Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 15:10:24 (1715)

1998-12-07 15:10:24# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[15:10]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var heldur dökk mynd sem dregin var upp af heilbrigðisþjónustunni og ég tek ekki ekki undir hana. Nýlega hefur komið fram í fréttum að biðlistar eru að styttast og um minni lokanir deilda er að ræða. Við erum að veita afar góða heilbrigðisþjónustu, eina bestu í veröldinni. Og ég held að allir geti verið sammála því að ef menn veikjast vildu þeir helst veikjast á Íslandi.

En varðandi góða heilbrigðisþjónustu þurfum við að sjálfsögðu að leita allra leiða til að hafa faglega, sterka heilbrigðisþjónustu sem kostar þó ekki meira en hún þarf að kosta. Það er alltaf þetta jafnvægi sem menn þurfa að finna. Við gætum auðvitað farið með öll fjárlög ríkisins í heilbrigðisþjónustuna ef við kærðum okkur um, en ég tel að það væri ekkert vit í því. Þess vegna er mjög brýnt að reyna að nota þennan miðlæga gagnagrunn, sem trúlega verður að veruleika, til þess að fá svör við ýmsum spurningum sem heilbrigðisyfirvöld hljóta að vilja leita svara við til að geta stýrt kerfinu sem hagkvæmast þannig að þjónustan verði góð en hún kosti ekki meira en hún þarf. Það er aðalatriðið.