Umræður um frumvörp um miðlægan gagnagrunn

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 13:54:04 (437)

1998-10-15 13:54:04# 123. lþ. 11.93 fundur 63#B umræður um frumvörp um miðlægan gagnagrunn# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[13:54]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er vissulega regla í þingsköpum að mál eru rædd aðskilin. En af hverju breyttum við þingsköpunum þannig að það mætti spyrða mál saman? Það var til þess að ræða mætti mörg í einu og flýta fyrir umræðum og í þingskapaumræðunni var aldrei gert ráð fyrir því að mál þyrftu að vera samkynja eða í sömu veru að einhverju leyti. Ég vísa því algerlega í bug sem fram kom hjá hæstv. forsrh. í þessu efni. Það er algerlega augljóst mál að væri um að ræða skyld mál eða mál á svipuðu sviði, þá væri hægt að taka þau saman og við höfum aftur og aftur gert það í þessari stofnun, herra forseti, á þessu kjörtímabili. Við höfum meira að segja gengið svo langt að við höfum tekið saman undir eina umræðu mál sem í raun og veru á að ræða um á mismunandi hátt samkvæmt ákvæðum þingskapa þannig að í raun hefur þingið og forusta þess beitt sér fyrir því að menn tækju sem flest mál saman ef mögulegt væri. Ég tel því að sú uppsetning sem var hjá síðasta hv. ræðumanni sé algerlega út í hött, herra forseti.

Ég vil hins vegar benda á það, sem er kannski það alvarlegasta í þessari umræðu, að hæstv. heilbrrh. hefur tekið um það ákvörðun að þetta sé ríkisstjórnarflokkamál sem hér á að fara að ræða. Hún hefur tekið um það ákvörðun að við sem erum í stjórnarandstöðuflokkum, eins og t.d. ég sem hef litið á þetta mál með tiltölulega jákvæðum hætti, eigum í raun og veru mjög erfitt með að styðja það vegna þess að við erum ekki hluti af stjórnarliðinu. Ég tel að þessi uppsetning hjá hæstv. ráðherra sé yfirgengileg miðað við allar aðstæður. Ef hún óskar eftir því að málið fái eðlilega umræðu í stofnuninni þá hefði hún átt að nálgast það með öðrum hætti.

Ég segi líka um ummæli hv. formanns þingflokks Framsfl. um það að ég hafi haft hér í frammi hótanir: Ég bið hv. þm. um að taka ummælin til baka. Ég sagði ekkert annað en það að veruleikinn væri sá að neitun ráðherrans á eðlilegu samstarfi hér getur haft sínar afleiðingar og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir þekkir hverjar þær eru. Ég skora á hana að taka þessi ummæli um hótanir af okkar hálfu til baka. Ég skora á hana að gera það.

Síðan segi ég: Hver samdi um að ljúka ætti málinu fyrir 20. október? Það var ekki þingflokkur Alþb. og óháðra a.m.k., sá sem ég stýrði á þeim tíma. Það er alveg ljóst. Hafi einhver hugsað sér það, þá er það mál sem ég kom ekki nálægt, herra forseti, þannig að ég neita því að þetta sé borið hér fram sem málsástæða eins og hv. þm. gerði áðan.