Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 15:38:46 (1738)

1998-12-07 15:38:46# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. 1. minni hluta ÖS
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[15:38]

Frsm. 1. minni hluta heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Í framhaldi af þeim umræðum sem fram fóru rétt áðan vil ég taka fram að það er alveg rétt sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði, að þetta mál var tekið fyrir í heilbr.- og trn. Það gerðist á þann hátt að formaður nefndarinnar var búinn að óska allnokkrum sinnum eftir því að fá frv. um persónuvernd inn til nefndarinnar og það var ekki fyrr en það var tilkynnt að hvorki formaðurinn né minni hlutinn mundi standa að afgreiðslu málsins úr nefndinni að frv. fékkst. Hins vegar var minn skilningur a.m.k. ekki sá að niðurstaða nefndarinnar hefði verið sú að ekkert ósamræmi væri á milli þessara tveggja mála heldur lét ég það skýrt koma fram að mín skoðun væri sú að sú skilgreining á persónulegum upplýsingum sem kemur fram á bls. 45 í því sem hv. þm. Sólveig Pétursdóttir kallaði þá bara vinnuplagg, fellir algerlega stoðirnar undan sams konar skilgreiningu sem er að finna í því frv. sem við erum með hérna. (Gripið fram í.) Þetta er mín skoðun, hv. þm., og í því liggur auðvitað mikilvægi þess að fá þetta frv. hingað inn í þingið. Eins og ég mun reyndar koma á framfæri á eftir þá skiptir þetta talsvert miklu máli, að vísu ekki fyrir þá afstöðu sem ég hef til persónuverndar í þessu frv., en það kollvarpar algerlega bæði þeim rökum sem meiri hlutinn hefur fyrir því að persónuverndar sé nægilega gætt og þar að auki kollvarpar þetta líka rökum hans fyrir því að ekki sé þörf á að krefjast upplýsts samþykkis miðað við þær forsendur sem hafa verið lagðar fram.

Það er dapurlegt, herra forseti, hvernig farið er fyrir þessu máli sem var býsna gott þegar það fór af stað. Ég tel sjálfur að miðlægur gagnagrunnur á heilbrigðissviði sé tæki sem hefði verið hægt að gera talsvert mikið úr. Ég leit á það með nokkuð mikilli hrifningu þegar það kom fram og taldi að það gæti orðið vísindunum til mikils framdráttar. Þegar málið var sett fram lék um það talsverður ljómi. Menn ræddu um það í sömu andrá og mikilvægar uppgötvanir á sviði erfðalækninga og menn töluðu um að mögulegt yrði að nota þetta tæki til að reyna að ná fram einhvers konar nýjum upplýsingum sem gætu hjálpað mönnum til að ráða bót á mikilvægum sjúkdómum.

Frá því er skemmst að segja, herra forseti, að frá því málið kom fram í vor og fram á þennan dag hefur ekki enn þá tekist að fá eitt einasta dæmi um það hvernig hægt er að nota þennan gagnagrunn að því marki og það er bagalegt. Þegar ég velti því fyrir mér hvers konar gagn megi hafa af miðlægum gagnagrunni á heilbrigðissviði sýnist mér að það sé fyrst og fremst þrenns konar.

Í fyrsta lagi kemur fram í frv. sjálfu að hafa megi gagn af hinum miðlæga grunni til að búa til heilbrigðisskýrslur fyrir heilbrigðisyfirvöld. Í öðru lagi er því haldið fram líka að það ætti að vera hægt að nota gagnagrunninn til þess að finna erfðatengda sjúkdóma. Í þriðja lagi er alveg ljóst að hægt er að fá þarna upplýsingar sem geta gagnast lyfjafyrirtækjum.

Ef við förum yfir þessa þrjá þætti og veltum því upp hvernig horfurnar standa í þessum málum, í fyrsta lagi að því er varðar hina erfðatengdu sjúkdóma, þá er nauðsynlegt að það komi fram, eins og ég mun reifa síðar í mínu máli, að upplýsingar um arfgerð sem byggðar eru á upplýstu samþykki sjúklinga eru ekki hluti af miðlægum gagnagrunni á heilbrigðissviði. Það er tekið skýrt fram. Og hvað sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði í sinni ræðu áðan, þá kemur það líka skýrt fram og kom skýrt fram í nefndinni að ættfræðiupplýsingar eru ekki hluti af miðlægum gagnagrunni á heilbrigðissviði. Það er tvítekið í greinargerð með frv.

Með öðrum orðum hefur okkur ekki tekist að fá upplýsingar um það hvernig eigi að nota þetta vísindatæki til að fá upplýsingar um erfðatengda sjúkdóma til þess að við getum fetað okkur framar í áttina að því að finna lækningu á slíkum sjúkdómum. Og þegar fulltrúar hins væntanlega rekstrarleyfishafa, sem allir vita að er Íslensk erfðagreining, voru spurðir um þetta á fundi heilbr.- og trn. þá kom slíkt dæmi ekki fram.

Að því er varðar heilbrigðisupplýsingarnar og notkun þeirra til þess að búa til skýrslur fyrir hið opinbera þá liggur í augum uppi að ef þátttaka í hinum miðlæga grunni er góð getur hann orðið mjög öflugt tæki til þess að afla slíkra upplýsinga. Það blasir hins vegar við, herra forseti, að vilji almennings til að taka þátt í grunninum með því að miðla til hans upplýsingum um sjálfan sig hefur hraðminnkað. Umræðan hefur verið slík að síðustu kannanir sem hafa verið gerðar á vilja manna til að taka þátt í honum hafa sýnt að fylgið við það hefur minnkað úr 95% niður í ríflega 60%. Þegar við bætist að einstök sjúklingafélög hafa uppi orð um að þau muni skora á félagsmenn sína að láta ekki upplýsingar um sig í þennan grunn þá blasir við að hann verður í versta falli ærið götóttur og líklegt er að einmitt þeir sem bera einhvers konar kvilla, sem bera alvarleg mein, þ.e. einmitt þeir sem heilbrigðisyfirvöld þurfa að fá upplýsingar um, verði ekki í þessum grunni. Þess vegna kemst ég að þeirri niðurstöðu að það verði heldur hæpið gagn af grunninum. En ég þvertek þó ekki fyrir það, því vel getur verið ef þátttakan verður mjög góð, að þetta kunni að verða býsna góður liðsauki fyrir heilbrigðisyfirvöld. Sú nytsemd á þá eftir að sýna sig. En útlitið er ekki slíkt að hægt sé að spá fyrir um það.

[15:45]

Þriðja gagnið sem ég sé mögulegt að hafa af gagnagrunni eins og þessum er að hann nýtist lyfjafyrirtækjum. Þegar ný lyf eru sett á markað og búið er að prófa þau og þau eru komin á markaðinn tekur við svokölluð IV. stigs tilraun eða IV. stigs könnun, ,,Phase IV trials`` sem fer þannig fram að fyrirtækin kanna hvernig 3.000--4.000 manns, sem taka lyfið eftir að búið er að heimila það á markaðinn, bregðast við, kanna aukaverkanir o.s.frv. Ég ímynda mér, herra forseti, að þegar slík lyfjafyrirtæki eigi kost á því í gegnum þennan grunn að komast að svipuðum rannsóknum sem taka e.t.v. til tuga þúsunda verði af því býsna gott gagn þannig að niðurstaða mín á þessu stigi, eftir að hafa með miklum og einlægum vilja reynt að leggja mig fram um að sjá út annars konar tilgang, er sú að líkast til verður miðlægur gagnagrunnur á heilbrigðissviði gott, e.t.v. afburða gott, tæki fyrir lyfjafyrirtæki úti í heimi en ég sé ekki annars konar verulegt gagn. Auðvitað má draga fram dæmi sem sýna að það gæti haft mikla nytsemd í för með sér.

Ég ímynda mér t.d. að þegar Thalidomide-slysið kom upp fyrir um það bil þremur áratugum hefði liðið afar skammur tími og mátt koma í veg fyrir miklar hörmungar ef slíkt tæki hefði þá verið fyrir hendi. (Gripið fram í: Hvað segir þú?) Thalidomide-lyfið sem leiddi til hvers kyns vanskapnaðar hjá börnum og fóstrum.

Það má líka rifja það upp að ekki eru nema nokkrir dagar eða nokkrar vikur síðan tekið var lyf út af markaði á Íslandi sem hafði verið bannað eftir IV. stigs tilraunir í ESB-löndunum. Ég ímynda mér líka að gagnagrunnur af þessu tagi gæti gagnast býsna vel varðandi atriði eins og þetta. En þetta er auðvitað talsvert annað en lagt var upp með í fyrra. Þetta er allt annað en sú bjarta framtíðarsýn sem menn notuðu til þess að vinna þessum gagnagrunnum brautargengi.

Nú tek ég skýrt fram að ég er þeirrar skoðunar að hinn væntanlegi rekstrarleyfishafi, Íslensk erfðagreining, eigi örugglega eftir að vinna mikla landvinninga einmitt á sviði erfðatengdra sjúkdóma. En þeir verða ekki unnir í krafti þessa grunns nema þá að einhverju litlu leyti. Þeir verða fyrst og fremst unnir í krafti upplýsinga um arfgerð sem menn fá með upplýstu samþykki og því má ekki gleyma að samkvæmt því sem einn af stofnendum fyrirtækisins upplýsti í heilbr.- og trn. og setti fram í skriflegu formi hefur Íslensk erfðagreining í dag heimild 70 þúsund Íslendinga til þess að gera tilteknar arfgerðarprófanir á þeim. Þar af er þegar búið að gera það á 10 þúsund einstaklingum. Það er á grundvelli þessarar vinnu sem má vænta mikilla framfara á sviði erfðalækninga í framtíðinni. En ég næ ekki þessari tengingu við hina björtu framtíðarsýn erfðalækninganna sem átti að vinnast í gegnum hinn miðlæga heilbrigðisgrunn og það má vera vegna þess að eins hefur margsinnis komið fram í þessum sölum að ég er bara þingmaður með slaka meðalgreind. Ég bara næ því ekki, herra forseti.

Auðvitað er dapurlegt hvernig er komið fyrir þessu máli. Við sjáum að það er í uppnámi. Jafnvel þó að þingið mundi samþykkja það í talsvert góðri sátt er ófriður úti í vísindasamfélaginu og þessi ófriður stafar af mörgum þáttum. Hann stafar af því að ekki hefur verið nægur vilji til þess að rétta fram sáttarhönd. Ég tel t.d., það er skoðun mín og aðrir geta verið mér ósammála um það, að ef menn hefðu íhugað að hverfa frá braut einkaréttarins, ef menn hefðu velt því fyrir sér að fara aðrar leiðir en lagt er fram í frv. og tillögum meiri hluta til þess að tryggja aðgengi vísindasamfélagsins að hinum miðlæga gagnagrunni hefði verið hægt að ná býsna góðri sátt um þetta mál en öllum útréttum sáttarhöndum um þetta mál hefur a.m.k. verið hafnað til þessa.

