Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 15:30:58 (1181)

1998-11-17 15:30:58# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., KH
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[15:30]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér er um mjög merkilegt og mikilvægt mál að ræða og ekki síst merkilegar upplýsingar sem greinargerð með tillögunni hefur að geyma, upplýsingar sem ég hef reyndar ekki enn kynnt mér út í hörgul en nóg til þess að þær eru augljóslega afar gagnlegar til að gera sér grein fyrir ástandinu og hvernig helst er ráð að bregðast við því. Þar er á ýmsan hátt farið inn á nýjar brautir. Þar á ég sérstaklega við umfjöllun um menningarmál af ýmsu tagi sem er til marks um það að menn eru loks farnir að gera sér alvarlega grein fyrir því hversu fjölþættur þessi vandi er því hann snýst auðvitað ekki aðeins um atvinnumál og samgöngur heldur eru það ekki síst félagslegar aðstæður sem ráða, hvort sem um brýnustu þjónustu er að ræða í heilsugæslu og menntun eða öðru þess háttar. Það skiptir gríðarlegu máli hvaða kostir eru í boði á menningarsviðinu í hinum víðasta skilningi þess orðs. Sá þáttur er afar mikilvægur og líklega æ mikilvægari í þessu samhengi vegna þess að mannskepnan vill nú einu sinni hafa að ýmsum kostum að ganga og þess vegna er öll fjölbreytni í afþreyingu og menningu mjög mikilvæg í þessu tilliti.

Ég minnist þess þegar ég sat í svonefndri byggðanefnd þingflokkanna sem sett var á laggirnar fyrir rúmum áratug, ég man nú ekki nákvæmlega árið, í tengslum við breytingar á kosningalögunum sem þá voru gerðar, nefnd sem starfaði lengi og sat marga fundi og skilaði skýrslum með tillögum, að þá var nú ekki ríkur skilningur á þessu atriði. Það var naumast að það kæmi til álita. Þá voru menn ákaflega uppteknir af atvinnumálum og samgöngumálum sem meginorsökum þess að fólk hneigðist til búsetu í þéttbýli frekar en í dreifbýli og þá allra helst til búsetu á suðvesturhorni landsins og eyddu litlum tíma í umfjöllun um aðra þætti. Mér fannst reyndar athyglisvert í upphafi þess starfs að kynnast öllu því sem hafði verið unnið áður um nákvæmlega sömu mál því þær eru orðnar margar nefndirnar, fyrir utan sjálfa Byggðastofnun, sem fengist hafa við byggðamál og margar skýrslurnar sem litið hafa dagsins ljós og sumar kannski lítið meira en það áður en þær hafa horfið undir rykið í hillum ráðuneyta og stjórnmálamanna. Meginþunginn í þeim öllum hefur snúist um atvinnumál og auðvitað skipta þau mjög miklu máli og þá fyrst og fremst að um eitthvað sé að velja.

Einhæfni atvinnulífsins víða um land er þröskuldur í vegi byggðaþróunar og raunar enn meiri nú en áður vegna breyttra aðstæðna í fjölskyldum landsmanna. Ég hef áður minnt á það og vil gera það enn einu sinni að sá tími er auðvitað liðinn að búseta geti farið eftir atvinnu heimilisföður eins og áður var. Konur eru virkir þátttakendur í atvinnulífinu, þær mennta sig ekki síður en karlar og bæði þær sjálfar og þjóðfélagið í heild eiga rétt til þess að sú menntun nýtist og auðvitað eiga menn að vita þetta og viðurkenna að þetta þarf að taka með í reikninginn við mótun byggðastefnu. En það er ekki gert í neinum mæli eða af neinni alvöru og ég sé ekki að það sé gert í þessari tillögu sem hér er til umræðu.

