Lífsýnasöfn

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 18:38:27 (688)

1998-10-22 18:38:27# 123. lþ. 16.5 fundur 121. mál: #A lífsýnasöfn# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[18:38]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst um almennar rannsóknir sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson vék að áðan. Ef hann færi t.d. inn á heilsugæslustöð og tekið væri úr honum blóðsýni til að mæla blóðrauða eða eitthvað slíkt, þá yrði sá blóðdropi, þó merkilegur væri því hann væri náttúrlega úr merkilegum manni, ekki geymdur um aldur og ævi. Hann er bara geymdur í vissan tíma, eins og ávallt hefur verið, og síðan eytt. (HG: Þar fór í verra.) Þar fór í verra, sagði hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Auðvitað væri gaman að geyma lengi úr honum blóðdropann. En það væri ansi mikið safn ef geyma ætti allar þær fjölmörgu rannsóknir sem gerðar eru, t.d. á heilsugæslustöðvum og öll þau lífsýni sem þar verða til, segjum hverja einustu tönn sem tannlæknir dregur úr manni. Til þess er ekki ætlast með þessu frv. Mér finnst menn oftúlka þær breytingar sem er verið að gera með framlagningu þessa máls. Ég endurtek að fyrst og fremst er verið að auka öryggi og eftirlit og persónuvernd. Það er markmið frumvarpsins.

Varðandi það atriði hvort nauðsynlegt sé að þetta mál fylgi gagnagrunnsfrv. er ég sammála hv. formanni heilbr.- og trn. að auðvitað afgreiðum við miðlægan gagnagrunn fyrst og síðan kemur þetta í kjölfarið. Það þarf alls ekki að koma samhliða. En mér fannst mikilvægt að kynna þingheimi það frv. sem hér liggur fyrir.