Það liggur fyrir að þetta mál, eins og við hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir rökstyðjum ítarlega í nefndaráliti okkar, þverbrýtur EES-reglur. Einungis ákvæðið í 9. gr. um setu fulltrúa rekstrarleyfishafans í aðgengisnefnd vísindasamfélagsins brýtur þær með þrennum hætti, segir Samkeppnisstofnun. Meira að segja Lagastofnun, sú stofnun sem menn hafa litið á sem haldreipi sitt í vörn fyrir grunninn, þorir ekki að kveða upp úr með að gagnagrunnurinn standist EES-reglur. Hún segir það ekki ótvírætt heldur segir hún að tekin sé nokkur áhætta með því að samþykkja þetta frv. Það er því hægt að fara fleiri orðum og nefna mörg fleiri dæmi eins og ég geri síðar í ræðu minni um það hvernig þetta frv. fer að öllum líkindum á skjön við EES-reglur og það eitt nægir til þess að ég get ekki samþykkt það. Þess vegna blasir við, herra forseti, að menn eru að véla um tæki sem hefur óvissan tilgang fyrir utan það að menn eru klárir á því að það er með öllum líkindum hægt að selja fyrir mikil verðmæti þjónustu úr gagnagrunninum til lyfjafyrirtækja, en vísindasamfélagið, læknasamfélagið er í uppnámi og frv. og grunnurinn sem kann að spretta upp af því helgast algerlega af því að samstaða náist og bærileg sátt við vísindasamfélagið.

Frv. kveður t.d. algerlega skýrt á um að engar upplýsingar verða færðar í gagnagrunninn nema ljóst sé að viðkomandi heilbrigðisstofnanir leggist ekki gegn því. Að vísu er ekki krafist samþykkis en hafa á samráð við faglega stjórnendur og læknaráð. Halda menn virkilega að sú staða geti komið upp eftir þær miklu umræður og þær hörðu deilur sem hafa risið um þetta mál að ef læknaráðin og ef faglegir stjórnendur mundu rísa öndvert við fyrirskipun pólitískra stjórnenda stórra heilbrigðisstofnana? Að sjálfsögðu ekki. Það mundi leiða til uppreisnar gegn þessum stjórnum, það mundi aldrei ganga. Nú þegar sjáum við að vinnubrögðin sem hafa verið höfð uppi í þessu máli hafa leitt til þess að læknar eru teknir að safna undirskriftum til þess að hefja baráttu gegn því að afhenda upplýsingar. Auðvitað má deila um hvað í því felst en það er alveg ljóst að ef þeir líta svo á að læknalögin meini þeim að gera þetta og ef það er sannfæring þeirra eru þeir komnir í ansi erfitt siðferðilegt stríð.

Ofan á þetta bætist svo að það er auðvitað alveg ljóst að einhverjir aðilar, samkeppnisaðilar, munu njóta réttar síns til þess að leita til ESA, til Eftirlitsstofnunar EES, og fá úr því skorið vegna þess að heimild er til þess, fá úr því skorið áður en tekur að reyna á málið hvort þetta samrýmist lögum og reglum EES. Það tekur e.t.v. tvö til þrjú ár, ég veit það ekki. En það tekur fimm ár að koma gagnagrunninum upp þannig að varningurinn úr honum verði á seljanlegu horfi. Allt bendir því til að sú leið sem meiri hlutinn er að fara með tillögum sínum eins og þær liggja fyrir í brtt. og með frv. sjálfu sé að stefna frv. og málum í þannig ógöngur að það verði aldrei annað en andvana fætt. Það er sú ábyrgð sem hvílir á meiri hluta þingsins. Menn eru í sumum greinum vitandi vits að feta stíg sem þeir vita að leiðir út í keldu.

Ég ætla að taka sérstaklega eitt dæmi um þetta, herra forseti, sem ég á líka eftir að reifa síðar í ræðu minni og það varðar einmitt 9. gr., greinina um aðgengi vísindamanna. Það liggur alveg ljóst fyrir að breytingarnar sem hv. þingmenn meiri hlutans bjóða þar upp á eru efnislega svo litlar að þær geta tæpast breytt þeirri niðurstöðu sem bæði Lagastofnun og Samkeppnisstofnun komast að að sú aðferð sem þar er boðið upp á, segir Lagastofnun að sé ófær og Samkeppnisstofnun finnur að henni meinbugi og segir að með fernum hætti brjóti sú grein í bága við þær reglur sem við erum aðilar að í gegnum skuldbindingar okkar gagnvart EES. Samt skirrist meiri hlutinn ekki við að leggja þetta fram óbreytt. Í nefndaráliti okkar reifum við að vísu tvær aðrar leiðir og ég tel sjálfur afskaplega mikilvægt að tryggja íslenskum vísindamönnum leið inn í miðlægan gagnagrunn og þess vegna höfum við hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir ekki lagt fram þessar tillögur að svo stöddu. Við höfum kynnt þær í nefndaráliti sem búið er að dreifa og ég á eftir að kynna það frekar á eftir vegna þess að við teljum málið það mikilvægt að um þetta ákveðna atriði viljum við freista samkomulags þó að búið sé að hafna samkomulagi um önnur og stærri mál eins og einkaréttinn.

Herra forseti. Miklar umræður hafa skapast um persónuverndina og sú umræða hefur að mínu viti að stórum hluta verið á villigötum, a.m.k. af hálfu þeirra sem hafa haldið utan um málið. Þegar sú harða gagnrýni birtist sem kom fram úr ýmsum áttum í vor um að persónuvernd væri áfátt var frv. breytt að því er virtist með talsvert mikilvægum hætti og settar voru inn reglur um hvers konar dulkóðanir. Gagnrýnisröddunum frá því í sumar og í vor var nánast öllum svarað með því að það merkilega dulkóðunarferli sem sett er upp í frv. dygði til þess að tryggja persónuverndina. Eftir því sem ég hef skoðað þetta mál hef ég sannfærst meira og meira um að allt of mikið vægi er lagt á dulkóðunina og eftir þær breytingar sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir lét vera að geta sem felast í tillögum meiri hlutans þá er í rauninni búið að svipta helmingi þess gildis sem dulkóðunin hafði algerlega í burtu. En það kom ekki eitt einasta orð fram um það hjá hv. þm. hvers vegna það var gert, þ.e. hv. þm. sagði að frv. væri villandi, en hún gat þess hvergi né skýrði hún að sú meginbreyting er nú gerð á frv. að heilsufarsupplýsingar eru ekki lengur geymdar á dulkóðuðu formi í gagnagrunni eins og segir þó á tveimur stöðum í frv. að eigi að vera og kemur fram í greinargerð sem Hákon Guðbjartsson, tölvusnillingur Íslenskrar erfðagreiningar, sendi SKÝRR að yrði líka. Með öðrum orðum er verið að svipta burt a.m.k. einni af mikilvægum stoðum sem skotið var undir frv. á haustdögum og öll umræða gagnrýnendanna hefur m.a. tekið mið af því að þessi mikilvæga stoð væri undir frv. Ég vek til að mynda athygli á frásögn Morgunblaðsins af fundi sem var í Norræna húsinu þar sem Einar Árnason prófessor taldi einmitt að þrátt fyrir þetta væri öryggisins ekki gætt.

Ég held, herra forseti, hins vegar og er þeirrar skoðunar að það sem skiptir meira máli varðandi persónuverndina séu önnur atriði, það séu fýsisk atriði, það séu aðgangshindranir og annað slíkt. Í frv. er að vísu lítið tekið á því en það var rætt talsvert í nefndinni og það eru atriði eins og aðgangshindranir. Það skiptir líka máli að þrátt fyrir það sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði hérna áðan, hefur það verið skilningurinn fram að þessum degi að ættfræðiupplýsingarnar væru ekki hluti af gagnagrunninum og það rek ég aftur í máli mínu.

Það er algerlega skýrt líka að þrátt fyrir misskilninginn sem er í umræðunni, jafnvel í áliti Lagastofnunar, jafnvel frá hörðustu gagnrýnendum og hörðustu stuðningsmönnum, eru upplýsingar um arfgerð sem byggðar eru á upplýstu samþykki ekki partur af þessum miðlæga gagnagruni. Þetta stendur bara skýrt í frv. þó menn hafi ekki skilið það. Þetta tel ég að skipti verulega miklu máli.

Ég tel líka að það öryggiskerfi sem hefur verið lýst í gögnum sem við höfum fengið um þetta skipti verulega miklu máli. En það sem skipti mestu máli fyrir mig er þó tvennt og það er hið mikla eftirlitshlutverk sem tölvunefnd er falið. Ég treysti tölvunefnd og í þessum sölum hefur áður verið hlegið að mér fyrir það. En ég hef litið á þá með virðingu og ég hef talið að þeir hafi verið mjög aðgætnir varðhundar almannaheilla í öllum málum sem horfa til persónuverndar og ég hef tekið eftir því að þeir hafa ekki skirrst við að stíga á þær tær sem hafa stigið út undan faldlöfum Íslenskrar erfðagreiningar hvenær sem þeim hefur boðið svo við að horfa og það er þess vegna, herra forseti, --- ég tek eftir því að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vaknar nú af værum blundi og kallar hérna eitthvað. Ég náði því ekki. (HG: Voru það klær eða tær?) Ég get ekki sagt um það en örugglega gægðist bæði horn upp fyrir og hali neðan undan.

En þetta skiptir verulega miklu máli vegna þess að allt kerfið, allt persónuverndarferlið í frv. byggir á því að tölvunefnd blessi það, það byggir á því að tölvunefnd taki það út og ekki bara þetta heldur byggir á því að hún hafi eftirlit með rekstri þessa kerfis. Það finnst mér mikilvægt og það er út af því, herra forseti, sem ég hef verið að tuða og rembast eins og öldruð rjúpa við staur í þeirri veiku von um að fá fram frv. um persónuverndina sem hæstv. ráðherra lofaði okkur 15. október til þess m.a. að ég gæti sannfærst um að skoðun mín á persónuverndinni væri byggð á vissu en ekki getgátum. En það eru satt að segja farnar að renna á mig tvær grímur.

