Úttekt á útlánatöpum Landsbankans og Búnaðarbankans

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 15:56:38 (1074)

1998-11-12 15:56:38# 123. lþ. 23.20 fundur 8. mál: #A úttekt á útlánatöpum Landsbankans og Búnaðarbankans# þál., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[15:56]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra er að færast heldur nær kjarna málsins. Hann segir þvert á það sem hann sagði fyrr á þessu ári, þá fannst honum 14 milljarða útlánatöp eðlileg. Nú viðurkennir hann að þetta sé nokkuð mikið. Það skilar okkur svolitlu, kannski nokkuð áleiðis og hlýtur það að geta leitt til þess að hæstv. ráðherra telji rétt og eðlilegt að þessi úttekt fari fram vegna þess að ráðherrann sagði að 1% af útlánum væri áhætta sem væri ekki óeðlilegt að taka en ég hef sýnt fram á að þetta er miklu meira, þetta er 2--2,5%.

Þegar við vorum að bera saman byggingarsjóðina áðan, þá gerði ég það af því tilefni að um þá var spurt af hv. þm. Magnúsi Stefánssyni og kom þá fram hvað útlánatöpin voru lítil hjá Byggingarsjóði verkamanna. Þegar talað er um vanskil þar þá er það auðvitað brotabrot af því sem er í bankakerfinu. Þetta allt leiðir til þess, herra forseti, að ég tel að fara eigi fram umræða um það í nefndinni að reynt verði að ná samstöðu meðal stjórnar og stjórnarandstöðu um að þessi úttekt fari fram. Ég tel að hún sé nauðsynleg. Ekkert af því sem hefur kom fram í málflutningi hæstv. ráðherra segir að slík úttekt sé óþörf. Við eigum að læra af því sem hefur gerst á þessu tímabili, sem er auðvitað kjarni þessa máls. En að halda því fram að verið sé að flytja þessa tillögu út af einhverri refsigleði eða með einhverjum skringilegum fororðum, eins og ráðherrann nefndi og að ég væri að reyna að slá pólitískar keilur eru auðvitað orð sem eru út í hött og hæstv. ráðherra ekki sæmandi.