Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 17:59:00 (1196)

1998-11-17 17:59:00# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[17:59]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Við erum áreiðanlega öll sammála um það að við þurfum að taka tillit til þess í allri löggjöf að fólk býr um allt land og á að njóta sambærilegra tækifæra hvar sem það býr. Hins vegar held ég að vandi landsbyggðarinnar felist að stórum hluta til í ímynd sem er því miður ekki nógu góð m.a. vegna þess hvernig talað hefur verið.

Ég hef stundum spurt menn af hverju þeir haldi að Coca Cola auglýsi ekki skemmdar tennur þegar fyrirtækið er að reyna að koma sinni vöru á framfæri. Nú er það vitað og við vitum að kók veldur skemmdum tanna. En hvað gera þeir þegar þeir auglýsa vöru sína? Þeir sýna okkur ávallt heilbrigt og fallegt fólk sem er að gera eitthvað skemmtilegt. Ég óttast, herra forseti, að við stjórnmálamenn og forsvarsmenn landsbyggðarinnar hafi allt of oft fallið í þá gryfju að tína einungis fram það sem þarf að bæta en gleyma að segja frá því hversu marga kosti það hefur að búa úti á landi. Með því að gera það markvisst held ég að við gætum rétt ímyndina af og þá er ég líka viss um að fleiri fengju þá tiltrú á möguleikum landsbyggðarinnar sem við þurfum svo sárlega á að halda.