forseti, frábið ég mér tilraunir hæstv. ráðherra til þess að hrekja þetta mál í einhvers konar pólitískar skotgrafir. Þetta er ekki flokkspólitískt mál. Þetta mál er lagt fram og menn koma til þess að taka þátt í málefnalegri umræðu og hæstv. ráðherra hefur umræðuna með því að gera þetta að einhverju máli sem varðar stjórnina annars vegar og andstæðinga stjórnarinnar hins vegar. Þetta eru röng málstök og þetta er röng byrjun af hálfu hæstv. ráðherra.