Yfirlýsingar forsætisráðherra um útsvarsmál í Reykjavík

Mánudaginn 30. nóvember 1998, kl. 15:50:38 (1431)

1998-11-30 15:50:38# 123. lþ. 29.1 fundur 115#B yfirlýsingar forsætisráðherra um útsvarsmál í Reykjavík# (óundirbúin fsp.), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[15:50]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að rekja það hvernig skuldir Reykjavíkurborgar sérstaklega eru til komnar. Það er nú sjálfsagt lengri saga en gefst tækifæri til að svara hér í óundirbúnum fyrirspurnum.

Í gildi er samstarfssáttmáli milli ríkis og sveitarfélaga. Þessi samstarfssáttmáli fjallar m.a. um samráð um fjárhagsmálefni. Það vill nú svo til að þessi samstarfssáttmáli rennur út um næstu áramót, og ég hef hugsað mér á ríkisstjórnarfundi á morgun að gera tillögu um að samstarfssáttmálinn verði endurnýjaður.