Kerfisbreyting í húsnæðismálum og ástandið á leigumarkaði

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 16:01:42 (1604)

1998-12-03 16:01:42# 123. lþ. 32.93 fundur 132#B kerfisbreyting í húsnæðismálum og ástandið á leigumarkaði# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[16:01]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu og umfjöllunar raunverulegt neyðarástand í húsnæðismálum. Hæstv. félmrh. vísar í nefndir, reglugerðir, lög, kerfi. Þetta hjálpar ekki vanda þess fólks sem er nú húsnæðislaust. Þetta hjálpar ekki þeim barnafjölskyldum í Reykjavík sem eru á götunni. Reyndar er það svo að það sem nú er verið að kanna á vegum nefndar hæstv. félmrh. var vitað fyrir. Það var t.d. vitað fyrir samkvæmt ábendingum frá Kópavogi að af þeim 120 fjölskyldur sem fengu inni í félagslegu húsnæðiskerfi þar í bæ á liðnum tveimur árum, hefðu aðeins 10 komist inn í kerfi hæstv. félmrh. Það var vitað fyrir samkvæmt ábendingum frá Akureyri að aðeins um þriðjungur þeirra sem fá inni í félagslegu húsnæðiskerfi á Akureyri eiga kost á að reiða fram 10% sem hæstv. félmrh. gerir að kröfu til að komast inn í nýja húsnæðiskerfið. Þetta var vitað fyrir. Það var líka vitað fyrir hvað var að gerast á húsaleigumarkaði í Reykjavík. Það var vitað fyrir að markaðsvæðing Félagsíbúða hf. mundi éta upp húsaleigubæturnar og gott betur. Allt þetta var vitað fyrir. En nú stöndum við frammi fyrir vandanum. Við stöndum frammi fyrir þúsundum einstaklinga og fjölskyldna sem sjá fram á húsnæðisleysi og nú er hæstv. félmrh. krafinn svara. Hvað ætlar hann að gera gagnvart þessu fólki? Það er tvennt sem þarf að gerast þegar í stað. Það þarf að tryggja á fjárlögum fyrir næsta ár stóraukið fjármagn til húsnæðismála. Þetta þarf að gerast. Síðan þarf að taka hin nýju húsnæðislög til gagngerrar endurskoðunar.