Nú hefur hæstv. heilbrrh. upplýst í þessum sölum að búið er að afgreiða þetta frv. frá ríkisstjórninni, frá þingflokki Framsfl. en það er stopp í þingflokki Sjálfstfl. Hvers vegna skyldi það vera? Það hlýtur að vera eitthvað þar sem mönnum líkar ekki við. Getur verið að það sé vegna þess ákvæðis sem þar kemur fram um persónuupplýsingar og fellur ekki að frv. um miðlægan gagnagrunn? Eða kann að vera, herra forseti, að það sé vegna þess að tölvunefnd er skorinn betri og öflugri stakkur en Sjálfstfl. fellst á? Mér finnst að það sé nauðsynlegt að þeir sem fara með forustu Sjálfstfl. í umræðunni skýri hvað dvelur orminn langa.

[16:00]

Ég hef verið einn af þeim mönnum sem hafa verið allir af vilja gerðir til að taka vel á þessum miðlæga gagnagrunni, og ég er m.a.s. sannfærður um að ef ég væri 25 árum yngri hefði ég ábyggilega sótt um vinnu við hann. En manni er ekki gert lífið létt, manni er ekki gert létt að reyna að sannfæra sjálfan sig um það, herra forseti.

En ég er þeirrar skoðunar að það sem skiptir sennilega mestu máli er hlutverk tölvunefndar, og ekki má heldur gleyma því að ákvæði er í frv. sem segir að áður en miðlægur gagnagrunnur tekur til starfa verði óháður úttektaraðili --- og það er ekki tekið fram hvort hann er innlendur eða útlendur og hann gæti þess vegna verið margfrægur doktor Ross Anderson --- látinn gera úttekt á öryggiskerfinu. Þetta tvennt finnst mér vera það mikilvægasta. Það kann að vera að ég sé svo bernskur þrátt fyrir tiltölulega roskinn aldur en ég trúi því að tölvunefnd dugi í málinu. Efasemdarmennirnir, ,,Tómasarnir`` í þessum sal eiga auðvitað eftir að koma og hía á mig út af því, en þetta er samt sem áður sannfæring mín. Ég gef ekki mikið fyrir dulkóðunina og annað slíkt bix sem heldur ekki neitt, allra síst eftir þá breytingu sem hv. frsm. meiri hlutans lét vera að skýra hér af hverju kom fram og ég ætla að reifa örlítið á eftir.

Annað, herra forseti, sem hefur verið deilt harkalega um er upplýst samþykki. Enn tek ég það fram að ég er sömu skoðunar og meiri hlutinn á því. Ég er þeirrar skoðunar að eins og þetta mál er búið séu engar alþjóðlegar skuldbindingar og ekki heldur siðareglur sem krefjast þess. Ég vek athygli á því að læknaráð Sjúkrahúss Reykjavíkur orðar það svo í umsögn sinni að miðað við eðli gagnagrunnsins væri verjanlegt að krefjast aukinnar hörku við að afla samþykkis þrátt fyrir að um væri að ræða faraldsfræðilegar rannsóknir. En við í heilbr.- og trn., eða ég fyrir hönd þeirrar nefndar, kom á framfæri ákveðnum skriflegum spurningum til vísindasiðanefndar sem vörðuðu upplýst samþykki. Í svari nefndarinnar kemur fram að ótvírætt er að jafnan skal leita upplýsts samþykkis ef um er að ræða íhlutandi aðgerðir eða ef hefðbundinni meðferð er breytt í rannsóknarskyni. En þeir segja hins vegar að aðrar reglur geti gilt um faraldsfræðilegar rannsóknir.

Ég vek í því sambandi, herra forseti, athygli á því að í 9. gr. alþjóðlegra siðfræðilegra ráðlegginga um læknisfræðilegar vísindarannsóknir á mönnum undirbúnar af Ráðinu fyrir alþjóðleg samtök um læknavísindi í samvinnu við Heilbrigðisstofnun þjóðanna og birtar 1993, segir eftirfarandi um samþykki byggt á vitneskju í faraldsfræðilegum rannsóknum, --- ég les þetta, með leyfi forseta:

,,Fyrir margar gerðir faraldsfræðilegra rannsókna er annaðhvort óraunhæft eða óráðlegt að afla samþykkis byggðu á vitneskju hjá hverjum og einum þátttakanda. Í slíkum tilvikum skal siðfræðilega matsnefndin ákvarða hvort það sé siðfræðilega ásættanlegt að hefja rannsókn án þess að aflað sé samþykkis er byggt sé á vitneskju og þá hvort nægjanleg sé áætlun könnuðar um að vernda öryggi og virða einkalíf þátttakenda og halda uppi leynd um gögn málsins.``

Í skýringum við nefndina koma fram afar merkilegir hlutir að mér finnst. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Faraldsfræðilegar kannanir, þar sem nauðsynlegt er að athuga skjöl svo sem sjúkraskrár eða nafnlausar leifar sýna (blóð, þvag, munnvatn eða vefjabita), má gera án samþykkis þeirra einstaklinga sem um ræðir að því tilskildu að réttur þeirra til trúnaðar sé virtur.``

Og síðan klykkir sjálf vísindasiðanefndin út með því að segja að siðfræðileg matsnefnd þurfi að ákvarða hvort það sé siðfræðilega ásættanlegt að hefja rannsókn án þess að aflað sé samþykkis er byggt sé á vitneskju.

Eftir að meginbreytingin kom inn í frv., og sú jákvæðasta, þar sem gert er ráð fyrir þverfaglegri siðanefnd, þá tel ég að ljóst sé að þetta skilyrði sé uppfyllt. Og þess vegna er ég þeirrar skoðunar og tel mig hafa rökstutt það hér að í lagi er frá öllum þeim vísindalegu mælikvörðum sem ég tel að séu í heiðri hafðir að gera þessar rannsóknir án upplýsts samþykkis. Fyrir utan það, eins og ég hef áður rakið, að ég held að ekki sé hægt fræðilega að krefjast upplýsts samþykkis, en það er önnur saga. Ég tel sem sagt á grundvelli þeirra álita sem ég hef nú rakið að heimilt sé og menn séu ekki á ganga á skjön við viðteknar reglur þegar þeir fara þá leið að leita ekki upplýsts samþykkis. En röksemdafærsla mín er ekki hin sama í þessu, herra forseti, og meiri hlutans, eða heilbrrn. ef því er að skipta.

Í grg. með 8. gr. frv. segir eftirfarandi:

,,Upplýsingar í gagnagrunninum verða því ekki persónuupplýsingar og er því ekki nauðsynlegt að afla upplýsts samþykkis fyrir flutningi þeirra í gagnagrunninn.``

Með öðrum orðum er forsenda heilbrrn. fyrir því að ekki þurfi að afla upplýst samþykkis sú að ekki sé um persónugreinanleg gögn að ræða. Ég er þeirrar skoðunar að áður en breytingartillögur meiri hlutans sjái dagsins ljós hafi gögnin í hinum miðlæga gagnagrunni verið a.m.k. fræðilega persónugreinanleg. Ég gleymdi að geta þess í ræðu minni áðan um persónuverndina að ég tel þar að auki að áhættan sem tekin er með því sé ásættanleg, eins og ég get metið hana. Það má um það deila, en ég tel það eigi að síður eftir að hafa skoðað það mál rækilega.

Heilbrrn. segir í grg. sinni að ekki þurfi að afla upplýsts samþykkis vegna þess að ekki sé um persónugreinanleg gögn að ræða. Þau fara ekki með þá röksemdafærslu sem ég hef farið með hérna og beita ekki þeim rökum sem ég hef tilfært úr fyrrnefndum alþjóðlegum samningi og úr bréfinu frá vísindasiðanefnd.

Ég tel hins vegar, herra forseti, að breytingin sem meiri hlutinn er að gera núna með breytingum sínum á 7. gr. geri það að verkum að gögnin í hinum miðlæga grunni breytast úr því sem vísindamenn geta kallað fræðilega persónugreinanleg yfir í að vera tiltölulega auðveldlega persónugreinanleg. Og nú ætla ég að reyna að færa rök fyrir því af hverju ég er þessarar skoðunar.

Í hinu upphaflega frv. var það algjörlega skýrt að um var að ræða tvenns konar dulkóðunarferli. Í fyrsta lagi voru kennitölur sérhvers einstaklings sem upplýsingar voru fluttar um í miðlægan gagnagrunn þrídulkóðaðar, á heilbrigðisstofnun, hjá tölvunefnd og eftir að komið var í grunninn. Heilbrigðisupplýsingarnar voru dulkóðaðar einu sinni. Og það segir algjörlega skýrt, herra forseti, að geyma á þær dulkóðaðar. Þetta kemur t.d. fram í minnisblaði Stika ehf., sem er birt á bls. 67 í grg., en þar segir, með leyfi forseta:

,,Gert er ráð fyrir að allar heilsufarsupplýsingar séu geymdar dulkóðaðar.``

Ef menn ganga að því gruflandi hvert vægi þessara leiðbeininga er sem er að finna í minnisblaði Stika þá vek ég athygli þingheims á bls. 20 þar sem segir í grg., með leyfi forseta:

,,Gert er ráð fyrir að dulkóðun skuli a.m.k. vera jafnörugg og sett er fram í fyrrgreindri tillögu Stika ehf.``

Að minnsta kosti jafnörugg. Hvað segir Stiki ehf. síðan um gildi dulkóðunarinnar? Í því minnisblaði kemur fram að ef menn eru að reyna að brjóta dulkóðaðar kennitölur og hafa aðgang að þjóðskrá og geta samkeyrt það með öflugum tölvum jafnoft og fjöldi þjóðarinnar er, þá er hægt að brjóta dulkóðunina. Þessar upplýsingar komu líka fram á fundi nefndarinnar með mönnum sem komu þangað í allt öðrum tilgangi, þ.e. fulltrúum samtaka hugbúnaðariðnaðarins. Og þessar upplýsingar voru staðfestar við mig í samtali við tölvusérfræðing í morgun.

En hvernig var þetta lagt upp upphaflega af hálfu heilbrrn.? Það var lagt upp þannig, eins og má sjá í greinargerð þriggja merkra manna, læknis, stærðfræðings og verkfræðings, að hin tvískipta dulkóðun hefur tvöfalt verndargildi. Ef mönnum tekst að brjóta dulkóðun kennitalnanna, sem kemur fram í þessu minnisblaði að er ekki erfitt ef menn hafa yfir svolitlu afli og getu að ráða, þá verða þeir eftir sem áður að brjóta kóðunina á upplýsingunum sjálfum. Það er auðvitað ekki hægt að gera nema á miklu erfiðari hátt, með því sem menn kalla ,,brute force``, vegna þess að þar er ekki hægt að samkeyra við einhvern grunn eins og þjóðskrána.

