Áhrif hvalveiðibanns

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 15:28:29 (1288)

1998-11-18 15:28:29# 123. lþ. 26.7 fundur 50. mál: #A áhrif hvalveiðibanns# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[15:28]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Í lok síðasta mánaðar hélt félagsskapurinn Sjávarnytjar ráðstefnu um hvalveiðar og stöðu hvalveiðimálanna. Hjá Gísla Víkingssyni, sem er helsti hvalasérfræðingur Hafrannsóknastofnunarinnar, komu fram svipaðar upplýsingar og hæstv. ráðherra gaf hér áðan, þ.e. að hvalirnir í hafinu við Ísland ætu svona rúmlega 2 milljónir tonna af fiski á ári, þar af hrefnan um helminginn. Það kom líka fram hjá honum að eftir örfá ár gætum við staðið frammi fyrir því, ef við ekki stemmum stigu við ótakmarkaðri fjölgun hvalanna, að þurfa að skera niður þorskveiðar okkar um 10--20%, 30--60 þúsund tonn á ári að útflutningsverðmæti upp á 4--7 milljarða kr. Þarna er náttúrlega mjög stórt mál á ferðinni og við getum ekki látið eins og ekkert sé.

Ég hitti nýlega togaraskipstjóra á Snæfellsnesi, sem var að koma úr veiðiferð út af Vesturlandi, og hann sagði mér frá því að þegar hann lagði af stað í land taldi hann 24 stróka frá stórhvelum út um brúargluggann. Og skipstjóri á öðrum togara sem var aðeins grynnra á slóðinni hafði sömu sögu að segja. Nótaveiðimenn kvarta undan því að það sé ekki friður fyrir þessum skepnum á loðnumiðunum. Við verðum að bregðast við og láta nú slag standa og hefja hvalveiðar á ný.