Vatnajökulsþjóðgarður

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 18:49:04 (694)

1998-10-22 18:49:04# 123. lþ. 16.7 fundur 16. mál: #A þjóðgarðar á miðhálendinu# þál., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[18:49]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Hér er flutt till. til þál. um þjóðgarða á miðhálendinu og kemur fyrir Alþingi öðru sinni. Ég ætla ekki að hafa langt mál fyrir tillögunni í ljósi þess að liðið er á dag en ég vil leyfa mér að lesa texta tillögunnar og fara örfáum orðum um það sem gerst hefur frá því að hún kom fyrir þingið síðast. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta undirbúa, í samvinnu við skipulagsyfirvöld og hugsanlega rétthafa, stofnun fjögurra þjóðgarða á miðhálendi Íslands er hafi innan sinna marka helstu jökla og aðliggjandi landsvæði. Ráðherra kynni Alþingi stöðu málsins á vorþingi 1999 og stefnt verði að formlegri stofnun þjóðgarðanna árið 2000.``

Þetta er tillagan. Frá því að tillagan var flutt á síðasta þingi hefur Alþingi fjallað frekar en þá hafði verið gert og lögfest ýmis mikilvæg mál sem snúa að miðhálendi landsins, eignar- og umráðarétti, stjórnsýslumörkum og fleiru. Til þessa var vísað að þetta væri í deiglu og líkur á því að þessi mál yrðu afgreidd af löggjafanum fljótlega og með vísan til þess var talið tímabært að bera þessa tillögu fram. Tillagan fór til hv. umhvn. þingsins og fékk þar ágæta umfjöllun þó að nefndin afgreiddi málið ekki frá sér. Tillagan vakti talsverða umræðu úti í samfélaginu og voru viðbrögð almennt jákvæð --- svo ég meti það svona lauslega --- ég segi ekki að þau hafi verið öll á einn veg en tillagan fékk óvenjugóða kynningu, m.a. hjá fjölmiðlum.

Ég vil víkja aðeins að umsögnum sem bárust umhvn. um tillöguna á 122. þingi. Það komu umsagnir frá ekki færri en 32 umsagnaraðilum og sumar þeirra voru allítarlegar. Gerð er grein fyrir kjarnanum í þessum umsögnum í greinargerð og það er nýtt í þingmálinu frá síðasta þingi og ég leyfi mér að vitna til fáeinna atriða en vísa að öðru leyti til þingskjalsins og náttúrlega fyrirliggjandi umsagna sem eru í vörslu hv. umhvn.

Margir umsagnaraðilar lýstu fylgi við meginefni tillögunnar, þeirra á meðal og ég vek athygli á því, virðulegur forseti, Skipulagsstofnun, Náttúruvernd ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands, Ferðafélag Íslands, Náttúruverndarsamtök Austurlands og Alþýðusamband Íslands. Allir þessir aðilar tóku mjög jákvætt undir efni tillögunnar og það voru aðeins örfáir aðilar sem mæltu gegn samþykkt tillögunnar en nokkrir töldu að skoða þyrfti málið betur og þá sumpart með vísan til þess að þingmál voru óafgreidd þegar umsagnir voru veittar sem vörðuðu miðhálendið.

Ég vek athygli á því að í umsögn skipulagsstjóra segir m.a.:

,,Skipulagsstofnun fagnar þingsályktunartillögunni og telur hana vera í samræmi við tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins sem nú liggur fyrir og rökrétt framhald hennar.``

Þetta er kjarni umsagnar Skipulagsstofnunar. Umrætt svæðisskipulag er þróaðra nú og komið á lokastig, fullafgreitt að fengnum athugasemdum frá þeirri svæðisskipulagsnefnd sem það vann. Ferðafélagið, eins og ég sagði, tók jákvætt undir og Alþýðusamband Íslands mjög ákveðið. Félmrn. gerir ekki í umsögn sinni athugasemdir við efni tillögunnar og vísaði til væntanlegra sveitarstjórnarlaga, og, eins og segir í umsögninni, ,,telur ráðuneytið að þingsályktunartillagan samræmist fyllilega því frumvarpi``.

Síðan eru margir aðilar sem veittu vandaða umsögn um málið og að jafnaði jákvæða þó að ábendingar og athugasemdir væru fram bornar af sumum þeirra. Ég ætla tímans vegna ekki að fara yfir það en undantekningar voru umsagnir þar sem lagst var gegn samþykkt tillögunnar. Það voru aðeins örfáir aðilar og ég ætla ekki að rekja þær, get þó nefnt héraðsnefnd Þingeyinga sem ekki felldi sig við málið eins og það lá fyrir og er dæmi um einn af örfáum sem ekki var með jákvæða umsögn.

Það er skylt að geta þess að Orkustofnun skilaði ítarlegri umsögn um tillöguna og segir í niðurstöðum Orkustofnunar:

,,Í þessari umsögn hefur Orkustofnun fyrst og fremst lagt áherslu á að þingsályktunartillagan kann að útiloka mikilvæga orkuvinnsluhagsmuni. Ef hið háa Alþingi telur rétt að mynda þjóðgarða á hálendinu í líkingu við það sem kveður á um í umræddri þingsályktunartillögu, þá leggur Orkustofnun áherslu á að við afmörkun þeirra verði tekið tillit til ábendinga um hagsmuni orkuvinnslu.

Megintillaga Orkustofnunar er sú að Alþingi fresti því að taka meiri háttar stefnumarkandi ákvarðanir um nýtingu miðhálendisins þar til átaki því sem vitnað er til hér að ofan og lýst er í skýrslunni ,,Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi, framkvæmdaáætlun til aldamóta`` er lokið.``

Ég tel að ég hafi haldið til haga báðum sjónarmiðunum og því sem þar lá á milli í þessum umsögnum en hvet þá þingnefnd, sem ég á raunar sæti í, sem ég legg til að fái málið öðru sinni til meðferðar, til að skoða þessar umsagnir að nýju. Það virðist þarflaust að leita umsagna á nýjan leik í rauninni nema þá í einhverjum afmörkuðum tilvikum vegna þess að málið hefur ef eitthvað er skýrst með tilliti til lögfestingar á þýðingarmiklum málum sem varða tillöguna og afgreidd voru á síðasta þingi.

Ég vil í lokin, virðulegur forseti, aðeins hafa yfir lokaorð í greinargerð með tillögunni þar sem segir:

,,Með tilkomu þeirra þjóðgarða sem hér er gerð tillaga um kæmust Íslendingar í fremstu röð þjóða að því er varðar náttúruvernd. Sú verndarstefna sem margir hafa lýst eftir varðandi miðhálendið fengi á sig skýra og fastmótaða mynd. Jöklum miðhálendisins væri lyft á þann stall sem þeir verðskulda og aðdráttarafl og gildi óbyggðanna yrði meira en áður í hugum manna. Fyrir þjóð sem ætlar sér stóran hlut í ferðaþjónustu er mikið í húfi að vernda náttúru landsins, ekki síst jarðsögulegar minjar og víðerni og jökla hálendisins.``