Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 14:41:09 (1167)

1998-11-17 14:41:09# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., MS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[14:41]

Magnús Stefánsson:

Hæstv. forseti. Ástand í þróun byggðar í landinu hefur mönnum verið kunnugt um alllangt skeið. Mikið hefur verið rætt um þessi mál og skýringa hefur verið leitað á því hvað veldur. Ég er þeirrar skoðunar að allt of margir þeirra sem málið varðar, bæði í stjórnsýslunni og á Alþingi, hafi í reynd skellt skollaeyrum við umræðunni. Mér hefur fundist sumir á tíðum vilja afgreiða umræðuna um byggðamál sem hálfgert nöldur í þeim sem í raun og sanni hafa skynjað eðli málsins og hafa raunverulegar áhyggjur af byggðaþróuninni. Þetta er ekki algilt, ég tek það fram, en mér hefur fundist þetta á tíðum vera með þessum hætti.

Um langt skeið hefur verið til skrifuð byggðastefna á einu eða öðru formi. Þannig hefur því verið lýst á pappír hvernig byggð skuli vera í landinu og hvernig skuli stuðla að því. En það er hins vegar ekki nóg að teikna upp módelið. Það skiptir höfuðmáli að vinna eftir því í framkvæmd. Þar hefur nokkuð skort á að mínum dómi í gegnum tíðina.

En nú er það svo að þróun búsetu og byggðar í landi eins og Íslandi hlýtur að byggjast á hinum ýmsu forsendum og aðstæðum sem uppi eru hverju sinni. Að ýmsu leyti er um sjálfkrafa þróun að ræða sem erfitt er að hafa áhrif á. Fólk hefur ýmsar persónulegar ástæður til þess að flytjast milli staða. Þróun atvinnulífs skiptir verulega miklu máli. Hún ræðst oftar en ekki af landfræðilegum og samfélagslegum aðstæðum hverju sinni. Síðan vegur þungt í þessu efni, í þessu samhengi, hvernig stjórnvöld og löggjafarvaldið kemur að málum. Það er ljóst að stjórnvöld geta haft mikið um það að segja hvernig byggðaþróun er í landinu. Dæmi um slíkt má sjá í öðrum löndum þar sem stjórnvöld hafa beitt aðgerðum til þess að viðhalda byggð á ákveðnum landsvæðum.

Lagasetning á Alþingi ræður miklu um það hvernig þessi mál þróast. Ákvæði einstakra laga geta þannig ráðið því hvernig þjónusta, búsetuskilyrði og annað er málið varðar verði á landsbyggðinni, allt eftir því hvar um er að ræða. Ég tel að lögfesting margra laga á Alþingi hafi á síðustu árum beinlínis ýtt undir þá byggðaþróun sem verið hefur, þótt ég haldi því ekki fram að lagasetning hafi átt sér stað markvisst í þeim tilgangi, heldur hafi lagasetning haft þessi áhrif án þess að þeir sem hafi samið viðkomandi lagafrv. eða unnið að lagasetningunni hafi gert sér nægilega skýra grein fyrir því hverjar afleiðingar hennar mundu verða þegar litið er til byggðamálanna.

Í ljósi þessa mun ég á næstu dögum leggja fram þings\-ályktunartillögu sem kveður á um það að með stjórnarfrumvörpum sem lögð eru fram á Alþingi skuli fylgja mat á því hvaða áhrif lögfesting viðkomandi frumvarpa kunni að hafa á byggð og búsetu í landinu. Ekki síst í ljósi þeirrar búsetuþróunar sem við okkur blasir hlýtur að vera nauðsynlegt og mikilvægt fyrir alla aðila máls að gera sér einhverja grein fyrir því hvaða áhrif lagasetning og aðrar stjórnvaldsaðgerðir kunni að hafa á byggðaþróun í landinu.

