Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 18:47:50 (493)

1998-10-15 18:47:50# 123. lþ. 11.6 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[18:47]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála því sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni að náttúrlega skiptir meginmáli hvort hægt sé að skilgreina upplýsingarnar sem eiga að fara í miðlægan gagnagrunninn sem persónulegar eða ópersónugreinanlegar upplýsingar. Það skiptir meginmáli.

Ég vil ekki fjalla um ágreining um túlkun á ákvæðum Evrópuráðsins sem ég var að vitna í en það sem ég hef aðallega stuðst við eru ráðleggingar ráðherraráðs Evrópuráðsins um verndun læknisfræðilegra upplýsinga. Þetta ákvæði, ég ætla nú að leyfa mér að reyna að þýða þetta með hraði, ég biðst þá afsökunar á því að þýðingin er ekki gjörð af löggiltum skjalaþýðanda en hér stendur í skilgreiningarkafla samþykktarinnar sem er frá síðasta ári:

,,Ekki telst vera um persónuupplýsingar að ræða ef mikla fyrirhöfn og mikinn kostnað þarf til þess að brjótast inn í kerfið. Þá eru upplýsingarnar nafnlausar taldar.``

Þetta er viðmiðunin. Þá á að vitna í upplýsingarnar sem nafnlausar upplýsingar. Þetta er þess vegna ekki þannig hugsað að upplýsingar séu alltaf persónulegar ef það er með einhverjum hætti hægt að brjótast inn í þær. Þvert á móti er með þessu ákvæði verið að búa til svigrúm fyrir vinnslu upplýsinga sem reynt er að dulkóða og aftengja persónunum, jafnvel þó fræðilegur möguleiki sé fyrir því að hægt sé að brjótast inn í þær.