Undirbúningur svara við fyrirspurnum

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 13:42:08 (771)

1998-11-03 13:42:08# 123. lþ. 18.91 fundur 89#B undirbúningur svara við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[13:42]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Sem starfandi viðskrh. vil ég koma inn í þessa umræðu og upplýsa að hæstv. viðskrh. hefur eins og hér hefur komið fram fjarvist í dag og mun trúlega líka óska eftir fjarvist á morgun. Hann verður kominn aftur, eftir stutta ferð til Kanada, á fimmtudag og getur þá væntanlega tekið þátt í umræðum við hv. þm. um þetta mál.

Ég tek undir það með hv. seinasta ræðumanni, hv. þm. Jóni Kristjánssyni, að heppilegra hefði verið að bera þetta mál upp þegar hæstv. viðskrh. væri viðstaddur til þess að svara fyrir sig beint. Ég verð að gera þá játningu fyrir hv. málshefjanda og þingheimi að ég þekki auðvitað ekki til málsins og hvar svör hæstv. viðskrh. eru stödd í augnablikinu. Ég þekki ekki til umræddra bréfaskipta og get í sjálfu sér ekki svarað fyrir það. Ég vildi þó koma upp í þessari umræðu af því að ég gegni störfum hæstv. viðskrh. um þessar mundir og mun koma þeim athugasemdum sem hér hafa komið fram um málið og málsmeðferð á framfæri við hann.