Í þessu sambandi má nefna að langmest af stjórnsýslunni og framkvæmdarvaldinu er staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Langflestir sem starfa við þetta eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu og hafa lítil sem engin tengsl við landsbyggðina. Þess frekar hlýtur að vera nauðsynlegt að Alþingi beiti sér fyrir því að þeir sem að þessum málum koma geri sér sem best grein fyrir þeim afleiðingum sem kunna að verða af störfum þeirra.

Herra forseti. Hér er rætt um skýrslu Byggðastofnunar og þar kemur ýmislegt fram sem hún hefur unnið að á síðasta ári. Starfsemi Byggðastofnunar er eins og fyrr margvísleg og spannar yfir mörg svið. En það er nú svo með Byggðastofnun eins og aðrar stofnanir og önnur mannanna verk að ýmislegt er gagnrýnt þar eins og gengur. En Byggðastofnun hefur beitt sér fyrir mörgum góðum hlutum og þar hafa menn leitað margra nýrra leiða á síðustu árum. Þar vil einkum nefna tvennt:

[14:45]

Í fyrsta lagi eflingu atvinnuþróunarstarfs úti um landið þar sem Byggðastofnun hefur leitað samstarfs við heimamenn á viðkomandi svæðum, sem skiptir auðvitað höfuðmáli ef menn ætla að ná árangri í atvinnuþróunarstarfi úti um landsbyggðina, og í því sambandi hefur Byggðastofnun beitt sér fyrir uppbyggingu tölvusamskipta milli landshluta sem ég tel að geti leitt til ákveðinnar byltingar í atvinnuþróunarstarfi.

Í öðru lagi má nefna þær rannsóknir á búsetuþróun í landinu sem Byggðastofnun beitti sér fyrir á síðasta ári. Ég tel að þar sé um að ræða mjög gott mál sem er nánast einsdæmi hér á landi og mjög mikilvægt innlegg í þá umræðu og þær aðgerðir sem þurfa að eiga sér stað varðandi byggðamálin.

Í hinum umfangsmiklu rannsóknum sem unnar hafa verið að frumkvæði Byggðastofnunar að undanförnu koma margar athyglisverðar upplýsingar fram um þróun byggðar og búsetu í landinu á liðnum árum og ég vil, herra forseti, nota þetta tækifæri og þakka Byggðastofnun fyrir þetta frumkvæði því ég tel þessar rannsóknir einstakar hér á landi. Það er í raun óþarfi að fjölyrða um það sem fram hefur komið í þessum efnum því margt af því hefur þegar komið fram bæði í umræðunni í dag og eins áður, en niðurstaðan er sú sem ekki kemur á óvart að það eiga sér stað og hafa átt sér stað þjóðflutningar --- ég vil nefna þetta þjóðflutninga --- sem eiga sér vart sína líka í okkar heimshluta. Ástæðurnar eru að sjálfsögðu margvíslegar eins og fram kemur í skýrslu Byggðastofnunar en það eru hins vegar áleitnar spurningar og hugsanir sem koma upp í hugann þegar fjallað er um þessi mál, t.d. þær hvort ráðandi öfl í þjóðfélaginu hafa í reynd viljað að þróunin eigi sér stað á þennan hátt, þ.e. að þar eigi að gilda ákveðin markaðslögmál án þess að til komi sérstakar ráðstafanir stjórnvalda til að bregðast við.

Ég tel að við séum nú nálægt þeim tímamótum sem ráða því hvort við getum brugðist við og haft einhver áhrif á þessa þróun eða ekki. Tími róttækra og aukinna stjórnvaldsaðgerða verður að renna upp hið fyrsta. Það er mín skoðun. Ég er einnig þeirrar skoðunar að við gerð fjárlaga næsta árs verði að gera ráð fyrir auknum framlögum til aðgerða til að draga verulega úr misvægi búsetuskilyrða í landinu og að þær aðgerðir verði að koma til strax í upphafi næsta árs. Sem dæmi má nefna jöfnun húshitunarkostnaðar sem greinilega skiptir verulega miklu máli varðandi búsetu í landinu og einnig jöfnun raforkuverðs. Í því sambandi vil ég nefna að á vegum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu á sér stað uppbygging á raforkuverum og í framleiðslu raforku sem ég tel að við getum borið ákveðinn ótta í brjósti til því það getur alveg eins farið svo að það muni enn frekar auka þann mun sem er í raforkuverði á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og landsbyggðinni hins vegar.

