Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 13:41:30 (1349)

1998-11-19 13:41:30# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[13:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Við ræðum hér stórt mál þar sem er frv. til stjórnarskipunarlaga, breytingar á þeim ákvæðum stjórnarskrárinnar sem lúta að kosningum til Alþingis. Málið á sér nokkurn aðdraganda eins og kunnugt er. Um það er getið í stjórnarsáttmála og þau áform að gera nokkra breytingu á kjördæmaskipan og vægi atkvæða hafa verið til umræðu um alllangt árabil. Engu síður, herra forseti, sakna ég í tengslum við þetta mál margháttaðrar undirbúningsvinnu. Reyndar sakna ég einnig hæstv. forsrh. sem er 1. flm. málsins og ætlar sér væntanlega að vera viðstaddur umræðuna þannig að ég bendi virðulegum forseta góðfúslega á að e.t.v. þurfi að gera forsrh. grein fyrir því að umræðan er hafin á nýjan leik.

Ég tel að þó að nefnd skipuð fulltrúum þingflokka, sem starfað hefur um hríð að þessu máli að vísu aðallega á síðari hluta kjörtímabilsins undir forustu hv. þm. og fyrrv. hæstv. fjmrh., Friðriks Sophussonar, hafi út af fyrir sig unnið heilmikið starf --- ég dreg það ekki í efa --- þá vanti margt til að hægt sé að taka þær miklu ákvarðanir sem hér er lagt til að taka. Mér finnst vanta miklu meiri úttekt á ýmsum þáttum í uppbyggingu stjórnsýslunnar í landinu, á spurningunni um samskipti ríkis og sveitarfélaga. Mér finnst vanta meiri kortlagningu á stöðu okkar í byggðaþróun og samhengi þeirra þátta í stjórnsýslunni við valdakerfið í landinu. Mér finnst vanta miklu meiri umræðu um þetta úti í samfélaginu.

Ég leyfi mér að fullyrða að tiltölulega lítil umræða hafi komist af stað um þetta stóra mál hjá almenningi í landinu, jafnvel meðal sveitarstjórnarmanna og forsvarsmanna félagasamtaka og atvinnulífs sem ættu þó að vera fullgildir þátttakendur í þeim umræðum. Þetta mál varðar alla landsmenn og grundvallar leikreglur í samfélagi okkar og samskiptareglur, m.a. stjórnsýslustiganna. Með vissum hætti á að setja þær reglur hér.

Ég hefði talið æskilegt að þetta starf hefði farið miklu fyrr af stað, því hefði verið hrint úr vör strax í byrjun kjörtímabils og tíminn notaður til að undirbyggja þá ákvarðanatöku miklu betur með úttektum og kortlagningu á því sem þyrfti að liggja til grundvallar, með kynningu á málinu og umræðum úti í þjóðfélaginu.

[13:45]

Ég vil segja, herra forseti, að þó að ég skilji út af fyrir sig þær forsendur sem hv. nefnd gaf sér í þessu máli hvað varðar t.d. vægi atkvæða og hvað varðar áþekka eða nánast sömu stærð allra kjördæma, þá held ég að menn hafi þarna farið of langt. Ég tel að nefndin hafi króað sig af í forsendum sem bjóði í raun ekki upp á ásættanlega niðurstöðu. Til dæmis sú fyrir fram gefna forsenda að þingmannafjöldinn þurfi að vera nánast sá sami í öllum kjördæmum landsins skorðar þetta mál þannig af að út úr því geta ekki komið annað en landfræðilega mjög óskynsamlegar einingar. Það er þannig vegna íbúadreifingarinnar í landinu. Ég skil út af fyrir sig löngun manna til þess að þetta verði jafnstór kjördæmi í skilningnum jafnmargir þingmenn, en þarna rekast einfaldlega á markmið og menn verða að velja og hafna. Hér hefur verið valið að láta þau markmið eða þá hagsmuni víkja sem lúta að því að einingarnar séu landfræðilega, félagslega og stjórnsýslulega skynsamlega dregnar. Það er hin reikningslega niðurstaða sem ræður ferðinni. Það eru tölurnar á blaðinu sem eru látnar passa. Tíu til ellefu þingmenn í öllum kjördæmum í staðinn fyrir --- tíu til tólf er það víst í staðinn fyrir tíu til ellefu eða hvað það nú er --- í staðinn fyrir að þarna væri eitthvað meira svigrúm. Við getum sagt að þeir mættu vera átta til tólf sem byði upp á miklu meiri möguleika á að draga landfræðilega, félagslega og stjórnsýslulega mörkin öðruvísi og fá út skynsamlegri einingar.