Menn hafa á undanförnum árum hrokkið við öðru hverju og sett einhverja fjármuni í eitthvað lítið og sætt sem kennt er við kvenfólk. Það hefur afskaplega lítið að segja þótt konur hafi að vísu einstaka hæfileika til að nýta slík tækifæri til hins ýtrasta en þetta er bara atriði sem þarf að hafa fyllilega inni í heildarmyndinni og leitast þarf við að efla og styrkja atvinnu sem tekur mið af þörfum og aðstæðum beggja kynja. Þetta reyndi ég að segja félögum mínum í byggðanefndinni góðu um árið en þeir hlustuðu lítið. Reyndar verð ég að segja að kannski er meginvandi byggðavandans sá hve umræðan vill oft verða neikvæð og nöldurskennd og á kannski þátt í því að skapa það andrúmsloft sem hv. síðasti ræðumaður talaði um. Mér finnst ég oft skynja skyldleikann við kvennabaráttuna þar sem vandinn er líka margþættur og margt sem lagfæra þarf og því vill umræðan þar oft verða ærið staglkennd, nöldursleg og neikvæð. Það er vissulega ekki gott og leiðir til þess að konur eru gjarnan álitnar síóánægðar, leiðar og sífrandi þegar staðreyndin er auðvitað sú að þær eru fyrst og fremst glaðar í sinni og stoltar af því að vera konur þó þær þurfi að minna á það sem betur má fara. Og þannig er það líka með fólkið á landsbyggðinni. Það er stolt af sinni byggð og uppruna sínum en það gerir sínar kröfur og þar er náttúrlega af ýmsu að taka.

Í þessu þingmáli segir að við stöndum nokkuð að baki nágrannaþjóðum okkar í þeim efnum að sporna við öfugþróun í byggðamálum og helsta niðurstaða tillögunnar er að verja fé til að snúa þar við blaði þótt það sé nokkuð óljóst nema kannski að því er varðar þátttöku í eignarhaldsfélagi á landsbyggðinni sem er svona eina talan í rauninni sem er sett fram sem eitthvað haldfast. Það er auðvitað rétt að gera þarf ýmsa hluti. Það þarf að verja fé til margra þátta. Hins vegar er ekki að sjá í því frv. til fjárlaga sem við erum að fást við þessa dagana að gert sé ráð fyrir slíku þannig að það hlýtur að þurfa að gerbylta því frv. Það er alveg óhugsandi annað ef menn ætla og meina eitthvað með þessari tillögu.

Margt hefur verið gert á undanförnum árum og áratugum. Lagðir hafa verið vegir og brýr byggðar og mér finnst gjörbylting hafa orðið í samgöngumálum þó alltaf megi gera betur. Það hafa verið byggðar hafnir og skólar efldir, framhaldsskólum hefur fjölgað og heilsugæslan hefur verið byggð upp þó að þar sé vissulega margháttaður vandi eins og í sambandi við að fá lækna og annað starfsfólk til að sinna heilsugæslu. Það hefur orðið gjörbylting í fjarskiptum og samskiptum öllum. Miklu fé hefur verið varið til atvinnumála, e.t.v. ekki nógu markvisst og þarf ekki annað en minna á uppbyggingu sem átti að bjarga ýmsu í fiskeldi og loðdýrarækt og fleiru slíku og ýmislegu í tengslum við sjávarútveginn. Það sem helst hefur dugað er sú uppbygging sem orðið hefur í ferðaþjónustunni. Hún hefur örugglega skilað mestu. Samt er ástandið eins og það er. Fólkinu fækkar sífellt í öllum kjördæmum nema þremur en þrátt fyrir það er ætlunin að halda áfram aðgerðum á mjög svipuðum brautum og áður. Satt að segja er fátt nýtt á ferðinni í þessari tillögu en þar með er ég auðvitað ekki að segja að ég sé andvíg ýmsu af því sem þar kemur fram. Ég vil samt taka það fram að byggðastefna má ekki snúast í andhverfu sína þannig að fólki sé í rauninni refsað fyrir að vilja búa í þéttbýlinu á suðvesturhorni landsins. Það hefur að mínu mati verið mjög rík tilhneiging til þess að líta með meiri velvilja til þarfa þeirra sem búa utan þessa svæðis og þá vitna ég til reynslu minnar af störfum í fjárln. Mér finnst þetta koma fram í ýmsum efnum. Skýrasta dæmið núna eru málefni fatlaðra sem er að mörgu leyti vel fyrir komið í öllum kjördæmum landsins, nema R-kjördæmunum tveimur eins og mætti orða það. Þar er ástandið beinlínis óþolandi og aldeilis órafjarri því sem stjórnvöldum ber að leggja fram og sinna af lögboðnum verkefnum sínum. Og þannig hefur verið í fleiri þáttum t.d. í uppbyggingu heilsugæslu sem á suðvesturhorninu hefur verið langt á eftir því sem hefur gerst utan þessara svæða og er ekki enn fyllilega búið að byggja upp þannig að til sóma sé. Sama ástand var í skólamálunum þegar grunnskólinn var fluttur til sveitarfélaganna. Þá skorti fyrst og fremst húsnæði hér á þessum svæðum.

