Breyttar áherslur í Evrópumálum

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 13:30:38 (1640)

1998-12-04 13:30:38# 123. lþ. 33.93 fundur 136#B breyttar áherslur í Evrópumálum# (umræður utan dagskrár), utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[13:30]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að lesa úr ræðum mínum hér á Alþingi en tek fram að ræðan var ekki prófarkalesin af einum né neinum og er algerlega á mína ábyrgð, enda flutt á flokksþingi Framsfl. og ég sé nú ekki alveg hvaða erindi hún á hér inn í sali Alþingis. Í ræðunni fjallaði ég um framtíðina og framtíðarviðfangsefni íslenskra stjórnmála. Ég fæ ekki séð hvernig menn geta gert ráð fyrir að hægt sé að fjalla um framtíðarverkefni íslenskra stjórnmála án þess að minnast á þróunina í Evrópu, stöðu Íslands í því sambandi og það sem er að gerast í kringum okkur. Það má vel vera að hv. þm. geti fjallað um framtíðina án þess að minnast einu orði á þá þróun.

Það liggur alveg ljóst fyrir að menn halda því fram, m.a. í flokki sem fyrrum flokksfélagar hans eru að stofna, að Ísland eigi að sækja um aðild strax vegna þess að það sé aðeins í aðildarviðræðum sem slíkt fáist útkljáð. Þessi umræða er hér nánast upp á hvern dag. Er eitthvað á móti því að við könnum hjá nánustu samstarfsþjóðum okkar hvort líklegt sé að hægt sé að fá þar niðurstöðu sem væri hagstæð Íslandi, Grænlandi og Færeyjum? Við vitum vel að Færeyingar eru í vissum vanda og Grænlendingar eru það líka. Ég fæ ekki séð að nokkur stjórnmálamaður eða stjórnmálaflokkur sé andvígur því að slík könnun fari fram. Ég tók það skýrt fram í ræðu minni að ég væri ekki að leggja til --- það las hv. þm. ekki --- að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu. Hins vegar tel ég mikilvægt að menn fjalli um þessi mál með opnum huga án þess að fella sleggjudóma. Það gæti hjálpað í þeirri umræðu og gert okkur betur kleift að taka afstöðu ef slík könnun færi fram. Nú skal ég ekkert fullyrða um hvort svo verði.

Í þessu felst engin breyting á stefnu ríkisstjórnarinnar. Hún er eins og segir í stjórnarsáttmálanum, sem ég vænti að hv. þm. hafi jafnframt lesið, að treysta samskiptin við Evrópusambandið á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, fylgjast náið með þróun mála innan sambandsins á næstu missirum og kynna íslenska hagsmuni fyrir aðildarríkjum þess. Ég tel í sjálfu sér að allt í ræðu minni samrýmist þessari stefnu. Ég hef fylgt því eftir að reyna að kynna sem best íslenska hagsmuni og íslenska afstöðu. Hins vegar er alveg ljóst og ekkert launungarmál að EFTA-ríkin fá ekki þann tíma hjá Evrópusambandsríkjunum sem áður var. Augu þeirra beinast í æ ríkara mæli að stækkuninni til austurs og það gengur oft illa að vekja athygli á mikilvægum hagsmunum EFTA-ríkjanna. Ég hef oft orðið þess áskynja að athyglin beinist í aðrar áttir og það hlýtur að koma inn í mat okkar á framtíðarstöðu Íslands í þessu sambandi. Í þessu samhengi hlýtur einnig að koma inn í mat okkar hvað nánar samstarfsþjóðir í EFTA gera, þ.e. Sviss og Noregur. Allir hljóta að sjá að EFTA yrði ekki svipur hjá sjón ef þessi ríki mundu ákveða að ganga í Evrópusambandið. Ég reyndi að fjalla um stöðuna og þessar staðreyndir og hvernig við ættum hugsanlega að bregðast við því. Ég vænti þess að hv. þm. geti verið því sammála og skilji það.