Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 13:46:25 (935)

1998-11-05 13:46:25# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÓHann
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[13:46]

Ólafur Hannibalsson:

Herra forseti. Ég kem ekki hingað í ræðustól til að gera athugasemdir við einstök ummæli hæstv. ráðherra í ræðu hans um utanríkismál sem hann flutti þinginu áðan. Ég vil aftur á móti þakka honum sérstaklega fyrir þessa greinargerð um alþjóðleg viðhorf og stöðu Íslands í stórum og viðsjárverðum heimi.

Hins vegar vil ég nota tækifærið og koma hér á framfæri atriði sem ég sakna úr ræðu hæstv. ráðherra. Það varðar starf Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD að gerð alþjóðlegs sáttmála um fjárfestingar, sem kallaður hefur verið MAI-sáttmálinn eftir ensku skammstöfuninni á heiti hans, sem er Multilateral Agreement on Investment.

Þetta starf OECD á undanförnum árum hefur ekki farið hátt. Ég man raunar ekki til þess að það hafi verið gert að umtalsefni fyrr hér á Alþingi. Sumir munu segja að það sé hreinn óþarfi að vekja máls á þessu því að ríkisstjórnir hafa verið iðnar upp á síðkastið að lýsa þessa samningsgerð dauða og dottna upp fyrir. Þó er full ástæða til að ætla að ríkisstjórnir sem harðast hafa rekið á eftir gerð þessa samnings, stjórn Bandaríkjanna sérstaklega og Bretlands sem fylginauts hennar, hafi tekið upp aðra taktík í þessu máli og muni nú þrýsta á að fá einstök ákvæði hans samþykkt í öðru heimspólitísku samhengi, svo sem hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eða í heimsviðskiptaráðinu WTO. Þannig mundu ríkin láta sér nægja að fá sínu framgengt í stykkjatali í stað þess að fá það samþykkt í heild sinni sem alþjóðlegan sáttmála og algilda stefnuyfirlýsingu um vernd fjárfestinga og völd alþjóðafyrirtækja hvarvetna í heiminum.

Í rauninni telur Bandaríkjamaðurinn Lori Wallach, yfirmaður heimsviðskiptadeildar bandaríska neytendafélagsins sem kennt er við Ralph Nader og ég byggi það sem hér fer á eftir að nokkru leyti á grein hans, að yfirlýstur dauði MAI-samningsins sé yfirskin eitt og áfram verði unnið með leynd að því að þoka honum áleiðis. Wallach þessi skrifaði nýlega grein um þetta í Parísarblaðið Le Monde Diplomatique, sem einnig kemur út á ensku sem fylgiblað The Guardian. Þar lýsir hann því skýrt hvernig farið hefur verið á bak við þjóðþingin og embættismenn einir staðið að þessari stefnumótun á þriggja ára ferli gerðar þessa sáttmála.

Bandaríkjaþing vissi t.d. ekki af þessari samningalotu fyrr en einhvern tíma í fyrra. Jack Lang formaður utanríkismálanefndar franska þingsins sagði í desember fyrir tæpu ári: Við vitum ekki hver er að semja um hvað og í hvers nafni. Raunar mun hann hafa beitt sér fyrir því að tekið var af skarið núna í október, þegar ákveðið var að franska ríkisstjórnin drægi sig úr þessari samningalotu. Þar með hefur hún verið lýst dauð og ómerk og menn þurfi ekki að hafa frekari áhyggjur af þessu en annað gæti átt eftir að koma í ljós.

Þegar þetta samningsuppkast komst á netið, einmitt fyrir tilstilli þessara bandarísku neytendasamtaka Naders, olli það miklu uppistandi og hörðustu deilum þar á þinginu síðan unnið var að gerð NAFTA-fríverslunarsamningsins við Bandaríkin fyrir tíu árum. Þegar samningsuppkastið lak út í fjölmiðla í Nýja-Sjálandi þá olli það þar miklum æsingi og nú í maí á þessu ári voru harðar árásir gerðar á samninginn og frammistöðu Bandaríkjastjórnar á Bandaríkjaþingi. Þingið taldi að þarna væri farið á bak við sig í hápólitísku og mjög alvarlegu máli.

