Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 16:21:58 (977)

1998-11-05 16:21:58# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[16:21]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Í umræðum fyrr í dag spurði ég hæstv. utanrrh. um þær viðræður sem nú eru senn að hefjast um umfang og eðli starfsemi bandaríska varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, viðræður sem eru undanfari þess að menn endurmeti, ég vil segja, hinn nýja varnarsamning, þ.e. hinn svonefnda viðaukasamning sem núverandi hæstv. utanrrh. hefur gert og forveri hans einnig, 1994 fyrst og nú aftur 1996, og verður væntanlega endurnýjaður í einhverju formi árið 2001.

Hann svaraði því hér nokkru en ég vil spyrja nánar um þau efni og spyrja um stefnu ráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar þegar af stað er farið í þær viðræður. Hæstv. ráðherra lét þess getið að varnarsamningurinn frá 1951 stæðist tímans tönn. Ég vil engu að síður vekja á því athygli að í þessum bókunum, bæði 1994 og 1996, er þess getið í 1. gr. að Ísland og Bandaríkin staðfesti skuldbindingar sínar samkvæmt þeim tvíhliða varnarsamningi sem gerður var árið 1951. Með öðrum orðum, menn hafa séð ástæðu til þess að árétta þann skilning sem þá var gerður. Þess vegna kalla ég þetta hinn nýja varnarsamning, enda skiptir það meginmáli hvernig hann er útfærður og það er verið að gera hér.

Sérstaklega vil ég inna hæstv. ráðherra eftir því, því að það er ákveðið lykilatriði í þessu sambandi um umfang starfseminnar og þau störf sem þarna falla til, þ.e. 800 störf sem Íslendingar hafa með höndum hjá varnarliðinu beint og önnur 800 hjá verktökum, hvort hann hafi núna við upphaf viðræðna fengið einhverja tilfinningu fyrir því hver stefna Bandaríkjastjórnar væri. Og ég vil spyrja hver stefna íslenskra stjórnvalda sé í þessum efnum.

Orrustusveitirnar sem eru beintengdar björgunarþyrlunum og björgunarsveitinni eru þar auðvitað lykilatriði. Sér hann fyrir sér einhverjar breytingar þar á eða hvaða mynd getur hann dregið upp fyrir hv. þingmenn í þessum efnum?