Leiklistarlög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 12:09:38 (601)

1998-10-22 12:09:38# 123. lþ. 15.17 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[12:09]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ég get á vissan hátt tekið undir orð hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur, og deilt með henni áhyggjum af því að við gætum hugsanlega með þessum lögum setið uppi með þjóðleikhússtjóra í mjög langan tíma.

Eitt af því sem skiptir mjög miklu máli í Þjóðleikhúsinu er að það sé sprelllifandi stofnun og það koma alltaf nýir siðir með nýjum mönnum. Ég minnist þess að þegar þjóðleikhússtjóri sem nú situr var ráðinn talaði hann einmitt um hvað það skipti miklu máli að Þjóðleikhúsið væri sprelllifandi stofnun og að þar færu fram ákveðnar útskiptingar.

Miðað við 6. gr. frv. kemur í ljós að möguleiki er á því að endurráða þjóðleikhússtjóra --- hvert tímabil er fimm ár. Þrátt fyrir að staðan sé auglýst getur það gerst að þjóðleikhússtjóri sitji í mjög langan tíma vegna endurráðningar.

Mér fyndist mun nær að setja í lög ákveðinn kvóta, annaðhvort bara fimm ár eða hámark tíu ár. Ef við settum fimm ár sem kvóta mætti ráða þjóðleikhússtjóra á nýjan leik að fimm árum liðnum, þ.e. hann fengi þá fimm ára frí, mundi vinna eitthvað annað innan stofnunarinnar eða annars staðar og gæti þá komið aftur. Mér finnst full ástæða til að vekja athygli á þessu og ég get í rauninni deilt áhyggjum mínum af þessu atriði með hv. þm.