Ég ætla ekki að fara út í smáatriði um gerð MAI-samningsins. Ég veit að margir í þessum sölum hafa þungar áhyggjur af sjálfstæði þessa lands ef til inngöngu kæmi í Evrópusambandið. Við þá hina sömu vil ég segja að það væru smámunir einir hjá því sem yrði ef ákvæði þessa MAI-samnings yrðu að veruleika og hann yrði algildur alþjóðlegur sáttmáli sem tæki til allra ríkja, stórra og smárra, hvort sem það gerðist í stykkjatali og smám saman eða hann yrði samþykktur í heild sinni.

Meginatriði þessa samnings gengur út á að alþjóðafyrirtæki, sem teygja arma sína um heiminn, yrðu rétthærri en einstök þjóðríki. Þessi alþjóðafyrirtæki gætu dregið hvaða þjóðríki sem er í veröldinni fyrir alþjóðlegan dómstól, hvenær sem er, ef þau teldu að stjórnvaldsaðgerðir viðkomandi ríkis gætu leitt til minni hagnaðar en efni stóðu til þegar efnt var til tiltekinnar fjárfestingar í viðkomandi ríki. Þau gætu krafist hárra skaðabóta í reiðufé. Reyndar hefur reynt á svipað ákvæði í NAFTA-samningnum, fríverslunarsamningnum milli Bandaríkjanna, Kanada og Mexíkó. Kanada hefur tvisvar orðið að láta í minni pokann og reiða út mikið fé. Í annað skiptið fyrir að hafa vakið máls á ákveðnu máli á þinginu sem talið var skaða hagsmuni bandarísks fyrirtækis. Í hinu tilfellinu urðu þeir að falla frá því að framfylgja samþykkt sem gerð hafði verið í þinginu um að sígarettupakkar yrðu hér eftir í gráum lit og á þeim mættu ekki vera auglýsingar eða aðlaðandi auðkenni. Þetta er forsmekkur að því sem gæti gerst ef ákvæði þessa samnings yrðu uppfyllt, hvort sem sáttmálinn sjálfur yrði samþykktur eða honum yrði komið á með öðrum hætti.

Með öðrum orðum: Með þessum samningi væri hægt að lama getu ríkisstjórna til að setja lög, t.d. um verndun umhverfisins, varðveislu náttúrulegra auðlinda, setja lög um vinnuöryggi og sanngjarna framkomu við launþega og raunar hvað annað sem nöfnum tjáir að nefna.

Valdi ríkisstjórna til breytinga á skattalögum yrðu líka verulegar skorður settar. Þannig ber allt að sama brunni. Engar skuldbindingar og engin ábyrgð er sett á alþjóðafyrirtækin en þau geta dregið hvaða ríkisstjórn sem er fyrir alþjóðlega dómstóla hvenær sem er og krafist skaðabóta ef eitthvað í löggjöf eða reglum þessa ríkis verður til þess að rýra þann gróða sem fyrirtækin reiknuðu með að hafa þegar þau lögðu í fjárfestinguna í viðkomandi landi.

Ég er þess fullviss og tek undir það með þessum Bandaríkjamanni sem ég vitnaði til, að þessi MAI-sáttmáli er stórhættulegur meðan hann er til í pípunum og þjóðþing heimsins verða að halda vöku sinni þangað til hann er sannanlega og endanlega dauður.

