Frumvarp um persónuvernd

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 14:01:06 (1687)

1998-12-07 14:01:06# 123. lþ. 34.97 fundur 146#B frumvarp um persónuvernd# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[14:01]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég skil vel að hæstv. dómsmrh. freisti þess að fela ágreining innan Sjálfstfl. um þetta frv. sem stafar af því að innan þingflokks Sjálfstfl. er ágreiningur um stöðu tölvunefndar, en staða tölvunefndar skiptir öllu máli varðandi persónuvernd eins og hún er sett fram í frv. til laga um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði. Það skiptir öllu máli. Það var ekki ég sem tók þetta mál inn í umræðuna heldur var það hæstv. heilbrrh. á sínum tíma. Og það er líka rangt hjá hæstv. dómsmrh. að þetta tengist ekki miðlægum gagnagrunni vegna þess að í því plaggi sem hann hefur lagt fram í ríkisstjórn og í því plaggi sem ríkisstjórnin hefur samþykkt er að finna skilgreiningu sem kollvarpar skilgreiningu frv. til laga um miðlægan gagnagrunn á því hvað eru persónugreinanlegar upplýsingar. Þar með fellur ekki bara sá þáttur frv. heldur líka sú aðferð sem þar er notuð til að verja að menn fari ekki þá leið að leita upplýsts samþykkis. Með öðrum orðum, það er nauðsynlegt að við fáum að sjá hér í þingsalnum hvort ríkisstjórnin hefur eina eða tvær skoðanir á þessu mikilvæga máli. Ég tel því að ærlegt væri og heiðarlegt að leggja þetta frv. fyrir og mér finnst að krafa okkar um það sé sanngjörn, sér í lagi ef hæstv. ríkisstjórn ætlar með einhverjum hætti að reyna að draga okkur, sem höfum sýnt þessu máli vild, til samþykktar við málið. Það er ekki verið að hjálpa okkur með því framferði.