Úttekt á Schengen-aðild og innflutningi fíkniefna

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 15:07:32 (648)

1998-10-22 15:07:32# 123. lþ. 16.6 fundur 11. mál: #A úttekt á Schengen-aðild og innflutningi fíkniefna# þál., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[15:07]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur flutt till. til þál. um úttekt á Schengen-aðild og innflutningi fíkniefna. Tillögutextinn er þannig, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að beita sér fyrir að gerð verði vönduð úttekt á líklegum áhrifum Schengen-aðildar á ólöglegan innflutning fíkniefna til landsins, í samvinnu við önnur ráðuneyti og samtök sem berjast gegn fíkniefnum. Alþingi verði gefin skýrsla um málið í ársbyrjun 1999.``

Þetta er efni tillögunnar og texti. Hér er á ferðinni mál sem flutt var á síðasta þingi en varð þá eigi útrætt. Tillagan var lögð fram nokkuð síðla á þingi og er því endurflutt enda málið tímabært og jafnbrýnt nú og þegar það var lagt fram á vorþinginu í fyrra.

Schengen-aðild Íslands er enn á dagskrá. Stefnt er að inngöngu í kerfi sem opnar landamæri innan Schengen-svæðisins eins og það er kallað, frjálsa för fólks þar sem ekki verði heimilt að krefja fólk frá Vestur-Evrópulöndum, aðila að Schengen, og það eru flest ríki Vestur-Evrópu, um skilríki við innkomu í landið. Þó ekki fylgi með að tolleftirlit sé aflagt gagnvart hinum sömu er óhjákvæmilegt að draga verulega úr tolleftirliti með farangri farþega og möguleikar á því að fylgjast með farþegum verða allt aðrir og minni en við núverandi aðstæður. Samkvæmt Schengen-reglunum sem eru 142 ef ég man rétt, þarna er geysistór samningur á ferðinni, er ekki heimilt að taka stikkprufur á skilríkjum fólks eins og þó er heimild til í norræna vegabréfasamningum sem við þekkjum og heimilar frjálsa för án skilríkja milli Norðurlanda. Sá gamli samningur frá sjötta áratugnum er notaður eins og eins konar pólitísk beita fyrir þeirri tilhögun sem íslensk stjórnvöld hafa reynt að ná fram árum saman, að Ísland verði aðili að Schengen-svæðinu og þeim reglum sem það lýtur.

Því er alveg ljóst að eftirlit með ólöglegum innflutningi fíkniefna til landsins frá löndum Vestur-Evrópu með aðild að Schengen verður mun torveldari eftir en áður. Þeir sem bera í bætifláka fyrir aðild að Schengen halda því fram að komið verði upp sterkum vörnum á ytri landamærum svæðisins með gífurlegri tölvuvæðingu sem þessu á að fylgja, kostnaðarsamri ofan á annað, og út af fyrir sig er rétt að reyna að koma slíkum vörnum við. En uppspretta fíkniefna sem smyglað er til Íslands liggur ekki síst innan Schengen-svæðisins. Framleiðsla þeirra, pakkning og dreifing á sér uppruna innan svæðisins. Þar fyrir utan verður miklu erfiðara að fylgjast með dreifingu á svæðinu. Viðhorf ríkja til eftirlits með fíkniefnum er mjög mismunandi og í sumum löndum heyrast raddir um að draga úr því og jafnvel að heimila sölu fíkniefna í tilraunaskyni eða með öðrum hætti, hinna meinlausari sem svo eru kölluð. Þar með fengjum við ekki við ráðið vegna þess að það lyti löggjöf viðkomandi landa.

Í tillögunni, virðulegur forseti, eru rökstudd þau sjónarmið sem liggja að baki því að brýnt sé að gera úttekt. Hér er ekki talað um annað en úttekt á líklegum áhrifum Schengen-aðildar á ólöglegan innflutning fíkniefna til þess að leggja fyrir Alþingi áður en kemur til ákvarðana um hugsanlega aðild Íslands að þessu fyrirkomulagi.

Í gær eða fyrradag munu samningaviðræður hafa hafist á nýjan leik, einn ganginn enn um þessa aðild. Eins og menn vita fór málið allt upp í loft í fyrra vegna þeirra miklu breytinga sem gerðar voru varðandi ákvæði Schengen-samningsins og tengsla þeirra ákvæða við grunnsáttmála Evrópusambandsins. Nú er frjáls för fólks orðin hluti af reglum Evrópusambandsins sjálfs, heyrir undir Evrópusambandið að mestu leyti og einnig undir dómskerfi þess. Þetta setti samstarfssamninginn, sem líklega var gengið frá á árinu 1996 og Ísland gerðist óbeinn aðili að, í uppnám. Það samkomulag hafði aldrei verið lagt fyrir Alþingi og var fyrst sýnt í apríl sl. en ekkert frekar um það fjallað. Síðan hafa menn leitað að nýjum grundvelli fyrir þetta samstarf í samræmi við íslenska stjórnarskrá og íslenskan stjórnskipunarrétt og telja sig hafa fundið það, a.m.k. eru samningaviðræður hafnar og Evrópusambandið hefur fallist á að taka upp samninga. Þó það varði ekki beinlínis þessa tillögu er þó ljóst að þau skilyrði sem Íslandi og Noregi eru þar sett eru enn þá lakari en í fyrri samstarfssamningi, vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á tengslum Schengen-reglnanna við grundvallarsáttmála Evrópusambandsins.

Í greinargerð með tillögunni, virðulegur forseti, eru rakin ummæli m.a. tollgæsluaðila sem staðfesta eða rökstyðja a.m.k. að hér muni möguleikum til ólöglegs innflutnings fíkniefna fjölga og það er síst af öllu það sem þurfum, ofan á allan þann vanda sem við er að fást í þessum efnum.

Ég legg til, virðulegur forseti, að þetta mál fari að lokinni umræðu til nefndar, það mun vera hv. allshn. sem eðlilegt er að fjalli um málið. Þó væri ekki óeðlilegt að hafa samstarf við utanrmn. þingsins jafnhliða og eftir atvikum við aðrar þingnefndir sem gætu haft áhuga á að tjá sig um það stóralvarlega efni sem tillagan fjallar um.