Skýrsla Ríkisendurskoðunar um jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 16:59:13 (988)

1998-11-05 16:59:13# 123. lþ. 21.91 fundur 95#B skýrsla Ríkisendurskoðunar um jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins# (umræður utan dagskrár), Flm. LB
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[16:59]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég fagna því sérstaklega að ráðherra skuli taka undir þær hugmyndir að nauðsyn sé á því að skoða ráðuneytið í kjölfar þeirrar úttektar sem fram hefur farið á jarðadeildinni og fram fari einhvers konar allsherjarúttekt á landbrn. Ég fagna því sérstaklega í þessari umræðu.

Á hinn bóginn vil ég mótmæla því að starfsemi tiltekinnar deildar í tilteknu ráðuneyti, eins og fram kom hjá hæstv. landbrn., lúti ekki stjórnsýslulögum eða þeim lögum sem um hana kunna að gilda sökum þess að hún sé einhvers konar félagsmálaaðstoð. Er það þá einhver prívat ákvörðun hæstv. landbrh., að fella tiltekna deild undan lögum í þessu landi eða hvað? Virðulegi forseti. Við skulum ekki bera svona röksemdir á borð á hinu háa Alþingi.

[17:00]

Í öðru lagi vil ég líka nefna, virðulegi forseti, varðandi þá umræðu að gríðarlegt álag sé á þessari deild, að þegar skýrslan er skoðuð kemur fram að milli fimm og sex ár geta liðið frá því að mál berst ráðuneytinu þar til því er lokið. Hér er á ferðinni afgreiðsla á 109 málum á fimm árum. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að ef þetta er gríðarlegt álag þá á það líklega við um flestallar ríkisstofnanir í landinu að bæta þurfi við fólki.

Skýrsla sú sem hér er til skoðunar fjallar aðeins um þessi mál. Hún fjallar um 109 mál á þessum tíma, hvorki meira né minna. Það er farið mjög vandlega yfir afgreiðslu þessara mála og niðurstaðan er sú að nánast allar þær reglur sem hægt er að brjóta eru brotnar. Ég skil hæstv. landbrh. vel að hann skuli á hinu háa Alþingi lýsa því yfir að lögin eigi bara ekki við um þessa deild. Það gildi bara einhverjar allt aðrar reglur.

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra beindi ég engri sérstakri spurningu til hans heldur mæltist til þess að fá einhverjar skýringar á því að í heilu ráðuneyti viðgangist starfsemi af þeim toga sem lýst er í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Ég ætla að beina því til hæstv. ráðherra hvort hann hafi eða hvers vegna hann hafi ekki á þeim þremur árum sem hann hefur ríkt þarna látið fara fram skoðun á þessu fyrr. Þetta kemur ekki upp fyrr en Ríkisendurskoðun tekur þessa deild til sérstakrar skoðunar. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir hæstv. ráðherra að þetta skuli líðast í hans ráðuneyti og enn frekar rök fyrir því að ráðuneytið verði tekið til sérstakrar skoðunar. Að minnsta kosti mun ég beita mér fyrir því í þingflokki jafnaðarmanna, ef ráðherra hefur ekki frumkvæði að því sjálfur, að ráðuneytið verði skoðað sérstaklega.