Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 15:22:37 (1177)

1998-11-17 15:22:37# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[15:22]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Menn hafa vísað til áranna 1970--80 sem fyrirmyndar um byggðamál og stöðu byggða og byggðaþjónustu og byggðastyrkja og þess háttar. Menn hafa jafnframt vísað til sjónarmiða Stefáns Ólafssonar. Það er fróðlegt að heyra hvað Stefán segir, með leyfi forseta:

,,Á mynd 1 sést vel hve sérstakur áttundi áratugurinn var í búsetuþróuninni. Má þakka það miklu átaki í uppbyggingu sjávarútvegs, samgöngumannvirkja og opinberrar þjónustu á landsbyggðinni. Svo atkvæðamiklar og kostnaðarsamar voru framkvæmdirnar á landsbyggðinni á þessum árum og sumar þeirra svo óarðbærar að byggðastefna stjórnvalda féll í mikla ónáð sem varað hefur allt fram á þetta ár.``

Í huga almennings í landinu hafa menn verið að súpa seyðið af þessari stefnu allt fram á þetta ár. Ég hygg að það hafi einmitt gerst núna að menn horfa miklu vinsamlegar til þeirrar vinnu og þeirra tillagna sem stjórn Byggðastofnunar hefur sett fram vegna þess að í tillögunum felst trú á landsbyggðina. Í þeim felast ekki tilburðir í þá átt að reyna að halda einhverju kerfi, þjónustu eða mannlífi uppi með gamaldags styrkjakerfi, með stoðum sem fúna og feysknar verða, heldur hafa menn trú á því að möguleikarnir á landsbyggðinni séu ærnir og það eigi að hjálpa mönnum til að nýta slíka möguleika. Það finnst mér vera góði andinn í þessari tillögu Byggðastofnunar og þess vegna er ég sannfærður um að þessi tillögugerð, ef við fylgjum henni sæmilega eftir, mun ekki kalla á andúð eða ósætti neins staðar, hvorki í þéttbýli né dreifbýli, gagnvart tillögunni.