Ég hlýt því, herra forseti, að láta strax koma hér fram af minni hálfu fulla fyrirvara og miklar efasemdir um þessar grundvallarforsendur sem þarna var gengið út frá. Ég tel þær of þröngar og útkoman í samræmi við það gat ekki orðið önnur, en að mörgu leyti mjög óheppileg, hvað varðar þessa afmörkun kjördæmanna.

Ég vil sérstaklega nefna þrennt í þessu sambandi. Í fyrsta lagi spurninguna um skiptingu Reykjavíkur. Skipting Reykjavíkur í tvö kjördæmi, skipting eins sveitarfélags í tvö kjördæmi, er afleiðing af þessum gefnu forsendum. Ég ætla út af fyrir sig ekki að fjölyrða um það mál en verð að segja alveg eins og er að mér finnst það nokkuð sérkennileg niðurstaða og spurning hvaða tilgangi það þjóni að skipta sveitarfélaginu Reykjavík upp í tvö 11 manna kjördæmi í staðinn fyrir að horfast í augu við þá augljósu staðreynd að Reykjavík fengi 22 þingmenn út úr hinu nýja fyrirkomulagi. Ég sé ekki muninn á því fyrir mitt leyti að Reykjavík bara væri með sína 22 þingmenn í einu kjördæmi eða þessum, mér liggur við að kalla skrípaleik, að búa til einhverja ímyndaða línu einhvers staðar uppi í hverfum og á grundvelli hennar sé þessu skipt upp í tvö kjördæmi og í framhaldinu þurfi væntanlega að fara í gang forfæringar á mönnum og búferlaflutningar miklir á væntanlegum kandídötum á næsta kjörtímabili til að passa nú inn í munstrið þegar kemur að kosningum. Það verður fróðlegt að sjá t.d. hverjir af þingmönnum Sjálfstfl. úr vesturbænum rjúka til og kaupa hús í Grafarvogi til að setja sig í stellingar til að vera réttum megin línunnar þegar kemur að kosningum árið 2003.

Í öðru lagi, herra forseti, nefni ég landfræðilega stærð ákveðinna kjördæma. Það sem út úr þessum þröngu forsendum nefndarinnar kemur er auðvitað landfræðileg stærð vissra kjördæma sem er alveg ískyggileg.

Í þriðja lagi, herra forseti, nefni ég og það er náskylt þessu, óheppilega dregin mörk landfræðilega. Ég vil t.d. staldra þar aðeins við norðausturkjördæmið sem á að verða til samkvæmt þessu frá Siglufirði og austur að og til og með Austur-Skaftafellssýslu, þ.e. kjördæmismörkin liggja um Tröllaskaga annars vegar og Skeiðarársand hins vegar. Þetta þýðir í fyrsta lagi að langleiðina helmingurinn af landinu landfræðilega er eitt kjördæmi og það er handleggur um vetur í vondri færð að keyra frá Siglufirði, ég tala ekki um ef fara þarf um Skagafjörð og Öxnadalsheiði, eins og leið liggur norður um og austur um og til Hornafjarðar.

