Tilkynningarskylda íslenskra skipa

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 11:14:29 (1543)

1998-12-03 11:14:29# 123. lþ. 32.1 fundur 260. mál: #A tilkynningarskylda íslenskra skipa# frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[11:14]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Mér þótti mjög athyglisvert að heyra áðan hv. þm. Kristján Pálsson segja að Landssíminn byggi ekki nógu vel að loftskeytastöðinni í Gufunesi og öðrum strandstöðvum. Ræðu hans var ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að kæruleysi ríkti hjá þeim sem þar réðu húsum gagnvart öryggi sjófarenda. Nú finnst mér alveg sjálfsagt að ganga úr skugga um hvort svo er og býð honum með mér upp í loftskeytastöðina í Gufunesi svo við getum talað við þá starfsmenn sem þar eru. Við getum talað við þá sem bera ábyrgð á þessum rekstri og fengið úr því skorið hvort ástæða sé til að vekja á því athygli í þingsölum að þar sé eitthvert kæruleysi á ferðinni og þannig staðið að málum að öryggi sjófarenda sé hætta búin. Ég hygg að varla hafi verið hægt að skilja orð hv. þm. með öðrum hætti. Mér finnst satt að segja undarlegt að frv. sem hér liggur fyrir skuli vekja upp hugrenningar um að með einhvern veginn sé dregið úr öryggi þeirra sem eru á fiskiskipum umhverfis landið.

[11:15]

Smávegis misskilnings hefur gætt hjá hv. þingmönnum varðandi stærð þeirra fiskiskipa sem lögin fjalla um. Eins og segir í fskj. og í samningnum sem þar er birtur er verið að tala um skip sem eru minni en 24 metrar og gert ráð fyrir því að stærri skip tilkynni sig á 12 stunda fresti ef ég man rétt, ég er ekki með frv. hjá mér í ræðustól af vangá. Það er því ekki um það að ræða að öll skip, stór og smá, eigi að greiða 5 þús. kr. vegna sjálfvirku tilkynningarskyldunnar, heldur er einungis verið að tala um minnstu skipin. Þessi misskilningur er eðlilegur og kannski ekki nógu skýrt tekið fram í grg. með frv.

Það er ekki rétt hjá hv. þm. Kristjáni Pálssyni að gert sé ráð fyrir því að tækin í bátana kosti 150--200 þús. kr. Síðast þegar ég vissi var miðað við að kostnaður búnaðar mundi vera um 120 þús. kr. á skip og má vera að sú tala sé lægri núna, ég hef ekki nýjustu tölur um það en við því er að búast að þær tölur fari lækkandi eins og önnur tæki og annar búnaður á fjarskiptasviði og gert er ráð fyrir því að styrkja báta til kaupa á þessum tækjum. Nú er gert ráð fyrir að um 1.500 bátar muni nýta sér þessi tæki og í greiðslumati með frv. kemur fram að á næsta ári er gert ráð fyrir að 17 millj. kr. renni til þess að styðja þá útgerðarmenn sem vildu festa kaup á slíkum tækjum. Ég man ekki betur en gert sé ráð fyrir því að styrkur til sjómanna eða útgerðarmanna verði um 40 þús. kr. á bát og þá geta viðkomandi útgerðarmenn ráðið því hvar þeir kaupa tækin þannig að ekki er um styrk til neins framleiðanda að ræða í þeim efnum.

Mér þótti það athyglisvert sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vakti máls á áðan hvernig farið skuli með þær upplýsingar sem koma í gegnum sjálfvirku tilkynningarskylduna. Í lögum um tilkynningarskylduna, eins og þau liggja nú fyrir, eru engin ákvæði um hvernig fara skuli með upplýsingar og mér finnst nauðsynlegt að það mál verði athugað sérstaklega. Það hefur verið rætt um að til greina komi að þetta kerfi verði jafnvel notað við stjórn fiskveiða. Um það hefur engu verið slegið föstu, síður en svo. Mér finnst það koma sterklega til greina eins og hv. þm. sagði að þessar upplýsingar megi ekki afhenda þriðja aðila. Þetta mál hefur verið rætt milli samgrn., sjómanna og Slysavarnafélagsins. Niðurstaðan varð sú að setja ekki ákvæði um þessi efni inn í frv. en mér finnst ekki nema eðlilegt að Alþingi taki það sérstaklega fyrir og vil styðja að því eins og samgrn. getur að flýta athugun á því máli. Ég tel því að þessi athugasemd hv. þm. hafi átt fullan rétt á sér og sé mjög athyglisverð og nauðsynlegt að taka afstöðu til hennar.

Ég vil að lokum segja, herra forseti, að mér þykir það leiðinlegt ef hv. 18. þm. Reykv. er stúrin yfir því að ég sé viðskotaillur á þessum fallega degi. Ég er auðvitað svolítið stúrinn yfir því ef þingmenn halda að með þessum frumvarpsflutningi sé með einhverjum hætti verið að draga úr því að sjómönnum á miðunum sé veitt nauðsynleg þjónusta. Enginn hefur talað um það svo ég viti í tengslum við þetta mál að í því samhengi sé ástæða til að draga úr nauðsynlegri þjónustu á strandstöðvum, enginn maður og engum manni dottið í hug fyrr en nú inni í þessum sal. Ég skil satt að segja ekki hvernig á því megi standa. Þess vegna get ég boðið hv. 18. þm. Reykv. að slást í för með mér og hv. þm. Kristjáni Pálssyni þegar við förum upp í loftskeytastöðina svo að þessir tveir þingmenn geti að eigin raun kynnst því hvernig þessi starfsemi er, talað við þá menn sem þar eru á vakt og fengið þannig persónulegar upplýsingar um það hvernig að þeim er búið. Mér finnst raunar líka sjálfsagt að bjóða þessum tveimur hv. þm. í Slysavarnafélagið. Ég skal greiða fyrir því að þeir geti hitt framkvæmdastjóra eða forseta Slysavarnafélagsins líka til þess að fara yfir það mál með þeim aðilum hvort með sjálfvirku tilkynningarskyldunni eða vegna hennar sé hætta á því að dregið verði að öðru leyti úr þjónustu við sjófarendur með þeim hætti að jafnframt sé dregið úr öryggi. Mér finnst nauðsynlegt að fara rækilega ofan í það mál því að ég hef aldrei áður heyrt þetta mál tekið upp á þeim grundvelli að með því sé ætlunin að draga úr þjónustu við sjófarendur. Ég endurtek það. Þessi umræða og þessar vangaveltur eru alveg nýjar fyrir mér.