Afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 19:38:26 (707)

1998-10-22 19:38:26# 123. lþ. 16.10 fundur 169. mál: #A afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis# þál., Flm. GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[19:38]

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum kannski aðeins að nálgast efnisatriði málsins og það er vel. Hv. þm. þarf ekki að hafa áhyggjur af því að ég fylgi ekki samvisku minni. Það sem hann ræddi hér, og er nokkuð sem okkur öllum er hugleikið, eru vandamál sem fylgja aukinni vímuefnaneyslu. Spurningin er hvort aukinn aðgangur að áfengi mundi fylgja samþykkt þessarar tillögu. Svarið er einfaldlega nei. Í raun er ekkert í þessari tillögu sem miðar að því að lengja opnunartíma, fjölga útsölustöðum eða neitt slíkt. Slíkar ákvarðanir eru teknar á öðrum vettvangi.

Alþingi hefur ákveðið að slíkt vald sé á höndum sveitarstjórna og það hefur væntanlega verið gert að yfirlögðu ráði. Ég mundi ætla að það væri hin skynsamlega leið, að hafa það vald sem næst fólkinu. Þessi vara hefur ákveðna sérstöðu, það er alveg hárrétt. Mér þykir það alltaf slæmt þegar menn reyna, í þessari umræðu sem oftar, að draga önnur óskyld mál inn í þetta en eins og ég hef hvað eftir annað sagt gengur tillagan út á að við þurfum að hafa einhverja smásölu á áfengi. Spurningin er: Er það hlutverk ríkisvaldsins að stunda slíka verslun með ríkisfyrirtæki eða gætu aðrar aðferðir verið skynsamlegri? Við höfum komist að þeirri niðurstöðu með vínveitingar, tóbak og ýmislegt annað sem mætti kannski teljast hættulegt eins og skotvopn, að þrátt fyrir að við höfum almennar reglur um það og nokkuð hörð skilyrði, þá þyki okkur mun skynsamlegra og eðlilegra að það sé á höndum annarra en ríkisvaldsins. Um það snýst tillagan og ég er sannfærður um að ef hv. þm. les greinargerðina og kynnir sér málið, þá kemst hann að sömu niðurstöðu og ég, að það beri að styðja þetta mál.