Dómur Hæstaréttar um stjórn fiskveiða

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 14:22:12 (1653)

1998-12-04 14:22:12# 123. lþ. 33.95 fundur 138#B dómur Hæstaréttar um stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[14:22]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir þennan dóm tel ég ekki ástæðu til þess að hæstv. sjútvrh. og hæstv. utanrrh. gerist einhvers konar pólitískir flóttamenn frá þessu kerfi. Ég held að ekki sé ástæða til þess. Þetta er mál sem þingið þarf að taka á í heild sinni. Það er erfitt að draga skýrar ályktanir af þessum dómi og ég held það sé dálítil einföldun hjá bæði hæstv. sjútvrh. og hæstv. utanrrh. að tala um að dómurinn sé ekki eins stór og hann ella hefði getað orðið ef sjö menn hefðu verið í dómnum því vitaskuld er það nú jafnan svo að ef niðurstaða Hæstaréttar er sú að lög fari í bága við stjórnarskrá er það alltaf stór og merkileg niðurstaða. Það er því mikil einföldun að leggja þetta upp með þessum hætti. Það sem Hæstiréttur segir í þessu máli er einfaldlega að sú aðferð sem hefur verið notuð við úthlutun veiðileyfa standist ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Það er mjög einfalt en þessi úthlutun veiðileyfa hefur verið forsenda þess að veiðiheimildum hafi verið úthlutað þannig að þetta helst vitaskuld í hendur. Ef þessi mismunarregla á við veiðileyfin á hún að sjálfsögðu einnig við úthlutun aflahlutdeildar vegna þess að þetta byggir hvort á öðru. Niðurstaða mín, virðulegi forseti, er því sú að það standi líkur til þess að ef úthlutun veiðileyfanna stenst ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar þá standi líkur til þess að úthlutun aflahlutdeildar geri það ekki heldur. Um það verður vitaskuld ekkert fullyrt og það er mjög mikilvægt að Alþingi taki á þessu máli með festu og af yfirvegun. Ég tek undir það með hv. málshefjanda að mjög nauðsynlegt er að sjútvn. Alþingis komi saman hið fyrsta og taki á þessu máli því þetta er gríðarlega stórt mál og skiptir þjóðina miklu.