Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 19:47:33 (1221)

1998-11-17 19:47:33# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[19:47]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu mikið og stórt mál þó að það sé í rauninni afstætt. Svo afstætt að einn ágætur hv. þm. fræddi mig á því að í tveimur útvarpsstöðvum síðdegis í dag, milli klukkan fimm og sex, hefði verið greint frá því hvað væri helst til umræðu og helstu mál þingsins. Og í báðum stöðvunum var greint frá því að það væru málefni lögreglustjórans í Reykjavík, en ekki var minnst á byggðamál. Að vísu fékk það mál mikla umræðu og er mikið mál í sjálfu sér en er auðvitað hjóm eitt miðað við það stóra mál sem hér hefur verið til umræðu megnið af deginum og fram eftir kvöldi, sem má vissulega kalla mesta hagsmunamál þjóðarinnar, þ.e. byggðastefna og aðgerðir í þeim efnum.

Eins og hér hefur komið ítrekað fram hafa fólksflutningar til þéttbýlis, einkum til höfuðborgarsvæðis, líklega aldrei verið meiri en síðustu ár, og eins og fram kom í ræðu hæstv. forsrh. hafa um 1.400 manns flust til höfuðborgarsvæðisins utan af landi það sem af er þessu ári. Það jafngildir nokkurn veginn því að árlega verði til á höfuðborgarsvæðinu kauptún sem samsvara Egilsstaðakaupstað, fólk sem flytur utan af landi og hingað.

Svipuð umræða hefur farið fram víða erlendis. Á síðustu rúmum þremur árum hefur slík umræða farið a.m.k. tvisvar fram á Evrópuráðsþinginu og menn þar hafa vissulega haft miklar áhyggjur af því hversu stórt hlutfall einstakra þjóða býr orðið í nágrenni höfuðborga. En það er athyglisvert að á þingi Evrópuráðsins telja menn vera nánast hættuástand þegar þetta hlutfall, þ.e. hlutfall þjóðar á höfuðborgarsvæði er á bilinu 25--35%. Á þingi Evrópuráðsins telja fulltrúar einstakra aðildarríkja að þá sé vá fyrir dyrum.

Á Íslandi erum við hins vegar að tala um að það hlutfall sé að nálgast 60%. Og þá er eðlilegt að við spyrjum hvort það hlutfall sé orðið það hátt að við séum í rauninni komin yfir öll eðlileg mörk og það verði aldrei aftur snúið. Það er ástæða til að velta málinu fyrir sér með það í huga en þó kannski fyrst og fremst hvort vilji sé til að snúa þessari þróun við.

Ítrekað hefur komið fram í ágætum ræðum manna og málefnalegum í dag hverjar ástæðurnar eru og hafa þar einkum verið nefndir fimm þættir. Ég tel ástæðu til í þessu samhengi að þakka stjórn Byggðastofnunar fyrir það frumkvæði með einni ítarlegustu úttekt sem gerð hefur verið á þessum málum um margra ára bil og tel mikilvægan grunn til málefnalegrar umræðu á þessu mikilvæga sviði.

En hér hafa menn nefnt m.a. atvinnumálin og viljað blanda inn í þau núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, sem vitaskuld er einföldun, þó það ugglaust eigi sinn þátt í því. En meginþættirnir hvað atvinnuþáttinn snertir er að sjálfsögðu sú hagræðing sem átt hefur sér stað með þjóðhagslega hagsmuni í huga, bæði í sjávarútvegi og landbúnaði. En þá um leið er rétt að minna á að í stað þeirra starfa sem þar hafa losnað, m.a. vegna hagræðingar og aukinnar tæknivæðingar, hefur tiltölulega fátt komið í staðinn, fábreytileikinn í atvinnulífinu er þar stór vandi.

Í annan stað vil ég mjög taka undir þau sjónarmið sem bæði koma fram í áðurnefndri skýrslu og eins í ræðum manna, þ.e. nútímalegir lifnaðarhættir, þar sem fólk lítur ekki eingöngu á vinnuna sem dyggð og æðsta markmið með lífinu heldur kýs fólk í dag að lifa innihaldsríkara lífi en að sækja einungis vinnu sína og fólk vill lifa innihaldsríku lífi hvað varðar menntun og félagslega þætti ýmiss konar. Það er svipað og í atvinnulífinu, fábreytileikinn í minnstu byggðunum er afskaplega mikill og á sinn þátt í að ýta undir hina öru byggðaþróun.

Í þriðja lagi vil ég einnig taka undir menntunarþáttinn. Ég held að ekki fari á milli mála að sú öfluga uppbygging framhaldsskóla, einkum fjölbrautaskóla, sem átti sér stað víða um land á síðustu u.þ.b. 20 árum var mikið gæfuspor fyrir þjóðina og hafa þeir skólar orðið ákveðin kjölfesta í þeim byggðarlögum sem þeir eru staðsettir.

