Fjáraukalög 1998

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 11:47:35 (1621)

1998-12-04 11:47:35# 123. lþ. 33.12 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[11:47]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Furðulegt að halda því fram að staðan hafi batnað. Virðisaukaskattur var innan lands árið 1990 43,38% en 1996 37,23%. Hvers konar rök eru þetta eiginlega?

Og að halda því fram að það sé minni hlutinn sem sé að koma með þessa spádóma um minnkun á virðisaukaskatti, --- minni hlutinn styðst við álit Ríkisendurskoðunar sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Ekki eru gerðar athugasemdir við teknahlið frv. að öðru leyti en því að bent er á að tekjur af virðisaukaskatti gætu verið ofáætlaðar um 1,5--2 milljarða kr.``

Hvað stendur í áliti minni hlutans? Nákvæmlega sömu orð, nákvæmlega sömu orð og ekkert annað. Ég veit ekki betur en að hingað til hafi menn borið virðingu fyrir því sem Ríkisendurskoðun hefur sett fram um þessi mál. Það er nákvæmlega það sem við erum að fjalla um.

Á þskj. 349, svari hæstv. fjmrh. við fsp. Jóhönnu Sigurðardóttur um virðisaukaskatt, kemur skýrt fram að málin liggja svona. Að tekjur af virðisaukaskatti hafa minnkað um frá árunum 1990--1996 um u.þ.b. 10--11%. Er það eðlilegt? Ég spyr.