Afkoma sveitarfélaga

Mánudaginn 30. nóvember 1998, kl. 15:57:26 (1435)

1998-11-30 15:57:26# 123. lþ. 29.1 fundur 116#B afkoma sveitarfélaga# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[15:57]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Hv. þm. kýs að ræða ekki kjarnann í þeirri tillögu sem hann var að spyrja um og ég lagði fram á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna fyrir helgina, um þetta samráð. Um að menn horfist í augu við þá staðreynd að sveitarfélögin eru ekki nein hornkerling eða peð þegar kemur að því að ræða efnahagsmál í landinu og að komin er upp full nauðsyn á því að menn samræmi sig milli ríkis og sveitarfélaga um þessar heildarstærðir í þjóðfélaginu og í þjóðarbúskapnum. Það er það sem ég var að tala um en auðvitað virkar sú ákvörðun sem nú er yfirvofandi í borgarstjórn Reykjavíkur seinna á þessum sólarhring þvert á það sem ég er að tala um. Hún gengur þvert á þá kenningu sem ég lagði fram á þessum fundi um að ríki og sveitarfélög ættu að samræma afstöðu sína og gæta þess að leggja ekki stein í götu hvers annars eða þvælast fyrir þeim markmiðum sem menn eru að setja sér í efnahagsmálum.