En betur má ef duga skal. Einn vandinn sem snertir þessa skóla og tengist fábreytileika í atvinnulífi er sá að þegar stöðugt vaxandi hlutfall nemenda sækir í framhaldsskóla, 80--90%, og sækir sér sérhæfða menntun þar, þá er atvinnulífið oft á tíðum ekki tilbúið að taka við þessari sérhæfðu menntun vegna einhæfni.

Í fjórða lagi hefur opinber þjónusta einnig verið nefnd, sem öll að megninu til er á höfuðborgarsvæðinu og er merkilegt þegar á að snúa henni við hversu margir rísa upp til varnar flutningi. Nægir þar að minna á flutning Landmælinga til Akraness sem olli miklu fjaðrafoki.

Í fimmta lagi vildi ég nefna það sem kalla má kjaralega þætti, sem auðvitað skipta verulega miklu máli. Hér hefur verið minnst á að markaðurinn er vitaskuld stærstur þar sem flest fólkið býr, hér á höfuðborgarsvæðinu, sem m.a. býður verslunareigendum möguleika á því í harðri samkeppni að lækka vöruverð, sem hefur svo leitt til þess að vöruverð á landsbyggðinni er hærra. Ítrekað hefur komið fram að húshitunarkostnaður er hærri á landsbyggðinni, það má nefna að ferðakostnaður almennt, hvort heldur er vegna ferðalaga til útlanda, ferðalaga innan lands, m.a. vegna aðgengis að ýmiss konar þjónustu í menningu, félagslífi, jafnvel í skóla, er mun hærri fyrir fólk sem býr á svokölluðum jaðarsvæðum. En þá er líka rétt að hafa í huga að þessir einstaklingar borga sama skatthlutfall og þeir sem hafa betra aðgengi og í rauninni ódýrara aðgengi að þeim þáttum sem ég taldi upp.

Þá er spurningin um viðbrögð og hvernig hægt er að bregðast við. Hér hafa margar hugmyndir verið nefndar og er tekið mjög undir þær hugmyndir sem koma fram í þáltill. Það hefur sýnt sig að sérhæfðar aðgerðir fram að þessu hafa lítt dugað, þó að fullyrða megi að ástandið væri í raun enn svartara hefði ekki verið gripið til þeirra aðgerða sem stundaðar hafa verið á síðustu árum. En grundvallarspurningin hlýtur samt ávallt að vera sú: Viljum við halda landi okkar í byggð? Það er auðvitað grundvallarspurningin og hér hefur komið fram í máli allra hv. þingmanna jákvætt svar við þeirri spurningu, einfaldlega vegna þess að þjóðhagslegir hagsmunir kalla á að landinu sé haldið í skynsamlegri byggð. Við þurfum að nýta auðlindir okkar sem dreifðar eru um landið og það kallar á byggð.

Með því að svara þessari spurningu játandi hlýtur rökrétt framhald að vera: Hvar viljum við halda landi í byggð? Að undanförnu hefur verið meira minnst á svonefnda byggðakjarna. Í því felst auðvitað að við teljum okkur ekki hafa ráð á að hafa landið alls staðar í byggð með þeim kröfum sem nútíminn almennt gerir um lífsgæði og félagslega þætti, menningu o.s.frv. En með hugtakinu byggðakjarni er átt við, eins og hv. þm. Guðni Ágústsson kallaði það, einhvers konar ,,mini-höfuðborgir`` en með ákveðnu upprekstrarlandi sem tengist þá samgöngum og öðru því um líku.

En ég tel að e.t.v. sé meginatriðið varðandi byggðastefnu að hafa kjarkinn til að taka þá pólitísku ákvörðun hvar byggðakjarnar í landinu skuli vera og síðan verja þá með kjafti og klóm. Sú ákvörðun hefur ekki verið tekin og er það miður, en ég ítreka að ég tel að það sé ein meginforsenda fyrir því að hefja endurbyggingu landsbyggðarinnar eða snúa þessari þróun við.

Með því að taka slíka ákvörðun um byggðakjarna á afmörkuðum svæðum með tilteknu upprekstrarlandi þá þurfa menn jafnframt að vera tilbúnir að taka afleiðingum þess, ef svo má segja, og taka ákvörðun um að leggja niður byggðir. Og væri full ástæða til að skoða hvað það kostar þjóðfélagið að leggja niður byggðir sem kunna að lenda utan svonefndra byggðakjarna og eðlilegs upprekstrarlands.

