Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 14:52:25 (1359)

1998-11-19 14:52:25# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[14:52]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru út af fyrir sig góð rök og raunar sterkustu rökin sem hafa verið færð fyrir þessu. Það er alveg rétt og skiptir miklu máli að atkvæðavægi milli flokkanna er jafnt. Það skiptir miklu máli en það skiptir ekki öllu máli. Eftir sem áður er það staðreynd að búseta breytir atkvæðavægi manna. Ef menn ætla að sætta sig við það þá verða þeir að geta fært rök fyrir því af hverju þetta er réttlætanlegt og það sem hv. þm. hefur raunverulega sagt því til stuðnings er að hinar dreifðu byggðir eiga þar undir högg að sækja og að við þurfum að rétta hlut þeirra með einhverjum hætti. Eitt af því er að láta kjósendur í þeim kjördæmum hafa meira atkvæðavægi. Þetta er efnislega það sem hv. þm. er að segja að ég hygg.

Ég er þessu algerlega ósammála. Ég lít svo á að atkvæðisrétturinn tilheyri grundvallarmannréttindum og það er ekki hægt að semja um þau. Það er ekki hægt að finna einhverjar flóknar reglur til að segja: Þessi maður á að hafa meiri mannréttindi en hinn af því að hann býr á öðrum stað.

Ef það væri rétt sem hv. þm. er að segja, hvernig bregst hann þá við núverandi stöðu á landsbyggðinni? Fólki fækkar mest á Vestfjörðum. Er hann þá þeirrar skoðunar að fjölga eigi þingmönnum fyrir Vestfjarðakjördæmi? Það er hin rökrétta niðurstaða í máli hv. þm.