1998-11-11 16:39:00# 123. lþ. 22.11 fundur 193. mál: #A jafnræði kynja við fjárveitingar til æskulýðs-, tómstunda- og íþróttastarfs# þál., ÞHS
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[16:39]

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir:

Hæstv. forseti. Á undanförnum árum hafa þó nokkur bréf frá stúlknahópum og aðstandendum þeirra borist til Jafnréttisráðs. Ráðið hefur ítrekað gert athugasemdir við félög þessara stúlkna vegna álíka mála og hér er um að ræða. Þar hefur oft skort á að fjárframlögum væri skipt jafnt á milli kynja. Íþróttaþátttaka stúlkna leiðir til betri heilsu auk þess sem þær t.d. reykja síður og neyta síður áfengis, þær nota tímann í þetta og þetta er þeirra áhugamál. Íþróttaiðkun stuðlar að aukinni vellíðan ungs fólks og skapar betri sjálfsímynd. Það skiptir miklu máli að stúlkurnar séu jafn vel settar og piltarnir.

Reyndar hefur konum fjölgað talsvert í íþróttum eftir herferðina með Völu Flosadóttur á síðasta ári. Það er gott og hefur haft verulega áhrif á þátttöku. Það hefur hins vegar ekki haft áhrif á fjármálahliðina.

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur hefur unnið eftir jafnréttisáætlun, það kom fram þegar Reykjavíkurborg fékk viðurkenningu Jafnréttisráðs nýverið.

Ég tek undir það að lítil umfjöllun er um íþróttir kvenna í fréttum útvarps og sjónvarps og kvennaíþróttir sjást sjaldan í fréttatímum sjónvarps nema þá einna helst seint á kvöldin eða á óheppilegum tíma. Við þetta má bæta að íþróttir karla eru líka mun meiri söluvara en íþróttir kvenna þannig að ég tek eindregið undir þessa þáltill.