Áhrif hvalveiðibanns

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 15:26:07 (1286)

1998-11-18 15:26:07# 123. lþ. 26.7 fundur 50. mál: #A áhrif hvalveiðibanns# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., GE
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[15:26]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að spyrja um þetta mál. Hann hefur verið óþreytandi að koma með ábendingar um að nauðsynlegt sé að hefja hvalveiðar. Það hefur komið fram að við getum búist við minnkandi veiði um allt að 30--50 þúsund tonn af þorski ef svo fer sem menn hafa bent hér á. Því hefur líka verið slegið fram að líklega geti verið um allt að 3 milljarða kr. virði að ræða af hvalafurðum, verulega hærri tala en hæstv. sjútvrh. nefndi, ef það væri framreiknað frá því þegar hvalveiðar voru og hétu.

Ég tel ástæðu til að drífa í að taka ákvörðun um að hefja hvalveiðar. Það á að leyfa veiðar á hrefnu til að byrja með og þó svo að veltan komist ekki svo hátt sem nefnd var áðan í tölum, þá er ástæða til að byrja þó að um minni upphæð yrði að ræða.