Með öðrum orðum þegar búið er að breyta 7. gr. eins og núna er búið að gera þá er búið að svipta burt þessari mikilvægu vernd. Og þó að það hafi ekki komið fram hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur og þó að þess sé hvergi getið í nál. meiri hlutans, þá verða persónuupplýsingarnar geymdar í gagnagrunninum á ókóðuðu formi. Með öðrum orðum: Það sem ég og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson eða einhver tölvuséní í háskólanum þurfa að gera er að brjóta kennitölurnar ef þeir komast með einhverjum hætti yfir þetta. Og þá getum við gefið okkur að ef tekst að stela þessu, sem er alltaf mögulegt, þá er nánast víst að kóðinn verði brotinn. Það er þess vegna, herra forseti, sem ég held því fram að með þeirri breytingu sem er gerð á 7. gr. er búið að svipta burt einni meginstoðinni í frv. eins og það liggur fyrir hálfu meiri hlutans og af hálfu ráðuneytisins. Þá er með öðrum orðum ekki lengur hægt að halda því fram að gögnin séu ópersónugreinanleg. Þegar það er fallið þá fellur líka röksemd meiri hlutans og stjórnarinnar fyrir því að ekki þurfi að afla upplýsts samþykkis vegna þess að þeir gáfu sér allt aðrar forsendur en þær sem ég var að rekja hérna áðan. Ég held því þess vegna fram, herra forseti, að með þessum óforsjálu breytingum sem gerðar hafa verið hafi tvær gildustu stoðirnar undir frv. verið felldar í burtu.

Ég ætla ekki að halda því fram, herra forseti, að menn hafi vísvitandi verið að blekkja fólk. En ég vek athygli á því að hæstv. heilbrrh. hefur sagt það aftur og aftur með nokkru stoli, og mátt vera stolt af því, að hún hafi þrátt fyrir allt gert það sem hún hefur getað til að auðvelda mönnum umræðuna. Hún hefur sett frv. á netið og hún hefur --- hv. þm. hlær, kannski af því hann kann ekki á netið, ég veit það ekki --- en hún hefur eigi að síður reynt að efla umræðuna og hún sendi þó frv. út til fjölmargra aðila áður en það kom til þingsins og breytti því í millitíðinni.

En umræðan um persónuverndina hefur, eins og ég hef verið að sýna fram á, verið á röngum forsendum vegna þess að á síðustu metrunum er mikilvægri stoð kippt í burtu. Það kemur alveg skýrt fram, herra forseti, í plagginu frá Stika ehf. að gert var ráð fyrir því að þegar heilsufarsupplýsingarnar væru komnar inn í gagnagrunninn yrðu þær geymdar dulkóðaðar en beitt yrði einkalykli sem rekstrarleyfishafinn hefur í fórum sínum til að afkóða þær þegar þær eru teknar niður í vinnslulagið, vinnslugrunninn, og þar áttu þær að vera dulkóðaðar. Einhverra hluta vegna virðist sem einhverjum finnist óhagræði að þessu og þá er gripið til þess að breyta þessu. Ég skildi ekki mikilvægi þessarar breytingar þegar hún kom fyrir mín augu. En ég skil hana núna. Ég held að þetta hljóti að gjörbreyta gangi umræðunnar um persónuverndina í þessu frv.

Mig langar, herra forseti, líka að fara nokkrum orðum um ýmis smærri atriði sem nefndin ræddi og ég tel nauðsynlegt að komi fram hvaða afstöðu nefndin og a.m.k. við í minni hlutanum höfðum til þeirra. Rætt var talsvert um meðferð og eðli upplýsinga og hvaða upplýsingar eigi að fara í gagnagrunninn og hverjar ekki og í hvaða tilgangi mætti vinna með þær. Athyglisvert var að það voru fá atriði sem jafnmargir gerðu athugasemdir við. Þar á meðal nefni ég læknaráð Landspítalans og Lagastofnun, tölvunefnd, siðaráð, landlækni, Sjúkrahús Reykjavíkur, meirihlutaálit læknadeildar háskólans, Félag ísl. hjúkrunarfræðinga, Krabbameinsfélag Íslands og marga fleiri. Lagastofnun segir raunar skilmerkilega í áliti sínu að með tilliti til öryggismálanna væri æskilegt að afmarka nánar bæði eðli og umfang upplýsinganna sem fyrirhugað er að færa í gagnagrunninn, til þess að sá sem á að hafa eftirlit með því geti metið hvort öryggisráðstafanirnar séu nægilega tryggar.

[16:15]

Við veltum því talsvert fyrir okkur í nefndinni að breyta þessu einhvern veginn en komumst að þeirri niðurstöðu að það væri giska erfitt að afmarka nákvæmlega hvaða upplýsingar ættu að fara í grunninn og hvaða ekki. Við í minni hlutanum komumst líka að þeirri niðurstöðu að óráðlegt væri að gera það, m.a. af þeirri ástæðu að þegar hinum staðbundnu gagnagrunnum verður komið upp sem eiga að vera fæturnir undir hinum miðlæga gagnagrunni, þá hlýtur það að ráðast nokkuð af þörfum þeirra sem eiga að nota hina staðbundnu grunna, þ.e. vísindamanna, lækna og heilbrigðisstarfsmanna á viðkomandi stofnunum hvaða upplýsingaflokkar verði valdir til þess. Þess vegna leggjum við til að sett verði inn í lögin að sérfræðingar í tilteknum sjúkdómaflokkum og stofnunum verði hafðir með í ráðum þegar kemur að því að taka ákvörðun um það hvers konar upplýsingum eigi að miðla þarna inn. Ég er viss um að það hefði verið æskilegra ef hægt hefði verið að hnitmiða nákvæmlega hvaða upplýsingar þetta ættu að vera. En það var athyglisvert að af öllum þeim fjölda sem gerði athugasemd við þetta þá kom í rauninni hvergi konkret tillaga fram. Ég viðurkenni að ég gafst upp við það. Ég braut heilann mikið um þetta en ég komst ekki að neinni niðurstöðu sem mér fannst boðleg.

Ég ræddi áðan um aðgengi upplýsinga. Það kom fram í umræðum í nefndinni og var einhugur um það að aðgengishindranir væru nauðsynlegar og það þyrfti að efla vægi þeirra. Ég vænti þess að það mundi e.t.v. koma fram í nefndaráliti meiri hlutans hvers konar aðgangshindranir voru nefndar, en hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi það ekki svo að ég heyrði a.m.k. Ástæðan fyrir því að ég er þeirrar skoðunar að það sé rangt, eins og sumir lögðu til í umsögnum, að setja skýr ákvæði um aðgengishindranir að gagnagrunni byggist á því að tækniþróunin í þessum greinum er það ör að nýjar aðferðir sem tengjast aðgangshindrunum hljóta að koma fram, og fyrr en seinna. Þess vegna var það skilningur minn að það væri samdóma álit allra í nefndinni að sett yrði í vald tölvunefndar að ákveða hvers konar aðgangshindranir yrðu með tíð og tíma settar. Menn vorum hins vegar sammála um þar að hindranir sem ætti að beita á þessu stigi væru atriði eins og t.d. stærð hópa. Menn töluðu um að aldrei yrði leitað eftir upplýsingum um minni hóp en tíu einstaklinga og þetta er reyndar eina atriðið sem er nefnt í greinargerð. Menn ræddu sérstaklega um að banna raðspurningar sem gera það að verkum að hægt er að einangra smærri hóp en jafnvel tíu einstaklinga. Sömuleiðis var talað um að rúnna af ártöl. Menn nefndu þann möguleika að gögn yrðu aðgreind í grunninum og það var sérstaklega lögð áhersla á það, a.m.k. af minni hálfu, að rekjanleiki allra fyrirspurna yrði tryggður.

Ég tel líka rétt að geta þess til að halda öllu til haga að eitt athyglisvert atriði kom til umræðu sem má segja að tengist persónuvernd. Sú ábending kom frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur að nauðsynlegt væri að kveða á um hvernig bæri að fara með fyrirspurnir til miðlægs gagnagrunns sem kynnu að persónugreina einstaka heilbrigðisstarfsmenn. Það sem hér er átt við er sú staðreynd að í krafti grunnsins er t.d. hægt að sjá hvaða læknar ávísa miklu meira af tilteknum lyfjum en aðrir læknar og vafalaust er líka hægt að finna þá lækna þarna sem kynni að vera hættara við mistökum en öðrum.

Ég er ekki þeirrar skoðunar, og það kom engin rödd fram innan heilbr.- og trn. um það, að með einhverjum hætti ætti að draga úr þessum möguleika vegna þess að það er ljóslega í þágu neytenda að upplýsingar af þessu tagi komi fram. Í því felst vernd fyrir sjúklinga. En auðvitað ber að draga það fram að innan landlæknisembættisins eru reglur um það hvernig eigi að taka á málum eins og þessum.

Í mjög mörgum umsögnum kom fram ótti vísindamanna um að samþykkt frv. um miðlægan gagnagrunn mundi skerða möguleika þeirra til sjálfstæðra rannsókna t.d. á grunni frumgagna úr sjúkraskrám og dreifðum gagnagrunnum. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir lýsti hérna, að því er mér fannst, skýrum skilningi meiri hlutans á því sem mér fannst reyndar ganga þvert á þann skilning sem hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir las upp úr ummælum tiltekins starfsmanns heilbrrn., hér fyrr í dag. Við hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir viljum taka fram okkar skoðanir á þessu vegna þess að við skoðuðum sérstaklega hvaða áhrif samþykkt frv. hefði á svigrúm vísindamanna til að nýta sér slíkar heilsufarsupplýsingar og ég held að innan heilbrn. hafi verið algjör samstaða um eftirfarandi skilning:

Vísindamenn munu hafa óbreyttan aðgang að frumupplýsingum sjúkraskráa. Þeir munu sömuleiðis hafa fullan aðgang að dreifðum gagnagrunnum sem verða til á heilbrigðisstofnunum í krafti laganna svo fremi sem uppfyllt séu gildandi lög um meðferð persónuupplýsinga. Ég held líka að enginn hafi mælt því í gegn að það sé ljóst að rekstrarleyfishafi miðlægs gagnagrunns geti engin áhrif haft á samtengingar eða samkeyrslur upplýsinga úr slíkum grunnum, enda lúti þá meðferð gagna sem er beitt við slíkar rannsóknir þeim sömu lögum sem ég nefndi áðan.

