Vatnajökulsþjóðgarður

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 19:00:12 (697)

1998-10-22 19:00:12# 123. lþ. 16.7 fundur 16. mál: #A þjóðgarðar á miðhálendinu# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[19:00]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og hv. þm. veit hef ég sett fram mjög skeleggar skoðanir um það hvernig eigi að haga stjórnsýslu miðhálendisins. Ég held að þó að þær hugmyndir sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur sett fram séu ekki algerlega í þeim anda þá lúti þær eigi að síður sömu lögmálum, þ.e. að þarna yrðu gríðarlega víðfeðm flæmi og mjög viðkvæm í rauninni sett undir almannastjórn, þ.e. að formlega væri umhvrh. yfir þeim en jafnframt færu, eins og lög og reglur kveða á um, sérstakar nefndir með stjórn sérhvers þessara fjögurra þjóðgarða.

Ég get fyrir mitt leyti mjög vel fallist á það fyrirkomulag og tel því að í þessu fælist málamiðlun sem af minni hálfu, og að ég tel þeirrar hreyfingar sem ég tilheyri, væri hægt að sættast á. Sömuleiðis tekur hún til verndarnauðsynjarinnar sem verður æ ríkari eftir því sem tíminn líður en í þriðja lagi kallast hún líka á við breytt viðhorf til virkjana. Ég er þeirrar skoðunar að þegar menn ræða mjög fjálglega um hina gríðarlegu orku í fallvötnunum sem enn er óbeisluð þá séu þeir að tala út í loftið og geri þeir sér ekki grein fyrir því að kröfurnar sem þjóðin gerir núna um meðferð á náttúrunni og miðhálendinu eru kannski allt aðrar en árið 1971 þegar menn voru að véla um þá stóru virkjun sem stundum er deilt um þessa dagana enn þá. Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því að við getum ekki gengið á þennan orkuforða, þ.e. við getum ekki leyft okkur af breyttum fagurfræðilegum og náttúruverndarsjónarmiðum að beisla sum þeirra fallvatna sem áður var talið sjálfsagt. Þetta bara er partur af því gjaldi sem við þurfum að greiða fyrir að eiga þetta land eins og það er, eins og við viljum hafa það. Það má líka færa efnahagsleg rök fyrir þessu vegna þess að virkjunaráráttan sem menn eru sumir enn þá helteknir af er líkleg til þess að kippa stoðum undan annarri burðargrein sem er í örum vexti, sem er ferðaþjónustan. Þarna eru tvenns konar sjónarmið sem renna saman í sömu kvísl og ég lýsi aftur ánægju minni með þessa hugmynd hv. þm.