Vissulega er rétt að reyna að sporna við íbúaþróuninni og reyna að gera fólki kleift að búa utan þéttbýlisins á suðvesturhorninu, ef það vill það, en það er rangt að refsa því fyrir að vilja búa í þéttbýlinu suðvestanlands. Það er réttur hvers manns að velja sér búsetu sjálfur og það er réttur hvers manns að fá þá þjónustu sem lögboðin er.

En það er ýmislegt í þessari tillögu sem er að mínu mati alveg rétt þótt fyrst og fremst sé verið að tala um meira af því sem gert hefur verið. Þar er fyrst til að taka nýsköpun í atvinnulífinu og þar eru fyrst nefndar til sögunnar þróunarstofur, að þær verði efldar. Ég er ákaflega sammála því. Ég tel að þær hafi komið að miklu gagni og hafi verið af hinu góða að efna til þeirra verkefna sem Byggðastofnun hefur stutt og unnið mjög myndarlega. Ég held að það sé skynsamlegt og vænlegt sem hér kemur fram að leitað verði samstarfs við háskóla og rannsóknarstofnanir til að tryggja sem bestan framgang slíkra verkefna.

Í 2. tölul. í kaflanum um Nýsköpun í atvinnulífinu er lögð áhersla á að ,,lánastarfsemi Byggðastofnunar verði rekin á arðsemisgrundvelli``. Ég hef nú talið að sú þróun væri á góðum vegi en þetta er athyglisverður punktur. Þessi starfsemi hefur verið að færast í þá átt, enda ekki af hinu góða að hafa ekki arðsemissjónarmiðin að markmiði því það veldur því að alltaf þarf þá stöðugt að moka fé í eitthvað sem ekki er arðbært og kemur engum þar af leiðandi að gagni.

Í 3. tölul. er talað um eignarhaldsfélögin, að tryggt verði eigið fé í nýsköpunarverkefnum með því að koma á fót eignarhaldsfélögum á landsbyggðinni og stefnt að því að til þeirra verkefna verði sérstaklega varið allt að 300 millj. kr. á fjárlögum hvers árs á áætlunartímabilinu. Þessar 300 millj. kr. vantar í fjárlagafrv. og koma þá væntanlega þar inn ef þetta verður afgreitt fyrir afgreiðslu fjárlaga næsta árs. En þetta er eina talan sem ég fann hér að væri beinlínis tekin fram. Þó er hér mjög margt sem mun kosta mikið fé og það má kannski segja t.d. um næsta punkt. Þar er talað um að styðja sérstaklega aðgerðir á afmörkuðum svæðum þar sem veruleg röskun verður á atvinnuháttum og búsetu. Það er ekkert fast í hendi um hvað þarna á að gera og hugsanlega er þarna um að ræða eitthvað í sambandi við ferðaþjónustu. Ég held að það sé að mörgu leyti vænlegt vegna þess að ferðaþjónusta og uppbygging hennar hefur beinlínis skipt sköpum fyrir ýmsa í dreifbýlinu þar sem hún hefur orðið til þess að styðja mjög við hefðbundna búskaparhætti. Þeir hafa þá frekar getað sinnt jafnvel þess konar búskap áfram ef þeir hafa þá ekki alveg lagt hann niður.

Síðan er talað mikið um öruggar samgöngur og fleira slíkt. Og talað er um að örva fjárfestingar í samgöngum, menntun, byggingum og fjarskiptum en ekkert nánar um hvernig það eigi að gera. Það er einnig athyglisverður punktur að stuðlað verði að bættum og öruggari almenningssamgöngum. Þannig mætti auðvitað lengi telja. Ég sakna þess svolítið að fá ekki eitthvað nánara og fastara í hendi um hvernig eigi að gera þetta, hvað þurfi að gera til að örva fjárfestingar eða stuðla að bættum og öruggum almenningssamgöngum.

Herra forseti. Ég fagna því að þessi tillaga er komin fram og ýmsu því sem kemur þar fram og ekki síst þeim ágætu upplýsingum sem koma fram í greinargerð með henni.