Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 18:59:14 (1206)

1998-11-17 18:59:14# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[18:59]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því sérstaklega að hv. þm. hafi tekið jákvæðu línuna upp á arma sína og það er einmitt það sem við viljum gera bæði. Ég minnist þess að 1962 var ég á Akureyri á mikilli hátíðarstund á afmæli Akureyrarbæjar. Þar hélt Davíð Stefánsson skáld hátíðarræðu og þó ég hafi þá verið ungur drengur man ég enn þá hluta af þeirri ræðu. Hann talaði um byggðavandann, hann talaði um að það væri slæmt hversu fólk flytti saman á fáa staði á landinu, yfirgæfi sveitir og þorp en sagði svo að sá tími gæti komið aftur í Evrópu og Íslandi að sjálfsögðu þar með að fólk hefði áhuga fyrir því að flytja úr þéttbýlinu, úr miklu þéttbýli í minna þéttbýli eða í dreifbýli til þess að njóta lífsgæðanna sem þar væri að finna. Svo hélt hann uppbyggilega ræðu um það hversu dýrmætt það væri að vera í tengslum við náttúruna, sjá fegurð hennar og reyna að láta mannlífið taka gervi þess eins og Einar Benediktsson hefði sjálfsagt sagt og sagði í kvæði að svipmót fólksins færi líka eftir landslagi, náttúrufari og fegurð landsins ef það tæki þá eftir.

Ég þakka fyrir ræðu hv. þm. og vona að hún komi aftur uppi og flytji enn þá fleiri jákvæða punkta því að þá er tilgangi mínum náð með því að fara í andsvar við hana.