Hv. þm. Ágúst Einarsson varpaði áðan fram spurningu til hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur um einmitt réttinn til þess að setja fram kröfu um að ef einstaklingur ákveður að hætta þátttöku í miðlægum gagnagrunni þá geti hann jafnframt krafist þess að öllum upplýsingum um hann verði eytt. Mér finnst að það þurfi býsna góð rök til þess að verja það að gengið sé með þessum hætti á rétt þess sem ákveður að draga sig út. Ég þekki ekki til rannsókna þar sem þessi réttur er ekki virtur. Ég held að það sé forsenda allra rannsókna sem eintaklingar taka þátt í, hvers eðlis sem þær eru, að þeir hafa rétt til þess að draga sig út úr rannsókninni og hætta þátttöku hvenær sem er. Ef einhver hefur ákveðið að draga sig út úr miðlægum gagnagrunni og vill þar af leiðandi hætta algjörlega þátttöku sinni, þá verður hann að hafa réttinn til þess að hafna því að upplýsingar um hann verði áfram staðsettar í grunninum og þá skiptir mig engu máli hvort þær eru persónugreindar eða ópersónugreindar. Þetta finnst mér vera partur af grundvallarmannréttindum viðkomandi sjúklings. Við getum velt upp því dæmi að starfsemi miðlægs gagnagrunns þróist þannig að með réttu eða röngu telji einhver sjúklingur að þróun grunnsins skaði hagsmuni hans eða þess sjúklingahóps sem hann tilheyrir. Þá er það heimsins eðlilegasti hlutur að viðkomandi sjúklingur vilji draga sig út úr grunninum. Það er hins vegar ekki leyft samkvæmt frv. Við hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir berum fram brtt. við þessu. Það er vert að geta þess að einu upplýsingarnar sem við höfum fengið um af hverju þetta stafar eru þær að þá yrði gagnagrunnurinn svo gloppóttur. Með öðrum orðum, það er algerlega skýrt að sú afstaða byggir því bara á einu. Það er verið að taka viðskiptalega hagsmuni rekstrarleyfishafa hins miðlæga gagnagrunns fram yfir það sem ég lít á sem grundvallarhlut af rétti sjúklings. Það er auðvitað ansi hart þegar málið er komið út á svo hálan ís að menn beinlínis taki afstöðu með þessu vitandi vits um að þeir eru að troða á rétti sjúklingsins til þess að lyft upp rétti þess sem ætlar að græða peninga á upplýsingum um sjúklinginn. Ég held að það sé á skjön við allar þær reglur sem menn hafa um þessi efni.

Ég vil líka geta þess, herra forseti, að verulegar umræður fóru fram um 10. lið 5. gr. frv. en hann hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Rekstrarleyfishafi skal tryggja að þegar leyfistíma lýkur fái heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, eða sá sem ráðherra felur starfrækslu gagnagrunnsins, ótímabundin afnot af öllum hugbúnaði og réttindum sem nauðsynleg eru til viðhalds og starfrækslu gagnagrunnsins.``

Þetta atriði þýðir samkvæmt útskýringum í greinargerð og frekari útskýringum heilbrrn. að þegar rekstrarleyfi er gefið út þá þarf sá sem fær leyfið að afsala sér fyrir fram til heilbrrn. öllum réttindum yfir gagnagrunninum sem hann kann að afla sér á sviði höfundarréttar, á sviði samningsréttar og á sviði þess réttar sem honum aflast með tilskipun um lögverndun gagnagrunna. Þetta ákvæði laganna felur það í sér að hann verði að láta þetta allt af hendi þegar einkaréttartímanum sem gert er ráð fyrir í frv. sleppir, án nokkurs endurgjalds. Meira að segja ég sem er á móti einkaréttinum velti því fyrir mér hvort þetta standist, hvort hér sé ekki ranglega að hinum tilvonandi rekstrarleyfishafa vegið. Ég átti því frumkvæði að því að nokkur umræða fór fram um þetta mál í nefndinni.

Það liggur fyrir að fjórir virtir lögfræðingar, þar af tveir prófessorar, allir sérfræðingar á þeim sviðum sem ég rakti áðan, telja að svo fremi sem rekstrarleyfishafinn viti nákvæmlega að hann er að ganga að þessum afarkostum, eins og ég kalla þetta, þá sé þetta heimilt. Þá getur ráðuneytið eftir 12 ár tekið grunninn til baka og gert við hann það sem því lystir. Aldrei kom sú hugmynd upp í nefndinni sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir reifaði hérna áðan að eðlilegt væri þegar 12 ára einkaréttartíma sleppi að sá sem fengi rekstrarleyfið í upphafi mundi halda því áfram. Sú umræða kom ekki einu sinni upp í nefndinni, aldrei. Það er vert að það komi fram hérna vegna þess að það liggur fyrir af hálfu ráðuneytisins hvað gerist eftir 12 ár. Það er svo einfalt mál.

Mig þykir líka nokkru skipta, herra forseti, að drepa á atriði sem kemur ekki beinlínis meginefni þessa frv. við, þ.e. heilsufarsupplýsingum. Athugasemdir komu frá Samtökum iðnaðarins og Samtökum hugbúnaðarframleiðenda. Það kemur fram í hluta greinargerðar að kostnaðarmat sem Stefán Ingólfsson hefur gert upplýsir að allt að tveir milljarðar munu fara í gerð á nýjum hugbúnaði. Nú vitum við að íslensk hugbúnaðargerð er ört vaxandi iðnaður sem náði því að flytja út á síðasta ári fyrir fast að tveimur milljörðum kr. Það kom fram mikill ótti hjá þessum samtökum um að auk einkaréttar á nýtingu heilsufarsupplýsinga þá gerði þetta frv. í raun rekstrarleyfishafanum kleift að ná ofurtökum á hugbúnaðargerð og ná einokun á gerð og þróun slíks búnaðar fyrir heilbrigðiskerfið. Það var alveg ljóst að nefndin hafði fullan skilning á þessum viðhorfum. Hún taldi ekki þörf á því að verða við ábendingum þessara tveggja aðila um að setja sérstakt ákvæði um þetta í frv. en hún var sammála þeim skilningi að það væri ljóst að gerð hugbúnaðar í tengslum við staðbundna gagnagrunna á heilbrigðisstofnunum væri algerlega í höndum hins opinbera en væri ekki að neinu leyti á forræði rekstrarleyfishafa þó hún væri kostuð af honum og þess vegna bæri við kaup á slíkum búnaði að fylgja almennum reglum hins opinbera hvort sem það eru útboð eða þá eftir atvikum samningar við einstök fyrirtæki. Þróun nýrra hugbúnaðarkerfa innan heilbrigðisgeirans þó hún væri kostuð af rekstrarleyfishafanum verður því unnin á frjálsum markaði.

Herra forseti. Ég vil aðeins nefna, áður en ég lýk við þennan hluta yfirferðar minnar um einstök atriði sem nefndin fjallaði sérstaklega um eða var bent sérstaklega á í umsögnum, að í áliti Lagastofnunar segir, að án tillits til þess hvort gagnagrunninn sé útboðsskyldur þá sé eðlilegt að kynna þeim sem gætu verið áhugasamir um gerð miðlægs gagnagrunns áform ríkisstjórnarinnar á því sviði áður en rekstrarleyfishafinn er valinn.

Eftir að hafa vísað í almennar grundvallarreglur í stjórnsýslunni og síðan 65. gr. stjórnarskrárinnar, þá segir orðrétt í áliti Lagastofnunar á bls. 80, með leyfi forseta:

,,Þessar reglur leiða til þess, án tillits til skyldu til að bjóða verkið út samkvæmt lögum um opinber innkaup, að eðlilegt verður að telja að þeim sem kynnu að vilja standa að gerð og starfrækslu gagnagrunns af því tagi sem hér um ræðir, verði gefið tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og að fram fari val á milli þeirra á grundvelli faglegra og málefnalegra sjónarmiða.``

[16:30]

Herra forseti. Þetta eru athyglisverð ummæli í ljósi þess sem hæstv. forsrh. hefur sagt. Hann hefur opinberlega lýst því yfir að hvað sem tautar og raular þá eigi einkaleyfið að fara í hendur tiltekins fyrirtækis. Í ljósi ótvíræðra ummæla Lagastofnunar verður varla komist hjá því að álykta að með yfirlýsingum sínum hafi hæstv. forsrh. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar áformað að fara a.m.k. út fyrir þau mörk sem Lagastofnun telur að 65. gr. stjórnarskrárinnar og almennar grundvallarreglur í stjórnsýslunni heimila. Rétt er að hér komi fram að ég mundi ætla í ljósi þessa viðhorfs Lagastofnunar Háskólans, fari svo að tillögur okkar í minni hlutanum um að fella brott ákvæði um einkarétt nái ekki fram að ganga, að við legðum til sérstakt bráðabirgðaákvæði fyrir 3. umr. um að kynna beri fyrirhugaða gerð gagnagrunnsins svo þeim sem á honum hafa áhuga gefist tóm og kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Það er eitt af því sem Lagastofnun segir í samræmi við almennar grundvallarreglur stjórnsýslunnar og stjórnarskrána líka. Ég held að ekki sé vanþörf á, herra forseti, að geta þessa hér eftir þau ummæli sem sérstaklega hæstv. forsrh. hefur látið eftir sér hafa.

Við hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir styðjum margar af brtt. meiri hlutans. Ég hef lýst andstöðu minni við tilteknar brtt., m.a. eina sem kom fram á næstsíðasta degi vinnunnar. Ég skildi ekki hve mikla grundvallarþýðingu hún hafði fyrr en núna um helgina. Ég hef lýst afstöðu minni til þess og einnig til þeirrar breytingar sem meiri hlutinn vill gera á greininni um aðgengi vísindamanna. Ég hef lýst þeirri skoðun minni, eins og ég fer ítarlega yfir síðar í ræðu minni, að þar er um að ræða tillögur sem ganga ekki upp. Fjórum tillögum viljum við vekja sérstaka athygli á vegna þess að við teljum að þær séu til bóta.

Við 4. gr. er bætt við ákvæði um að ráðherra fái heimild til að semja við rekstrarleyfishafa um sérstakar greiðslur í ríkissjóð, sem ber að líta á sem endurgjald fyrir einkaréttinn til þess að nýta heilsufarsupplýsingar úr sjúkraskrám. Með tilliti til þess að í umfjöllun nefndarinnar og við umræður hér hefur komið fram að meiri hlutinn leggst alfarið gegn því að einkarétturinn verði numinn brott úr frv. þá teljum við mikilvægt að ákvæði um gjaldtöku sé í frv. Komi til slíks gjalds er mikilvægt fyrir heilbrigðisstéttirnar sem afla þessara upplýsinga að féð renni til rannsókna, þróunar og eflingar heilbrigðiskerfisins.

Við 5. gr. er jafnframt bætt ákvæði um að rekstur gagnagrunnsins verði fjárhagslega aðskilinn frá öðrum samkeppnisrekstri rekstrarleyfishafa. Sú breyting kann að láta lítið yfir sér en við lítum á þetta sem afar mikilvæga breytingu. Hún er í samræmi við fyrri úrskurði Samkeppnisstofnunar og við teljum hana verulega til bóta.