Við skulum hafa í huga að margt fólk situr bundið eignum sínum og brauðstriti án þess að geta selt en vill hreyfa sig, telur sig vera komið það langt frá aðgengi að lágmarksþjónustu, og hugsanlega þarf að hjálpa slíku fólki. Það kunna að vera byggðarlög, mjög fámenn, sem ástæða væri til með þjóðhagslega hagsmuni í huga, hagsmuni þessara einstaklinga í huga, að leggja þau hreinlega niður og væri því ástæða til að skoða hvað kostar að leggja niður byggðir.

Hvað varðar þá þætti sem ég nefndi um ástæðurnar fyrir þeirri byggðaþróun sem hefur átt sér stað, er eðlilegt að menn svari hvernig megi ráðast á þá þætti. Ég hef tekið undir flest það sem kemur fram í þáltill. um atvinnusviðið og tek verulega undir sjónarmið um gildi þess að leggja áhættufé til að efla nýsköpun í atvinnulífi á landsbyggðinni, til að fá þar ný fyrirtæki og ný svið. Og þá er vert að hafa í huga að fyrirtæki verða ekki byggð upp nema í kringum ákveðnar auðlindir. Auðlindir landbúnaðar og sjávarútvegs eru fullnýttar og þess vegna eru þau ýtrustu sjónarmið varðandi orkunýtingu um að beisla helst ekki þá orku sem við eigum í iðrum jarðar einfaldlega byggðafjandsamleg sjónarmið. Vegna þess að auðlindir okkar eru takmarkaðar, orkan er vissulega auðlind en hún verður ekki auðlind fyrr en við tökum að nýta hana.

Oft er vitnað til ferðaþjónustu og þeirra möguleika sem þar eru, og vissulega er það ánægjulegt að ferðaþjónustan skuli aukast um allt að 10% á ári og hefur gert og mun gera. En ferðaþjónustan ein og sér nægir ekki til þess að rétta af hlut einstakra landsfjórðunga og má minna á að ris hennar er ekki nema u.þ.b. fjóra mánuði á ári hverju.

Hér hefur tölvuvæðing verið nefnd, flutningur opinberra stofnana o.s.frv. og tek ég undir þau sjónarmið.

[20:00]

Varðandi menningarþáttinn, sem er afskaplega ríkur meðal fólks í dag til allrar hamingju, þá tek ég mjög undir það sjónarmið að Byggðastofnun veiti beinlínis styrki til frjálsra leikhópa. Við höfum sjónvarp og nýtum Þjóðleikhús og frjálsa leikhópa til að efla menningu og innihaldsríkt líf á þeim stöðum sem um ræðir. Málið snýst ekki eingöngu um atvinnu heldur einnig um menningu.

Hvað menntun snertir er ljóst að það er dýrara fyrir fólk á jaðarsvæðum að senda börn sín í langskólanám en fólk sem hefur beinan aðgang að æðra skólastigi. Þess vegna hef ég í undirbúningi frv. sem felur í sér að nemendur sem sækja æðra nám af slíkum svæðum hafi lægra endurgreiðsluhlutfall af námslánum. Það er einfaldlega rökstutt með því að þeir hafa um lengri veg að fara og þurfi meiru til að kosta. Svipuð aðferð hefur verið farin í Noregi með góðum árangri og tel ég hana vel koma til greina, m.a. með hagsmuni fámennra staða í huga. Þar gengur oft illa að ráða fólk til þess að sinna grundvallarþjónustu, svo sem í menntun og heilsugæslu, að háskólamenntað fólk sem sest að á slíkum stöðum fái jafnvel felldar niður námsskuldir þau ár sem það dvelur á þessum stöðum. Þetta hefur verið reynt í Noregi með mjög góðum árangri.

Að lokum vil ég svo taka undir það sem hv. þm. Guðni Ágústsson nefndi. Við höfum í hyggju að leggja fram frv. sem felur í sér lækkun skatta fyrir fólk og fyrirtæki á svonefndum jaðarstöðum. Við teljum það réttlætismál með sömu rökum og áður hafa verið nefnd. Fólk sem býr á þeim stöðum borgar sama skatthlutfall og einstaklingar sem hafa ódýrari aðgang að allri þjónustu. Skattkerfið er til þess að efla jöfnuð í landinu og þess vegna er rökrétt að kanna möguleika á að bjóða fólki á þessum stöðum lægri skattprósentu, sem og fyrirtækjum og láta þannig markaðinn sjálfan leita útrásar frá höfuðborgarsvæðinu.

Herra forseti. Tími minn er á þrotum. Ég ítreka gildi þess að þáltill. þessi fari í gegn. Ég ítreka jafnframt að við þurfum að hafa kjark til þess að festa ákveðna byggðakjarna og verja þá með kjafti og klóm þó það kunni að kosta okkur að leggja niður ákveðnar byggðir.