Ég mun koma aftur að þessu áður en ég lýk máli mínu en ég vil skjóta hér inn kafla sem ég get ekki ætlast til að utanrrh. gerði heldur grein fyrir í ræðu sinni, enda ætla ég að brydda hér upp á nýjung í alþjóðasamskiptum. Það vill svo til að ég hef á undanförnum þremur, fjórum árum átt aðild að samstarfi nokkurra eyja í Norður-Atlantshafi. Nánar tiltekið eru það sjö eyjar sem allar hafa mismunandi forræði fyrir sínum málum. Tvær þeirra eru innan kanadíska ríkjasambandsins, Prince Edward Island og Nýfundnaland. Þar eru heimastjórnarríki innan danska ríkisins, Grænland og Færeyjar, það eru Álandseyjar sem hafa sérstöðu innan Finnlands og eyjan Mön sem er í sérstöku konungssambandi við Stóra Bretland. Ísland eitt nýtur fulls sjálfstæðis og sjálfforræðis.

Þessar eyjar hafa borið saman bækur sínar um hagkerfi sín og félagslega uppbyggingu. Það hefur verið mjög ánægjulegt að eiga þátt í þessum samskiptum. Þau hafa vakið mig til umhugsunar um hvort ekki er of mikil áhersla lögð, í mótun íslenskrar utanríkisstefnu, á að fylgjast með hinum stóru ríkjum, heimsveldum og ríkjum sem slaga hátt upp í það. Það gæti hreinlega borgað sig fyrir Ísland að hafa mann í utanrrn. sem sérhæfði sig í þekkingu á hinum smáu og smærri ríkjum í heiminum. Mér hefur skilist að það séu í kringum 100 ríki í Sameinuðu þjóðunum sem hafa milljón íbúa eða þaðan af minna, njóta mismunandi sjálfsforræðis, ýmist fulls sjálfstæðis eða tilheyra á einhvern hátt öðrum ríkum. En öll hafa þau alþjóðleg samskipti og mörg hver aðild að alþjóðlegum samtökum sem skipta okkur miklu máli. Ég vil t.d. benda á að umhverfisverndarsamtök eins og Greenpeace eru grunuð um að hafa bókstaflega keypt upp aðild að Alþjóðahvalveiðiráðinu, t.d. af Seychelleseyjum til þess að koma mönnum sínum að og beita sér þar fyrir hinum ýtrustu verndarsjónarmiðum, þvert ofan í stofnsáttmála þessa ágæta ráðs sem við erum nú reyndar ekki lengur í.

Þannig geta þessi ríki valdið okkur miklum erfiðleikum í hinum og þessum alþjóðlegu samtökum sem taka að sér að gefa út ákveðnar reglur um verslun og viðskipti, um hvað megi veiða og hvað megi ekki veiða, hvað megi versla með og hvað ekki. Þess vegna er full ástæða til þess að utanrrn. hugi að því hvort ekki mundi beinlínis borga sig að hafa sérfræðiþekkingu innan ráðuneytisins á málefnum þessara ríkja. Þessi ríki líta gjarnan upp til Íslands fyrir það sem þeim finnst hafa tekist vel í uppbyggingu þjóðríkisins eftir að við unnum sjálfstæði okkar fyrir 50 árum. Þetta er nú svona ábending sem ég vildi koma til hæstv. ráðherra til vinsamlegrar athugunar.

[14:00]

Aðalástæðan fyrir því að ég kom hér upp var þó þetta mál sem ég vakti athygli á hér áðan, þ.e. þessi MAI-samningur. Ég hef að undanförnu reynt að afla mér upplýsinga um texta þessa samnings til viðbótar við þá grein sem ég nefndi áðan eftir þennan forsvarsmann bandaríska neytendafélagsins. Minn skilningur hefur verið sá að það sé ekki verið að fjalla um þessi mál í utanrrn. heldur sé það nánast á forræði iðnrn. og ég hef enga ástæðu til þess að ætla annað en að góður og gegn embættismaður hafi séð um það þar. En ég held að full ástæða sé til þess að utanrrn. kynni sér þetta mál rækilega og að utanrmn. þingsins kynni sér líka öll gögn sem aðgengileg eru í þessu máli. Ég vil spyrja utanrrh. hvort því megi ekki treysta að með þessu máli verði fylgst ef það ætlar að lifna við aftur. Þó að það sé eins og dautt hross núna þá getur verið að einhverjir verði til þess að sparka í það lífinu.