Við 12. gr. er bætt ákvæði um þverfaglega siðanefnd. Siðanefndin á að meta allar fyrirspurnir og rannsóknir sem gerðar eru í krafti gagnagrunnsins. Þessi þverfaglega siðanefnd er grunnur afstöðu minnar til þess hvaða ferli eigi að sætta sig við varðandi samþykki. Það skiptir máli að einu gildir hvort um er að ræða rannsóknir á vegum rekstrarleyfishafans, fyrirtækis á hans vegum eða annarra óskyldra fyrirtækja eða vísindamanna. Áður en rannsóknirnar eru unnar eða fyrirspurnum svarað þá verður mat nefndarinnar að hafa leitt í ljós að engir siðferðilegir eða vísindalegir annmarkar mæli gegn viðkomandi rannsókn. Þetta skiptir höfuðmáli fyrir þá sem eiga upplýsingar í grunninum. Í þessu felst mikilvæg trygging fyrir því að rannsóknirnar verði ekki misnotaðar, viljandi eða óviljandi af hálfu þess sem gerir þær, til þess að skaða hópa eða einstaklinga.

Vert er að geta þess, herra forseti, að á heilbrigðisstofnunum eru við lýði svokallaðar innanhússnefndir sem eru, að því er ég best veit, að mestu skipaðar starfsmönnum viðkomandi stofnana og skipaðar af stofnununum að öllu leyti. Þær eru, eins og heitið segir til um, innanhússnefndir. Í nefndinni var rætt hvort fara ætti þessa leið, hvort nægilegt væri að setja upp innanhússnefnd. Nefndin komst sameiginlega að þeirri niðurstöðu að ganga lengra og leggja til þverfaglega siðanefnd sem ráðherra mundi skipa. Það er augljóslega ekki innanhússnefnd. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra hafi bein í fótleggjunum til þess að standa gegn kröfum um að nefnd þessi verði, þegar upp er staðið, skipuð þannig að hægt sé að kalla hana innanhússnefnd. Það ríður auðvitað á miklu að þarna séu fulltrúar utan fyrirtækisins, fulltrúar frá landlækni eða frá Siðfræðistofnun háskólans svo einhverjir þeirra er til greina koma séu nefndir. Í sjálfu sér skiptir mig ekki máli hverjir sitja í þessari nefnd, aðalatriðið er að þetta verði ekki innanhússnefnd. Nefndin á að vera þverfagleg og á að leggja vísindasiðfræðilegt mat á allar rannsóknir sem gerðar eru í krafti grunnsins. Fyrir mér er það lykilatriði í persónuverndinni.

Jafnframt, herra forseti, er lögð fram breyting á 10. gr. varðandi meðferð ættfræðiupplýsinga og hvernig samkeyra megi gagnagrunn á heilbrigðissviði við aðra gagnagrunna. Margir, m.a. landlæknir, Lagastofnun Háskóla Íslands og tölvunefnd, töldu nauðsynlegt að kveða skýrar á um meðferð ættfræðiupplýsinga og hvernig samkeyra ætti þær við gagnagrunninn. Margir umsagnaraðila töldu nauðsynlegt að setja skýr fyrirmæli um hvaða aðrar upplýsingar mætti samkeyra við miðlægan gagnagrunn. Við í minni hlutanum töldum að einhugur ríkti um að breyta frv. þannig að rekstrarleyfishafinn mætti einungis samkeyra ættfræðiupplýsingar við miðlægan gagnagrunn eftir sérstöku vinnuferli sem hlotið hefði samþykki tölvunefndar. Í sömu breytingartillögum felast skýr fyrirmæli um að með allar samkeyrslur við upplýsingar sem ekki koma úr sjúkraskrám, þ.e. upplýsingar eða gagnagrunna óskylda hinum miðlæga gagnagrunni, skuli fara samkvæmt lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga.

Hvað merkja þessar breytingar, herra forseti? Þær merkja tvennt. Heimilt verður að samkeyra ættfræðigrunninn við gagnagrunn á heilbrigðissviði eftir sérstökum reglum sem tölvunefnd hefur lagt blessun sína yfir. Í því sambandi er auðvitað mikilvægt að undirstrika enn og aftur að hlutverk tölvunefndar er víkkað verulega frá þeim lögum sem um hana gilda í dag. Henni er gert að hafa rækilegt eftirlit með öllum vinnslustigum upplýsinga í miðlæga grunninum. Þannig mun tölvunefnd þar að auki hafa eftirlit með því hvernig samtengingu miðlæga grunnsins við ættfræðigrunninn er háttað í hinum daglega rekstri. Samkvæmt þessu er ljóst að engar aðrar samkeyrslur við miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði eru heimilaðar nema þær uppfylli skilyrði gildandi laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Í því felst og að tölvunefnd þarf að samþykkja slíkar samkeyrslur.

Í tengslum við þetta má benda á annað mikilvægt atriði í meðferð ættfræðiupplýsinga. Af máli margra sem komu til fundar við nefndina og af mörgum umsögnum, þar á meðal Lagastofnunar, var augljóst að sá skilningur var útbreiddur að ættfræðiupplýsingar yrðu hluti af miðlægum gagnagrunni á heilbrigðissviði. Í dag skýtur þessi skilningur allt í einu upp kolli í nál. meiri hlutans. Ég minnist þess ekki að það hafi verið niðurstaða í heilbr.- og trn. Þetta er breyting sem kemur inn eftir á og ég veit ekki hvaðan hún er ættuð.

Sömuleiðis er nauðsynlegt að geta þess að við ræddum breytingar á 7. gr. Skilningur okkar í minni hlutanum, þegar við stóðum upp frá þeirri vinnu, var að a.m.k. hefði orðið samstaða um að mikilvægt orð, þ.e. ,,aðrar`` upplýsingar, sem inn kom að ósk eins þingmanns meiri hlutans, yrði ekki þar inni. Við lögðum þann skilning í hina endanlegu gerð. Þetta eina orð virðist kannski ekki skipta miklu en það gjörbreytir eðli frumvarpsins. Ef það verður samþykkt þá fellir það fyrri fyrirvara sem finna má bæði í frv. sjálfu og líka ótvírætt í grg., um að engar upplýsingar megi flytja í miðlægan gagnagrunn nema þær komi úr sjúkraskrám. Þetta er ítrekað í grg., getur ekki verið skýrara. Á síðustu stigum vinnunnar kemur meiri hlutinn og gjörbreytir með einu orði eðli gagnagrunnsins. Hvað þýðir ,,aðrar`` upplýsingar? Á þá kannski að fara gegn því sem frv. segir annars staðar, að taka inn upplýsingar um arfgerð sem unnar eru með upplýstu samþykki? Ef um það er að ræða, herra forseti, er best að hafa sem fæst orð um það en þessi vinnubrögð eru vægast sagt ekki til fyrirmyndar. Þetta eina orð skiptir höfuðmáli í þessu sambandi.

Herra forseti. Misskilningurinn sem víða kom fram, m.a. hjá Lagastofnun, þ.e. að ættfræðiupplýsingar væru hluti af miðlægum gagnagrunni, á rót sína að rekja til þess að í tilmælum Evrópuráðsins um vernd heilsufarsupplýsinga gætu fjölskyldugögn, sem á tungu Engilsaxa heita ,,family data``, talist erfðafræðilegar upplýsingar. Erfðafræðilegar upplýsingar, samkvæmt skilgreiningum frv. sem hér liggur fyrir, eru skilgreindar sem heilsufarsupplýsingar. Ég fæ ekki betur séð en að a.m.k. í áliti Lagastofnunar sé álitið að orðin ,,family data`` feli í sér ættfræðiupplýsingar þó að í fyrrnefndum tilmælum Evrópuráðsins bendi ekkert til þess að svo sé.

Ég taldi hins vegar, eins og ég skýrði áðan, að í meðferð okkar í heilbr.- og trn. hefði komið skýrt fram að nefndin liti svo á að ættfræðiupplýsingar væru ekki hluti af miðlægum gagnagrunni. Þess vegna var minni hlutinn sammála meiri hlutanum um að segja fyrir um ákveðið verklag við að samkeyra ættfræðigrunninn við heilbrigðisgrunninn. Þetta var skilningur minn. Ég taldi það sameiginlegan skilning okkar að ættfræðiupplýsingar væru staðsettar í öðrum sérstökum grunni sem, eins og nefndin leggur til, aðeins yrði samkeyrður við gagnagrunn á heilbrigðissviði eftir reglum sem ég hef áður reifað.

Herra forseti. Til þess að staðfesta þennan skilning frekar vil ég upplýsa að í nefndinni kom fram tillaga um að skjóta orðinu ,,ættfræðiupplýsingar`` á bak við hið breytta ákvæði um skilgreiningu á erfðafræðiupplýsingum. Fram kom tillaga um að setja inn orðið ,,ættfræðiupplýsingar``. Nefndin tók það út. Ég tel mig ekki fara með rangt mál þegar ég held því fram að nefndin hafi verið samhljóða um að ættfræðiupplýsingar væru ekki þarna inni. Sá skilningur er hins vegar orðinn allt öðruvísi í nál. sem birtist hér í dag og vekur vægast sagt furðu mína. Af því tilefni, herra forseti, tel ég ljóst í hvað stefnir. Ætli þetta verði eina breytingin sem gerð verður? Hvað fylgir þá hér á eftir? Hvernig bar að túlka orð hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur um erfðagögnin sem hún talaði m.a. um?

Ég tel nauðsynlegt, herra forseti, að fjalla aðeins um meðferð erfðagagna til að taka allan vafa af um það hver sé hinn leyfilegi skilningur samkvæmt allri umræðu og þeim grundvelli sem heilbrrn. og hæstv. heilbrrh. hefur gengið út frá. Kallað hefur verið eftir umræðu um málið, kallað eftir umræðu í vísindasamfélaginu og lagður fram ákveðinn grunnur. Sá grunnur er þetta frv. og upplýsingarnar sem birtast í grg. Ef fara á að breyta því í einhverjum meginatriðum þá hefur meiri hlutinn og stjórnarliðið blekkt vísindasamfélagið. Ég fæ ekki betur séð en menn hafi gert áhlaup til að breyta verulega þeirri meðferð erfðaupplýsinga sem liggur skýr fyrir í frv.

