Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 16:50:46 (799)

1998-11-03 16:50:46# 123. lþ. 18.12 fundur 176. mál: #A Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[16:50]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Frumvarp þetta er lagt fram til að einfalda lögin um starfsemi Söfnunarsjóðsins og samræma þau ákvæðum laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þau lög gilda um alla lífeyrissjóði þar á meðal lögbundna lífeyrissjóði með þeim undanþágum sem tilgreindar eru í 50. gr. þeirra laga, t.d. um útgáfu starfsleyfa og um lífeyrisréttindin, að undanskildu ákvæðinu sem fjallar um skiptingu ellilífeyrisréttinda milli sjóðfélaga og maka hans. Þrátt fyrir að sett hafi verið ítarleg ákvæði í lögin um starfsemi lífeyrissjóða þykir rétt að fjalla um helstu atriði er varða starfsemi Söfnunarsjóðsins í lögunum um hann, svo sem um aðild, stjórn, iðgjald og iðgjaldsstofn. Jafnframt er lagt til að meginreglurnar sem gilda eiga um lífeyrisréttindi í Söfnunarsjóðnum verði í lögunum. Gert er ráð fyrir að í samþykktum sjóðsins verði sett frekari ákvæði um starfsemi hans eins og á við um lífeyrissjóðina almennt.

Með lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er sjóðnum fengið nýtt hlutverk. Samkvæmt 6. gr. þeirra skal ríkisskattstjóri hafa eftirlit með því að lífeyrisiðgjald sé greitt vegna hvers manns sem skyldutrygging lífeyrisréttinda nær til. Komi í ljós eftir könnun á framtali og samanburð á upplýsingum frá launagreiðendum og lífeyrissjóðum að ekki hafi verið greitt í lífeyrissjóð vegna einhvers manns skal senda upplýsingarnar til Söfnunarsjóðsins sem á þá að innheimta iðgjaldið.

Af öðrum atriðum vil ég nefna að í 3. gr. frumvarpsins er fjallað um stjórn sjóðsins. Lagt er til að stjórn sjóðsins verði skipuð með sama hætti og áður nema að gert er ráð fyrir að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins tilnefni ekki fulltrúa í stjórn sjóðsins eins og áður heldur skipi fjármálaráðherra þrjá í stað tveggja án tilnefningar. Með setningu nýrra laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins verður sú breyting að ríkisstarfsmenn eiga enga aðild að Söfnunarsjóðnum eins og verið hefur. Því er ekki talin ástæða til þess að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins tilnefni fulltrúa í stjórn Söfnunarsjóðsins. Lífeyrissjóðasamböndin hafa tilnefnt hvort sína tvo fulltrúa og gert er ráð fyrir að þannig verði það áfram samkvæmt þessu frv. Gert er ráð fyrir því áfram. Ekki er hægt að horfa fram hjá því að nú standa yfir viðræður um sameiningu lífeyrissjóðasambandanna í ein hagsmunasamtök lífeyrissjóða. Í drögum að samþykktum hinna nýju samtaka kemur fram að þeim verði stjórnað af framkvæmdastjórum og stjórnarmönnum lífeyrissjóðanna.

Í frumvarpinu er enn fremur kveðið á um heimild sjóðsins til móttöku viðbótariðgjalds en sjóðurinn fékk slíka heimild með breytingu sem gerð var á lögum hans árið 1996. Lagt er til að heimilt verði að ákveða í samþykktum að hluta af 10% iðgjaldinu sé varið í séreign en um slíka samþættingu sameignar og séreignar gilda 4. og 5. gr.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessa framsögu lengri, herra forseti, en legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.