Breyttar áherslur í Evrópumálum

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 13:25:17 (1639)

1998-12-04 13:25:17# 123. lþ. 33.93 fundur 136#B breyttar áherslur í Evrópumálum# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[13:25]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ummæli hæstv. utanrrh. á þingi þeirra framsóknarmanna á dögunum um Evrópumál vöktu allnokkra athygli. Þar sagði hæstv. ráðherra m.a. í ræðu sinni:

,,Ég geri mér grein fyrir að innan skamms fara samstarfsaðilar okkar í EFTA að huga meira en verið hefur að aðild að Evrópusambandinu. Svisslendingar ætluðu að leysa sín mál með tvíhliða samningum en það hefur ekki gengið eftir. Líklegt má telja að Norðmenn geri nýja tilraun til aðildar þótt líkur bendi ekki til að það verði á allra næstu árum.``

Einnig sagði hæstv. ráðherra að við lægjum undir ámæli fyrir að forðast umræður um Evrópusambandið. Við hverja er átt þarna með orðinu ,,við`` skal ósagt látið og einnig hverjum sneiðin er ætluð.

Í þriðja lagi sagði hæstv. ráðherra aðeins síðar í ræðunni: ,,Ég tel víst að við hefðum ekki getað náð í aðildarniðurstöðu sem hefði verið ásættanleg fyrir íslenska hagsmuni og samfélag. En ég tel ekki rétt að útiloka það um alla framtíð að aðild geti orðið orðið vænlegur kostur.`` Enn fremur var sagt: ,,Við eigum ekki að láta stjórnast af hræðslu og ótta við hið óþekkta.`` Til hverra þar er verið að vísa er ekki heldur ljóst.

Enn fremur segir: ,,Stærsta hindrunin gegn því að Ísland geti orðið aðili að Evrópusambandinu er sjávarútvegsstefna þess. Þótt endurskoðun hennar standi nú fyrir dyrum tel ég að Íslendingar verði að standa utan við hana til að tryggja yfirráð mikilvægustu auðlinda sinna. En er sá möguleiki raunhæfur að Íslendingar geti fengið að standa utan sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar ef tengsl okkar við Evrópusambandið breytast?`` Og það er nærtækt að áætla eða álykta að með orðinu ,,tengsl`` þarna sé átt við mögulega aðild einnig.

Herra forseti. Hér er það ekki bara einhver Jón Jónsson sem talar og það er ekki bara formaður Framsfl. Það er hæstv. utanrrh. Það er lagt til af okkar hálfu frumkvæði í málinu. Lagðar eru til aðgerðir. Hér er með öðrum orðum ekki um hlutlaus ummæli að ræða í þeim skilningi málsins. Það er utanrrh. sem fer með utanríkismál og er í samskiptum og jafnvel samningaviðræðum við Evrópusambandið. Það skiptir þess vegna miklu máli að fá það á hreint hvort þessi ummæli vísa til breyttra áherslna af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og vísa til breyttrar framgöngu þessa handhafa utanríkistefnunnar og hagsmunagæslu manns okkar í samskiptum við m.a. Evrópusambandið.

Því er eðlilegt að spurt sé, herra forseti, og þetta sé rætt hér enn fremur vegna þess að um þetta var ekki með þessum hætti sérstaklega fjallað í skýrslu hæstv. ráðherra til Alþingis á dögunum eða ræðum hans þá. Samkvæmt því sem hæstv. forsrh. segir jafnan þegar hann túlkar stefnu ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum er aðild að Evrópusambandinu ekki á dagskrá. Nú hefur að vísu komið fram að hæstv. forsrh. prófarkalas og blessaði ræðu hæstv. utanrrh. en engu að síður er ástæða til að spyrja: Er hér verið að boða ekki aðeins breyttar áherslur Framsfl., sem augljóst virðist vera, heldur einnig að nokkru leyti breyttar áherslur eða breytta framkvæmd hæstv. ríkisstjórnar á utanríkisstefnunni? Þ.e. breyttar áherslur eða breytta framkvæmd hæstv. ríkisstjórnar á utanríkisstefnunni hvað varðar samskipti við Evrópusambandið.

Í öðru lagi: Hvernig hyggst hæstv. utanrrh. vinna í framhaldinu að þessum málum og mun þessara hugmynda formanns Framsfl. um mögulega aðild á grundvelli einhvers konar undanþágu sjá stað í samskiptum og samningaviðræðum við Evrópusambandið á komandi missirum eða svo lengi a.m.k. sem hæstv. ráðherra fer þá með utanríkismál?

Í þriðja lagi: Hvað kemur hæstv. utanrrh. til að halda að nokkur minnsti möguleiki sé að við fáum undanþágu frá þessum ákvæðum Rómarsáttmálans í ljósi þess hvernig Norðmönnum gekk í aðildarviðræðum sínum og í ljósi þess sem hæstv. ráðherra sjálfur segir í sinni ræðu? Þegar hann reifar slíkar hugmyndir er svarið jafnan neikvætt.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti, herra forseti, að ég vara við því ef ætlunin er að koma þessu máli á hreyfingu, þ.e. hugsanlegri aðild Íslands, á jafnóraunhæfum forsendum og ég tel hér verið að leggja upp, þeim að við getum fengið einhverja almenna og varanlega undanþágu frá mikilvægum grundvallarreglum Rómarsáttmálans sem engum hefur tekist. Ég vara við því.

Ég ítreka því spurningar mínar og lýsi því jafnframt yfir sem skoðun minni, herra forseti, að þetta mál hljóti að þurfa að koma til rækilegrar umfjöllunar af hálfu Alþingis á þessum vetri.