Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 19:07:27 (1144)

1998-11-16 19:07:27# 123. lþ. 24.32 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[19:07]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði áðan að ég held það sé rétt í ljósi reynslunnar af þessu útboði að menn staldri aðeins við og taki stöðuna aftur. Hvaða leið er skynsamlegust sem næsti áfangi?

Ég vil ekkert útiloka að það sé skynsamlegt að halda áfram með þessa dreifðu sölu. Ég vil alls ekki útiloka það. Þá er spurningin: Hversu stórir eiga hlutirnir að vera? Og kannski í ljósi þess, eins og hv. þm. var að benda hér á, hversu áhuginn er mikill þá eigum við að skoða það nákvæmlega út frá því.

Það er hins vegar ekki svo að allir standi jafnt að vígi við að kaupa þessa hluti. Ef ég hef skilið hv. þm. rétt, að það þyrfti að koma þessu í eigu þjóðarinnar, þá er það svo að menn hafa mismunandi fjárráð --- og ég býst við að jafnaðarmennirnir hafi fullan skilning á því --- til þess að kaupa slíka hluti. Þess vegna hef ég velt því fyrir mér, ekki bara gagnvart Fjárfestingarbankanum og kannski ekki gagnvart honum, heldur gagnvart Búnaðarbanka og Landsbanka, hvort það væri skynsamlegt að bjóða viðskiptamönnum þessara banka kaup á eignarhlutum ríkisins í Búnaðarbanka og Landsbanka á tiltölulega mjög hagstæðum kjörum, á gengi sem væri eitthvað fyrir neðan markaðsgengið, en jafnframt þá um leið að binda það að þeir þyrftu að eiga þessi fyrirtæki kannski í þrjú ár þannig að við verðum þá raunverulega með eigendur hlutabréfa sem ætla sér að eiga fyrirtækin en kaupa ekki bara vegna stundarhagnaðar, því það er mikilvægt fyrir þessi fyrirtæki líka að hafa góða eigendur að baki sem sýna því áhuga hvernig þau eru rekin.

Þetta vil ég skoða. Ég vil skoða þetta út frá hagsmunum viðskiptamannanna vegna þess að það eru viðskiptamennirnir m.a. sem hafa lagt grunninn að góðu gengi þessara fyrirtækja að undanförnu, þ.e. hver staða þeirra er, kannski umfram allt.