Þetta þýðir einnig, herra forseti, að þetta kjördæmi er þannig sett að langstærsti staðurinn og mesta þéttbýlið er í jaðri kjördæmisins. Það er Akureyri og Eyjafjörður, með sjálfsagt um helminginn eða rúmlega helminginn af íbúum þessa kjördæmis. Næsta þétting byggðar eða kjarni, ef svo má að orði komast og þó til muna minni, er miðsvæðið á Austurlandi og þriðji kjarninn er Austur-Skaftafellssýsla. Þetta er ekki mjög landfræðilega eða félagsfræðilega skynsamleg eining. Þetta þýðir, herra forseti, að væntanleg höfuðborg hins nýja kjördæmis er Möðrudalur á Fjöllum. Það er að vísu fornfrægt höfðingjasetur og má vel við því mín vegna að endurreisast sem enn þá merkari staður en hann þó er, er þar þó vel búið, en það hlýtur að vekja ýmsar spurningar að miðjan í þessu nýja kjördæmi þar sem manni væri tamt að vilja sjá sem sjálfkjörna miðju, stjórnsýslumiðstöð og þéttustu byggð er Möðrudalur á Fjöllum og það er 200 kílómetra eyða í þessu kjördæmi frá byggð í Mývatnssveit og austur á Jökuldal. Það er miðjan í kjördæminu, nema farin sé ströndin en þar er þá um hinar löngu vegalengdir og strjálu byggð á norðausturhorni landsins að ræða, sem er því miður enn þá girt sundur af þröskuldum, samgöngulegum þröskuldum og munar þar mestu um Hellisheiði og Smjörvatnsheiði eða samgönguhindranir í austurátt frá Vopnafirði.

Herra forseti. Þetta er að mínu mati ákaflega mikill galli á þessari tillögu. Ég held einnig að frá byggðapólitísku sjónarmiði séð sé illa spilað úr kortunum. Sá staður á landsbyggðinni sem ber höfuð og herðar yfir aðra hvað varðar möguleikana til að eflast sem mótvægi við borgríkið við Faxaflóann er Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið en þetta svæði nýtur ekki kosta sinna liggjandi í útjaðri kjördæmis og stjórnsýslueiningar. Það mundi Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið gera mun betur sem eðlileg, landfræðileg, félagsleg og stjórnsýsluleg miðja í stóru kjördæmi til beggja handa. Með öðrum orðum, frá byggðapólitísku sjónarmiði séð er að mínu mati margfalt betra að Norðurland væri kjördæmi með Akureyri sem sjálfkjörinn miðpunkt, en ekki þessi útgáfa sem við fáum hér. Menn mega ekki gleyma sér svo í útreikningunum, gerast slíkir bókhaldarar eða stærðfræðingar að þeir láti tölurnar einar ráða niðurstöðunni en horfi fram hjá hinum landfræðilegu, efnislegu, félagslegu aðstæðum --- en það er verið að gera hér. Ég fullyrði það. Tökum sem dæmi stöðu Akureyrar sem háskólaborgar, sem miðstöðvar fyrir æðri menntun og heilsugæslu um norðan- og austanvert landið, sem upptökusvæði fyrir nemendur og fyrir þá sem sinna annarri þjónustu á þessu svæði, þá er þetta ekki góð niðurstaða. Andstaðan við að kljúfa upp núverandi kjördæmi sem hafa staðið í tæp 40 ár færir okkur þrátt fyrir allt heim sanninn um það að þau hafa fest sig í sessi sem einingar, sem samstarfseiningar sveitarstjórna og sem samstarfseiningar og einingar á marga fleiri vegu. Það mun einnig gerast með ný kjördæmamörk jafnvel þótt þau verði öðruvísi og þess vegna óskynsamlega dregin. Það leiðir af sjálfu og þá eru menn ekki að komast að skynsamlegri niðurstöðu, menn eru ekki að gera það. Það er augljóst mál í mínum huga.

Ég tek einnig fram í þessu sambandi, herra forseti, að nátengd þessu eru auðvitað tengsl þessara breytinga við jafnvægi í byggð landsins og þá umræðu er óhjákvæmilegt að skoða í því samhengi. Áður en ég kem að því ætla ég að nefna líka starfsaðstæður þingmanna sem ættu þá að starfa í hinum nýju kjördæmum. Það er að vísu vel að í álitinu er fjallað um að eitthvað þurfi að gera í þeim efnum og nefndir möguleikarnir á því að styðja þingmenn til að hafa skrifstofur eða starfsaðstöðu í kjördæmunum, þ.e. þingmenn landsbyggðarkjördæmanna. Þar þurfa þá að koma til efndir en ekki bara orð.

