Svar við fyrirspurn

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 13:40:04 (1674)

1998-12-07 13:40:04# 123. lþ. 34.91 fundur 140#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[13:40]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ef ég hef skilið ræðu hv. þm. rétt, þá var hann að gera athugasemd við það að svar við fyrirspurn sem hann bar fram hefur ekki borist innan settra tímamarka. Það er rétt, það hefur ekki borist og mér þykir leitt að dráttur hefur orðið á því. Þetta svar er hins vegar væntanlegt í þingið í dag eða í síðasta lagi á morgun og þar með vænti ég að málið sé úr sögunni.

Hins vegar færist það mjög í vöxt að hingað berist fyrirspurnir sem mikið verk er að svara, þar sem draga þarf saman upplýsingar frá fleiri en einum stað í hinu opinbera kerfi og því miður getur slíkt verið tímafrekt þó að sjálfsögðu þyki manni leitt ef farið er út yfir tilskilda fresti í því efni.

Að því er varðar síðari hluta ræðu hv. þm. er annar ráðherra til svara í þeim efnum, hæstv. viðskrh. Mér finnst dálítið furðulegt þegar menn nota þingskapamöguleika sína til að gera fyrirspurnir til ráðherra út af eðlilegum umkvörtunarefnum eins og þeim að frestir eru ekki fyllilega virtir, þá noti þeir það til árása á eitthvert tiltekið málefni sem er uppi þann og þann daginn. Mér finnst vægast sagt undarlega farið með það svigrúm sem þingsköpin veita mönnum til að taka til máls utan dagskrár.