Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 18:13:48 (1132)

1998-11-16 18:13:48# 123. lþ. 24.32 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[18:13]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég kannast við þá frétt sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir er að vitna til og hef spurst fyrir um þetta mál hjá þeim sem ég tel að best til þekki, eins og hjá Fjárfestingarbankanum. Sjálfsagt hafa einhver brögð verið að þessu. Ég ætla hins vegar ekki að kveða upp neina dóma á þessari stundu um það í hversu miklum mæli þetta hefur verið gert. Ég tel að þetta sé ekki rétti tíminn til þess vegna þess að nú mun það auðvitað koma í ljós á næstu dögum hvort þarna hefur verið um það að ræða að menn hafi verið í kennitölusöfnun í þeim tilgangi að komast yfir stærri hlut í Fjárfestingarbankanum en menn annars gætu. Ef um það er að ræða gengur þetta þvert á það sem var tilætlaður tilgangur ríkisstjórnarinnar með þessari einkavæðingu, þ.e. að ná fram mjög dreifðri eignaraðild á bankanum.

Nú var þarna um mun hærri upphæðir að ræða í Fjárfestingarbankanum en menn gerðu ráð fyrir í útboðunum í Landsbanka og Búnaðarbanka. Ástæðan var sú að vegna viðskiptatengsla bæði Landsbanka og Búnaðarbanka töldu menn að viðskiptamennirnir hefðu meiri áhuga fyrir kaupum þar en í Fjárfestingarbankanum, þ.e. að almenningur yrði ekki eins áfjáður í að kaupa Fjárfestingarbankann og hina bankana. Það kom hins vegar í ljós að ekki er síðri áhugi fyrir Fjárfestingarbankanum en hinum. Tilgangurinn okkar var sá að ná fram mjög dreifðri eignaraðild.

Komi hins vegar í ljós að þarna hafi verið um stórfellda kennitölusöfnun að ræða, eins og haldið er fram, --- ég tek skýrt fram að ég ætla ekki að leggja mat á það nú --- þá finnst mér þar vera um alvarlega hluti að ræða og kalli á það að við þurfum að hugsa þetta fyrirkomulag dálítið upp á nýtt, þ.e. ef menn ætla að nýta sér svona tækifæri til þess að eignast stóra hluti í bankanum, vegna þess að þá erum við að horfa líka á aðra hluti í verðmætunum í fyrirtækinu. Ekki er nokkur einasti vafi á því að ef við mundum bjóða Fjárfestingarbankann út í einu lagi eða í tveimur, þremur pörtum þá fengjum við hærra verð fyrir hann í útboði en 1,4. Það er alveg klárt. En verðmætamatið á bankanum er 1,4 núna. Af hverju væri það hærra ef við byðum hann út í þessum pörtum? Vegna þess að þá væru menn líka að kaupa völdin og áhrifin sem því mundu fylgja. Tilgangurinn með þessari einkavæðingu var ekki sá heldur að ná fram dreifðri eignaraðild.