Ég vil gagnrýna sérstaklega, herra forseti, þá niðurstöðu nefndarinnar að leggja til í frv. að þröskuldur fyrir úthlutun jöfnunarsæta eða þröskuldur til að fá menn kjörna í þeim skilningi, skuli vera fimm af hundraði atkvæða. Þetta er of hátt. Þetta er ólýðræðislegt, og ekki til þess fallið að efla frjálsa skoðanamyndun og leyfa sjónarmiðum minnihlutahópa í þjóðfélaginu að eiga þess kost að koma röddum sínum að á Alþingi. Þessi þröskuldur er lagður til hærri en víðast hvar annars staðar í nágrannalöndunum sem ég þekki þar sem algengast er að hann sé 2--4% og jafnvel lægri en 2% í vissum tilvikum. Hér verður að hafa í huga að þingsætin eru fá, Alþingi Íslendinga er lítil stofnun og þar af leiðandi er að mínu mati ekki skynsamlegt að fara með þennan þröskuld of hátt. Ég er heldur ekki að mæla með því að hann verði óskynsamlega lágur en hann á að mínu mati ekki að vera miklu hærri en sem nemur atkvæðamagninu sem þarf til að fá einn kjörinn þingmann þannig að mönnum sé ekki ýtt út af þeim ástæðum. Hann er nokkru hærri, samanber 5% en 63 þingsæti. Ég er ósáttur við þennan mun. Efnislega hefði strax verið rökréttara að hafa hann 4%, þá liggur hann nær því sem nemur fylginu á bak við hvert þingsæti á 63 manna þjóðþingi. Ég áskil mér allan rétt einnig, herra forseti, til að leggja til breytingar á þessu atriði.

Ég harma það einnig, herra forseti, að í tengslum við þessar breytingar skuli ekki hafa verið unnið meira að því að koma á virkara persónukjöri á Alþingi. Ég tel að langheppilegasta og lýðræðislegasta fyrirkomulagið í þessum efnum séu óraðaðir listar þar sem kjósendur merkja við listann og raða jafnframt mönnum á listanum í sæti ef þeir svo kjósa. Lágmark er að þeir eigi þess kost á jafnræðisgrundvelli að númera á listanum upp á nýtt og gefa mönnum með pósitívum hætti þannig persónulegan stuðning. Það er mun gallaðri aðferð að nota útstrikunaraðferð sem er neikvæð nálgun. Í staðinn fyrir að lýsa trausti á einstaklingana með sérstökum og pósitívum hætti hætti er í rauninni verið að lýsa vantrausti á þá. Ég hefði viljað sjá að við settum reglur af því tagi að persónuleg atkvæði á óröðuðum listum umfram tiltekin mörk þýddu að menn gætu færst upp um sæti. Þannig er það víða í nágrannalöndunum. Til að mynda í Svíþjóð þarf ekki nema 8% persónulegra atkvæða til að þau geti farið að hafa áhrif á sæti ef útkoman raðast þannig.

