Kjör ellilífeyrisþega

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 16:23:28 (1311)

1998-11-18 16:23:28# 123. lþ. 26.11 fundur 216. mál: #A kjör ellilífeyrisþega# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[16:23]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Við erum með tekjutengingu á svo mörgum sviðum í þjóðfélaginu og ég veit að hv. þingmenn eru sammála mér um að það verður ekki þurrkað út með einu pennastriki. Ég fór yfir það áðan í hvaða forgangi við hefðum verkefni og hvar brýnast væri að leysa vandamálin. Ég heyrði það ekki hér að menn mótmæltu því sem ég sagði áðan, að brýnt væri að leysa ýmis verkefni sem er verið að leysa og við höfum lengi beðið eftir að verði leyst. Við gerum ekki alla hluti í einu skrefi. Ég tel að umræðan hér hafi verið prýðileg og málinu fremur til framdráttar en hitt. En ég endurtek að þetta er ekki að öllu leyti sambærilegt hvað varðar ellilífeyrisþega og öryrkja. Ég fór í gegnum það áðan og hv. fyrirspyrjandi kom einmitt inn á það að í gildandi kerfi er það svo að ellilífeyrisþegar njóta þeirra skattfríðinda sem í gangi eru. Ef við ætlum að breyta því kerfi þá erum við líka að taka af þúsundum ellilífeyrisþega þannig að mörgu er að gæta þegar þessi mál eru til umræðu.