Áhrif hvalveiðibanns

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 15:19:45 (1284)

1998-11-18 15:19:45# 123. lþ. 26.7 fundur 50. mál: #A áhrif hvalveiðibanns# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[15:19]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Það er öllum ljóst að samspilið í lífríki hafsins er afar flókið. Við höfum kynnst því á undanförnum mörgum árum að reynst hefur býsna örðugt að átta sig á stærð einstakra nytjastofna þó að vel sé reynt að vanda til vísindalegra rannsókna. Eitt er þó a.m.k. ljóst, að samspilið á milli einstakra nytjastofna er fyrir hendi með ýmsum hætti þó. Það er til að mynda ljóst að ef við nýtum ekki einhverja tiltekna nytjastofna þá hefur það ekki einasta áhrif á vöxt og viðgang þess stofns heldur líka á vöxt og viðgang annarra stofna.

Þess vegna m.a. var það ákveðið að Hafrannsóknastofnun á sínum tíma fór út í svokallaðar fjölstofnarannsóknir til þess að gera sér grein fyrir því betur en áður hvaða áhrif þetta flókna samspil í lífríki hafsins hefði á vöxt og viðgang einstakra nytjastofna.

Hér á landi hefur ríkt hvalveiðibann allt frá árinu 1984. Í 15 ár höfum við Íslendingar kosið að nytja ekki sjávarspendýrin í kringum landið. Það sér það auðvitað hvert mannsbarn að líffræðileg áhrif þess að nýta ekki svo stórvirka nytjastofna eins og hvalirnir eru hlýtur að hafa heilmikil áhrif á lífríkið í hafinu. Fæðuöflun hvalanna er þekkt, menn vita hvert hvalirnir leita eftir fæði, og þess vegna hafa vísindamenn verið að reyna að velta því fyrir sér hvaða áhrif það hefur á stöðu einstakra nytjastofna við landið að friða hvali.

Það má kannski segja, þótt undarlegt sé, að koma hins fræga hvals Keikós hafi varpað nýju ljósi á þetta hjá almenningi. Þegar fólk gerir sér grein fyrir hvað þessi einstaka skepna étur þá held ég að það dyljist engum að áhrifin af því að veiða ekki hval á sama tíma og við nýtum aðrar tegundir hlýtur að hafa gríðarleg áhrif á þetta samspil í lífríki hafsins. Þess vegna hef ég leyft mér á þskj. 50 að spyrja hæstv. sjútvrh. um áhrifin af hvalveiðibanninu og spurningarnar eru þessar:

Í fyrsta lagi. Hver verða áhrif þess á einstaka nytjastofna við Íslandsstrendur að viðhalda banni við hvalveiðum?

Í öðru lagi. Hver gætu orðið efnahagsleg áhrif áframhaldandi hvalveiðibanns?