[16:45]

Ég vek athygli á því, herra forseti, að í áliti Lagastofnunar er ákveðinn misskilningur í gangi og það kann auðvitað að vera að hv. félagar mínir í meiri hlutanum í heilbr.- og trn. hafi smitast af þeim misskilningi. Í áliti Lagastofnunar á bls. 33 eru leiddar líkur að því mögulega sé ástæða til þess að skilgreina nánar hvers konar erfðafræðilegum upplýsingum er heimilt að safna án upplýsts samþykkis og takmarka með einhverjum hætti. Um þetta er einmitt fjallað í 1. mgr. 7. gr. frv. sem er eitt af lykilákvæðum frv. Þar segir:

,,Að fengnu samþykki heilbrigðisstofnana eða sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna er rekstrarleyfishafa heimilt að fá upplýsingar, sem unnar eru úr sjúkraskrám, til flutnings í gagnagrunn á heilbrigðissviði.``

Hv. þingmenn. Þetta kann í fljótu bragði að virka frekar loðið og það kann vel að vera að í þessu felist --- ef hv. þm. Sólveig Pétursdóttir mætti vera að því að leyfa mér að tala hérna en hætta fundum sínum við varaformann heilbr.- og trn. yrði ég glaður. --- Herra forseti. Þarna er um lykilatriði að ræða en það er auðvitað eftirtektarvert eins og ég var að reyna að segja hérna áðan að samkvæmt orðanna hljóðan í þessari frumvarpsgrein mætti við fyrstu sýn e.t.v. skilja hana þannig að fleira en einungis upplýsingar í sjúkraskrám mætti flytja í gagnagrunn á heilbrigðissviði eins og meiri hlutinn er að reyna að smygla inn í þetta mál núna á síðustu metrum málsins. Það er alveg ljóst hver er skilningur hæstv. heilbrrh. og heilbrrn. eins og hann liggur fyrir þegar frv. var lagt fram til umræðu vegna þess að athugasemdir greinargerðar við þessa mgr. 7. gr. taka af allan vafa og þar segir, með leyfi forseta, og hlustið nú hv. þm. og varaformaður heilbr.- og trn.:

,,Rétt er að taka fram að heimild rekstrarleyfishafa skv. 1. mgr. til flutnings upplýsinga í gagnagrunn á heilbrigðissviði tekur einungis til upplýsinga úr sjúkraskrám heilbrigðisstofnana og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna.``

Þetta getur ekki orðið skýrara, herra forseti, og ég varð aldrei var við að neinn ágreiningur yrði um þennan skilning í heilbr.- og trn. þegar hinar erfðafræðilegu upplýsingar voru ræddar. Mikilvægt er að halda því til haga hér og ábending Lagastofnunar byggist þess vegna á misskilningi.

Herra forseti. Þetta þýðir það eitt að t.d. þær erfðafræðilegu upplýsingar sem rekstrarleyfishafinn kann að safna á grundvelli upplýsts samþykkis og hefur nú eins og ég hef þegar sagt aflað samþykkis 70 þúsund Íslendinga, búinn að fá sýni úr 10 þúsund, hann getur ekki flutt upplýsingarnar sem hann vinnur með þannig inn í hinn miðlæga gagnagrunn. Það getur ekkert verið skýrara, herra forseti. Þær verða að fara í annan grunn. Því til staðfestu vil ég vísa í annan stað í greinargerð ráðuneytisins til þess að skýra hver skilningur ráðuneytisins var þegar hann lagði málið til umræðu fyrir þjóðina. Þar segir í álitsgerð sem birt er í greinargerðinni undir heitinu Minnisblað um feril heilsufarsupplýsinga frá heilbrigðisstofnun um miðlægan gagnagrunn, á bls. 68:

,,Til að auka öryggi og torvelda samtengingu einstaklingsauðkenndra ónafngreindra gagna verði öðrum gagnasöfnum, t.d. um ættfræði og erfðaupplýsingar, haldið aðskildum frá heilsufarsgagnasafninu.``

Þess ber einnig að geta, herra forseti, til að undirstrika vægi þeirra fyrirmæla sem hér liggja fyrir að í greinargerð með frv. er tekið skýrt fram að verndin sem á að felast í öllu systeminu á aldrei að vera minni en sú sem kemur fram í þessu minnisblaði. Þess vegna vil ég árétta að hinn upphaflegi skilningur hæstv. heilbrrh., þegar hún lagði málið til opinnar umræðu til þjóðarinnar um þetta grundvallaratriði, meðferð erfðaupplýsinga, var sá að erfðaupplýsingarnar sem koma annars staðar frá en úr sjúkraskrám verða að vera í aðskildum grunni og þær verða aldrei samkeyrðar við miðlægan gagnagrunn nema með sérstöku leyfi tölvunefndar, þ.e. nema þær uppfylli nákvæmlega þau lög sem gilda og allur vafi er tekinn af um þetta atriði vegna þess að í athugasemdum greinargerðar með 2. mgr. 7. gr. segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Um aðgang að öðrum persónuupplýsingum en úr sjúkraskrám heilbrigðisstofnana og heilbrigðisstarfsmanna og samtengingu þeirra við heilbrigðisupplýsingar í gagnagrunninum fer samkvæmt lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga.``

Þessi lög, herra forseti, kveða einfaldlega skýrt á um það að upplýsingar á borð við erfðafræðiupplýsingar sem eru fengnar með upplýstu samþykki verða ekki keyrðar saman við hinn miðlæga gagnagrunn nema tölvunefnd leyfi það.

Ég heyrði ekki betur en hv. þm. Siv Friðleifsdóttir væri að búa sig undir að breyta því og að hún segði í ræðu sinni: ,,Hvers vegna ekki að setja upp eitthvert sérstakt vinnuráð?`` Til hvers? Til þess að láta okkur standa frammi fyrir því að grundvöllur umræðunnar sem meiri hlutinn hefur lagt fram og sem þjóðin öll hefur verið að taka þátt í síðustu missiri var bara plat? Mikilvægum atriðum, tveimur jafnvel þremur er breytt á síðustu metrunum rétt áður en málið er að renna gegnum þingið.

Herra forseti. Svona atriði hefði auðvitað mátt íhuga ef það hefði komið fram á fyrstu stigum málsins og mönnum hefði gefist tóm til að ræða það og kanna kosti og galla. En að leyfa sér þá ósvinnu að ýja að því að svona mikilvægum atriðum í frv. eigi að breyta milli 2. og 3. umr., vegna þess að það var það sem ég las út úr þessum orðum hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, það nær auðvitað ekki nokkurri átt. Ég segi auðvitað fullum fetum að ef það er gert hefur stjórnarliðið verið að blekkja þjóðina, þá hefur stjórnarliðið verið að kalla fram umræðu sem hefur verið háð á röngum forsendum vegna þess að fyrir liggur að þetta eru burðarstoðir í frv. sem hv. þm., sem talaði fyrir munn meiri hlutans, er að gefa til kynna að eigi að breyta. Það er náttúrlega ekki þolandi þegar mál er svona viðkvæmt og svona erfitt, að þá gerist þetta og ég dreg enga dul á það, herra forseti, að afstaða mín gagnvart þessu frv. hefur harðnað að mun út af þessum vinnubrögðum.

Bara til áréttingar því sem ég hef verið að rekja um erfðagögnin og meðferð þeirra þá vil ég líka segja að fyrir utan það hvernig skýrlega er mælt fyrir um það í minnisblaðinu frá Stika ehf. þá er líka rétt að velta því upp að þessi aðskilnaður erfðagagna, sem er ekki úr sjúkraskrám, er líka í ströngu samræmi við ályktun ráðherranefndar Evrópuráðsins frá 1992 um erfðapróf og erfðaskimun en þar segir í 10. meginreglu að erfðagögn skuli geyma aðskilið frá öðrum persónugögnum. Það segir orðrétt til þess að halda öllu til haga, með leyfi forseta:

,,Erfðagögn sem safnað er í heilbrigðisskyni skal eins og öll önnur læknisfræðileg gögn geyma aðskilin frá öðrum persónulegum gögnum.``

Hérna er, herra forseti, að mínu viti um lykilatriði að ræða og allar óskir sem kynnu að koma fram um að breyta því eru meginbreytingar á frv. (Gripið fram í.) Til hamingju með þetta fallega hljóð, hv. þm. Það lífgar örlítið og hvetur mig til dáða til þess að berjast gegn ykkur í þessu vonda máli sem þið eruð að breyta hérna þegar enginn átti sér ills von. En ég segi það, herra forseti, þetta eru meginbreytingar og ekki er hægt að fallast á þau vinnubrögð að meiri hlutinn ætli að koma hér þegar umræðan er svo að segja búin í þjóðfélaginu og boða einhverjar meiri háttar breytingar sem varða burðarstoðir í þessu frv.

Herra forseti. Ég og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir leggjum fram nokkrar brtt. á sérstöku þingskjali. Ég ætla í örfáum orðum að reifa þær. Hinar mikilvægustu varða það að þær loðnu heimildir til einkaréttar sem er að finna í gagnagrunninum verði allar felldar brott. Þetta er auðvitað meginatriði og ég lýsi því yfir að ef meiri hlutinn verður reiðubúinn til þess að velta því fyrir sér og breyta aðgengi vísindamanna er ég reiðubúinn að styðja þetta frv. (SF: Ha. Viltu segja þetta aftur?) Ég er að segja það að ef meiri hlutinn væri reiðubúinn til þess að samþykkja brtt. okkar sem miða að því að draga út heimildina til einkaréttar og til þess að fallast á tillögur okkar um aðgengi vísindamanna er ég reiðubúinn til þess að styðja þetta frv. Ég hef lýst skoðunum mínum á persónuverndinni. Ég nálgast það mál út frá allt öðrum forsendum en meiri hlutinn og ástæða mín til hins upplýsta samþykkis liggur líka fyrir. Ég tel sem sagt að ef hv. þm. Siv Friðleifsdóttir vildi beita sínu mikla afli til að fá félaga sína í meiri hlutanum til þess að falla frá einkaréttarákvæðunum sem eru langversti fingurbrjóturinn og vildi fallast á tillögur okkar um hvernig beri að heimila eða tryggja vísindamönnum aðgang að gagnagrunninum er ég reiðubúinn til þess að styðja þetta frv. ef það mætti verða til þess að létta hv. þingkonu lífið.

Þar fyrir utan, herra forseti, leggjum við til léttvæga brtt. en hún skiptir eigi að síður máli vegna þess að hún er í anda þess hvernig löggjafinn hefur tekið á málefnum barna á síðustu árum. Við leggjum til að eftir því sem kostur er, og gerum um það konkreta tillögu, skuli foreldrar hafa börn sín með í ráðum og alltaf ef þau eru 12 ára eða eldri. Það er nefnilega niðurlag 29. gr. sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir las upp úr lögum um réttindi sjúklinga en tapaði þessu niðurlagi sennilega af því að hún hefur ekki séð það. Við höfum jafnframt lagt fram tillögu eins og ég hef áður reifað að ef sjúklingur óskar að hætta þátttöku getur hann krafist eyðingar allra upplýsinga.