Hér er verið að jafna, herra forseti, það sem kallað er vægi atkvæða og ég gagnrýni ekki að menn skuli vilja taka skref í þeim efnum. Á því verður að sjálfsögðu að vera eitthvert hóf, en ég segi á móti: Menn verða að skilja þá hugsun þeirra íbúa landsvæðanna sem fjærst liggja stjórnsýslumiðstöðinni hér að á móti sé gerð krafan um að jafna þá annað. Á móti sé gerð krafan um að jafna þá aðra hluti og menn benda á þann mikla aðstöðumun sem í því er fólginn að búa undir handarjaðri stjórnsýslumiðstöðvarinnar og hafa beinan og milliliðalausan aðgang, ekki bara að henni heldur allri hinni samfélagslegu þjónustu sem rekin er hér, tilheyrir höfuðborginni og nálægum svæðum og þeir landsmenn sem hér búa hafa auðvitað allt annan og betri aðgang að. Hvar eru þá efndirnar? Hvar eru þá tillögurnar um úrbætur að þessu leyti á móti því að hið svokallaða vægi atkvæði sé jafnað og er það þó umdeilanlegt hugtak í sjálfu sér, samanber það að hér ríkir fullur jöfnuður milli flokka og þegar upp er staðið hafa kjósendur einstakra sjónarmiða í stjórnmálum landsins fengið nákvæmlega þann þingmannafjölda sem atkvæðin benda til eða vísa á. Spurningin er eingöngu um landfræðilega dreifingu þeirra fulltrúa. Það kalla menn misvægi atkvæða og hafa eytt mikilli orku í að fordæma en ættu stundum að gæta sín því fulltrúalýðræði er einu sinni fulltrúalýðræði og Ísland sem smáþjóð ætti að minnast þess að við gerum ekki sömu kröfur þegar komið er út í hinn stóra heim, að okkar 275 þús. atkvæði í samfélagi þjóðanna virki hlutfallslega á við t.d. Kínverja. Og yrði þá trúlega lítið um áhrifin.

Herra forseti. Ég lýsi sem sagt eftir því að einhverjar raunhæfar aðgerðir líti dagsins ljós og komi til framkvæmda í tengslum við þetta mál. Hvað varðar það að efla þá sjálfsstjórn sveitarfélaganna og þeirra svæða sem þarna er verið að búa til, hvernig sem þau nú verða, t.d. það að bæta samgöngur í hinu stóra norðausturkjördæmi því fyrir utan eyðuna upp á 200 kílómetra á norðausturhálendinu sem á að verða þungamiðjan í nýja kjördæminu, eru samgöngurnar um miðbik þessa kjördæmis eins og raun ber vitni. Þar eru lengstu malarvegir landsins. Þar er tengibrúin milli þéttbýlissvæðanna í Eyjafirði og Suður-Þingeyjarsýslu við Austurlandið eða norðaustursvæðið, þar eru lengstu malarvegir landsins. Hvar eru þá aðgerðir t.d. í því að bæta samgöngur og annað því um líkt?

[14:00]

Ég áskil mér því, herra forseti, allan rétt til þess að geyma endanlega afstöðu mína til þessa máls, sem ég hef þegar lýst efnislegum fyrirvörum við, þangað til að niðurstöður liggja fyrir í því sem á að gera samtímis afgreiðslu málsins hvað varðar grundvallarleiðréttingar á aðstöðumuninum sem landsmenn búa við. Ég vil sjá efndir hvað varðar átak í samgöngumálum, ég vil sjá efndir hvað varðar jöfnun á aðstöðu til náms, húshitunarkostnaðar, skóla- og heilsugæslumála og annarra slíkra þátta sem brenna þarna á.

Að mínu mati er algjörlega óásættanlegt og ekki hægt að bjóða kjósendum upp á það, sem þarna eiga að sjá á eftir fulltrúum sem þeir hafa haft á löggjafarsamkomunni í stórum stíl, fyrr en eitthvað liggur fyrir í þessum efnum. Sú nefnd sem er nú að störfum hlýtur auðvitað að þurfa að hraða verkum sínum, leggja fyrir beinar tillögur og láta á það reyna í formi afgreiðslu þeirra hvaða hugur fylgir máli.

Að lokum, herra forseti, vil ég lýsa þeirri skoðun minni að verði þetta nýja fyrirkomulag eða eitthvað í þessum dúr samþykkt, sem ég vona að vísu að umtalsverðar breytingar fáist á, þá tel ég að eftir sem áður eigi ekki að kjósa samkvæmt hinu nýja fyrirkomulagi fyrr en að fjórum árum liðnum. Vegna hvers ekki? Vegna þess að þá hafa menn þessi fjögur ár til að láta þá hluti gerast og rætast sem mundu fylgja þessu í formi breytinga, stjórnkerfisbreytinga og jöfnunaraðgerða í byggðamálum.