Annað vil ég nefna í þessu sambandi. Það varðar námskostnað framhaldsskólanema. Ég tel að þar verði verulega að auka við í fjárlagafrv. fyrir næsta ár því það er staðreynd að sá mikli kostnaður sem fjölskyldur þurfa að bera vegna náms barna við framhaldsskóla fjarri heimili skiptir verulega miklu máli fyrir búsetu fólks úti um landið. Í þessu sambandi má einnig nefna að koma þarf til átak í að efla fjarkennslu og fjarnám á landsbyggðinni. Það gildir jafnt um háskólanám sem framhaldsskólanám. Víða um landið er að myndast starfsemi í tengslum við þetta, t.d. í sambandi við símenntun. Það hefur átt sér stað uppbygging í þeim efnum á Austurlandi og Suðurnesjum og nú eru Vestlendingar búnir að taka saman höndum um að byggja upp öflugra símenntunarstarf.

Það mætti auðvitað nefna fleiri atriði í þessu sambandi en þau koma flest fram í skýrslu Byggðastofnunar þannig að ég ætla ekki að eyða miklum tíma í það hér og nú. En síðan þurfa að koma fram rökstuddar og markvissar aðgerðaáætlanir til lengri tíma. Að vísu er kveðið á um það í tillögum hæstv. forsrh. þannig að ég ætla ekki að fjölyrða um það.

Sú tillaga sem hæstv. forsrh. mælti fyrir um stefnu í byggðamálum er á margan hátt mjög góð tillaga og tekur m.a. mið af þeim rannsóknum og tillögum sem koma fyrst og fremst fram frá Byggðastofnun. Án þess að ég ætli að fjalla um hana í smáatriðum vil ég einungis segja að þessi tillaga er mjög góð stefnumörkun og ég vænti þess að unnið verði eftir henni á næstu árum. Það er ekki nóg að koma fram með skrifaða stefnu í byggðamálum. Það eru aðgerðirnar og framkvæmdin sem skiptir máli og því vænti ég þess að sú tillaga sem hér liggur fyrir verði afgreidd sem allra fyrst sem ályktun Alþingis. Hins vegar er ljóst að stjórnvaldsaðgerðir einar og sér duga ekki til. Það hefur margoft komið fram í umræðunni um byggðamál. Þar skipta heimamenn á hverju svæði miklu máli, hvernig þeir beita sér í þessum efnum. Í því sambandi má nefna og hefur einnig margoft komið fram í umræðunni að það er mikilvægt að efla sveitarstjórnarstigið og stækka þær heildir sem sveitarfélögin eru víða úti um landið. Það sem sveitarstjórnarmenn t.d. geta beitt sér fyrir er að bæta ímynd heimabyggðanna og koma því á framfæri til þjóðarinnar hversu gott er að búa víða úti um landið. Þar er nefnilega virkilega gott að vera víðast hvar og búsetuskilyrði þrátt fyrir allt eru í góðu lagi.

Herra forseti. Ég ætla að fara að stytta mál mitt. Ég er þess fullviss að niðurstöður þeirra rannsókna á þróun á byggð í landinu sem Byggðastofnun hafði frumkvæði að hafi kallað fram samstöðu á Alþingi um að við svo búið geti ekki staðið og að nú séu þær aðstæður uppi að ná má samstöðu um að þeim aðgerðum t.d. sem koma fram í þáltill. hæstv. forsrh. verði hrint í framkvæmd. Alþingi og stjórnvöld verða að beita þeim ráðum sem mögulegt er að beita til að bregðast við þeim aðstæðum sem uppi eru í byggðamálum áður en það verður um seinan.