Við leggjum jafnframt til að sérstakt ákvæði komi til bráðabirgða þar sem lagt er til að frá gildistöku laganna og þangað til flutningur upplýsinga hefst í gagnagrunn á heilbrigðissviði skuli landlæknir standa fyrir rækilegri upplýsingaherferð til að kynna almenningi rétt hans til þess að synja þátttöku í miðlægum gagnagrunni. Við leggjum jafnframt til að undir liðnum Réttindi sjúklinga komi ný grein og af því að ég hef ekki þessa brtt. við höndina, þá verð ég að rifja það upp eftir slöku minni en í þeirri grein er lagt til að lagt verði bann við að misnota heilsufarsupplýsingar sem eru fluttar í miðlægan gagnagrunn eða unnar í krafti hans eða unnar í krafti rannsókna eða fyrirspurna sem eru gerðar fyrir tilstilli grunnsins og það megi nota þessar upplýsingar til þess að skaða eða mismuna einstaklingum eða hópum, svo sem á vinnumarkaði, tryggingamarkaði eða með öðrum hætti. Ef það er vissa meiri hlutans að það muni ekkert gerast og þessi grunnur sé allt í lagi út frá persónuverndarsjónarmiðunum, sem ég held að sé nokkuð til í, þá getur það varla verið álitamál að hv. þingmenn meiri hlutans hljóta að samþykkja þessa tillögu.

Sömuleiðis tel ég að nauðsynlegt sé, m.a. til þess að eyða ótta eða tortryggni sem óhjákvæmilega hefur orðið til frá því að frv. var svo flausturslega sett fram á sl. vori, að bæta við frv. og þess vegna leggjum við fram sérstaka tillögu um nýtt bráðabirgðaákvæði sem hljóðar svo:

,,Alþingi skal eigi síðar en árið 2000 samþykkja lög um erfðapróf og erfðaskimun þar sem m.a. er bönnuð hvers kyns mismunun í krafti upplýsinga um arfgerð.``

Herra forseti. Þetta eru lög sem menn eru í óða önn að setja annars staðar í heiminum og fyrir bandaríska þinginu liggja fyrir um það bil 60 lagafrumvörp sem öll lúta að þessu.

Herra forseti. Ég á þá eftir að reifa tvö atriði enn áður en ég lýk máli mínu. Það er í fyrsta lagi um aðgengi vísindamanna að hinum miðlæga gagnagrunni og það eru einkaréttarákvæðin og hvernig ég tel að þau brjóti gróflega í bága við ýmsar reglur EES. Ákvæðin um aðgengi vísindamanna á kostnaðarverði að hinum miðlæga gagnagrunni hafa verið gagnrýnd úr tveimur áttum. Vísindasamfélagið hefur harðlega gagnrýnt aðgengisákvæðin og Lagastofnun sömuleiðis á þeim grunni að þau brytu gegn samkeppnislögum og reglum EES. Gagnrýnin úr röðum vísindamanna á ákvæði frv. um aðgengi þeirra að gagnagrunninum var einkum tvenns konar eins og ég hef skilið hana. Í fyrsta lagi er gagnrýnt að einungis þeir sem leggja til upplýsingar í grunninn eigi samkvæmt frv. að öðlast rétt til að fá að nota hann til rannsókna og að mati þeirra fulltrúa úr vísindasamfélaginu sem hafa reifað þetta mál opinberlega í umsögnum eða á fundi heilbr.- og trn., brýtur þetta í bága við hinn siðferðilega grunn frjálsra rannsókna og ég og hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir, sem stendur með mér að þessu minnihlutaáliti, erum sammála þessu. Þar að auki benda vísindamenn á að það eiga ekki allir sem tengjast heilbrigðisgeiranum kost á að leggja upplýsingar inn í grunninn en gætu eigi að síður notað hann til rannsókna í þágu þjóðarinnar og til heilla fyrir hana. Ég nefni t.d. einhverja vísindamenn við Háskóla Íslands og vafalaust víðar.

[17:00]

Vafalaust er það rétt hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að líkast til gætu allir vísindamenn komið sér í samstarf við heilbrigðisstofnanir ef þeir hefðu áhuga á að komast í gagnagrunninn til að nota hann sem tæki. Það er líka gríðarleg andstaða í röðum vísindamanna við setu fulltrúa rekstrarleyfishafans í aðgengisnefndinni. Þar á fulltrúinn að gæta viðskiptahagsmuna þess fyrirtækis sem fer með rekstrarleyfið. Forsenda aðgengisins er enn skilgreind þannig af hálfu hv. þingmanna meiri hlutans að ekki megi heimila vísindamönnum rannsóknir í krafti miðlægs gagnagrunns sem gætu verið í beinni viðskiptalegri samkeppni, og ég hef skilið það svo, vísindalegri samkeppni einnig.

Vísindamenn hafa eðlilega bent á að þetta felur í sér mjög opna og nakta hættu á hugmyndastuldi. Við hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir teljum að ekki sé hægt að búa við slíkt umhverfi. Efnislega hefur Samkeppnisstofnun tekið undir þetta viðhorf eins og ég rek síðar. Við teljum að bæði af siðfræðilegum og samkeppnislegum ástæðum sé ekki hægt að samþykkja frv. með þessu ákvæði. Meiri hlutinn hefur eins og fram kom áðan verið þessu ósammála og hann heldur setu rekstrarleyfishafans í aðgengisnefndinni til streitu í brtt. sínum við frv. Hann hefur út af fyrir sig svarað gagnrýni vísindamanna með því að staðhæfa að léttvæg takmörkun á aðgangi þeirra að miðlægum gagnagrunni geti ekki kallast skerðing á rannsóknarfrelsi vegna þess að þeir höfðu engan aðgang að gagnagrunninum áður.

Af þessu tilefni er rétt að fram komi að þegar hugmyndin um miðlægan gagnagrunn var kynnt þjóðinni og heilbr.- og trn sl. vor var ein af frumforsendum málsins sú að miðlægur gagnagrunnur væri vísindatæki sem bætt gæti aðstöðu allra íslenskra vísindamanna á heilbrigðissviði til rannsókna. Þetta var loforð sem margsinnis var ítrekað af þeim sem tengjast væntanlegum rekstrarleyfishafa. Ég minnist þess að þegar stuðningsmenn frv., sem voru fáir síðasta vor, komu til fundar við heilbr.- og trn. þá sögðu þeir allir sem einn: Forsenda þess að hægt sé að samþykkja þetta mál verður að vera sú að þetta auki rannsóknargetu íslenskra vísindamanna. Þá voru þeir ekki að tala um hina staðbundnu gagnagrunna, sem verða fætur hins miðlæga grunns, heldur um grunninn sjálfan. Lágmarkskrafan er að menn reyni það sem þeir geta til að standa við þessi orð.

Til að halda öllu til haga er rétt að fram komi að ég varð ekki var við annað en að algjör einhugur væri innan heilbr.- og trn. um að haga frv. þannig að aðgangur vísindamanna væri eins tryggur og mikill og væri frekast unnt. Ég vil jafnframt koma því á framfæri að ég varð heldur ekki var við önnur viðhorf hjá fulltrúa hins væntanlega rekstrarleyfishafa þegar hann kom til fundar við nefndina en auðvitað var það alltaf helgað þeirri hugmynd að rekstrarleyfishafi ætti seturétt í aðgangsnefndinni.

Sennilega hefur heilbr.- og trn. ekki fjallað eins mikið um annað mál en þetta. Ég hef sjálfur brotið heilann lon og don, alla daga, í Reykjavík og erlendum stórborgum, til að finna leið til að bjarga þessu. Ég tel að ef þetta frv. verður að lögum verði leita allra leiða til að tryggja aðgang vísindaheimsins að þessu. Eins og hér hefur verið reifað komu miklir annmarkar í ljós á frjálsu aðgengi vísindamanna að grunninum. Ástæðan var eins og minnst var á áðan, að bæði Lagastofnun og Samkeppnisstofnun töldu ákvæði 9. gr. frv., sem fjölluðu um notkun vísindamanna á gagnagrunninum, brjóta svo harkalega gegn EES-reglum að þær lögðu báðar til að ákvæðin féllu brott. Tillögur þeirra og hugmyndir, sem auðvitað voru lagðar fram af brýnni nauðsyn, þýddu að eini möguleiki íslenskra vísindamanna til að fá aðgang að rannsóknum fyrir tilstilli gagnagrunnsins væri að kaupa hann fullu verði. Það mundi auðvitað útiloka íslenska vísindasamfélagið frá því að nota sér til hagsbóta upplýsingar úr þessum gagnagrunni sem þó eru íslenskar að öllu leyti.

Við höfum skoðað ýmsar leiðir til að tryggja aðgang vísindamannanna á kostnaðarverði. Eins og ég sagði fékk ekkert eitt atriði eins mikla umfjöllun. Að lokum skildu leiðir milli meiri hluta og minni hluta. --- Ég tel að sá hv. þm. sem nú gengur úr salnum hefði haft gott af því að hlusta á það sem nú kemur til að sýna hvers konar mál það er sem á að pína hann til að fylgja. En fari hann eigi að síður í friði.

Meiri hlutinn leggur til að ákvæði 9. gr. um aðgengi vísindamanna verði efnislega óbreytt en þó komi inn nýtt ákvæði um að aðgangurinn sé hluti af endurgjaldi rekstrarleyfishafans fyrir afnot af heilsufarsupplýsingunum. Af hálfu meiri hlutans eru því hvorki lagðar til breytingar á ákvæðum um setu rekstrarleyfishafans í nefnd þeirri sem fjallar um aðgengi vísindamanna, né heldur um aðgang þeirra sem ekki starfa á þeim heilbrigðisstofnunum sem láta upplýsingar í té. Það kann að vera að ég hafi misskilið tillögur meiri hlutans en þegar ég las þær skildist mér að þær væru svona. Ég gat hins vegar ekki skilið orð hv. þm. Siv Friðleifsdóttur öðruvísi en svo að hún teldi að einnig þeir sem ekki miðla beinlínis upplýsingum eða starfa við að miðla upplýsingum ættu með einhverjum hætti kost á að koma þarna til samstarfs. Um það hef ég ekki séð bein ákvæði í brtt. en mér hefur kannski yfirsést það.

Við í minni hlutanum, a.m.k. sá hluti sem stendur að því áliti sem ég mæli fyrir, getum ekki fallist á þessa afgreiðslu meiri hlutans, m.a. vegna þess að þau tvö atriði sem fela í sér fjórfalt brot á reglum EES eru óbreytt. Til þess að skýra þetta frekar og vegna þess hve grimmúðlega það virðist brjóta í bága við þær alþjóðlegar reglur sem við höfum skuldbundið okkur til að fylgja, þá þykir okkur líklegt að fyrr en seinna verði þessu ákvæði varpað út í hafsauga af alþjóðlegum dómstólum. Til að skýra hið fjórfalda brot, herra forseti, þarf fyrst að lýsa eftirfarandi:

Ekki þurfa að liggja fyrir ótvíræð dæmi um misnotkun einkaréttarhafa á markaðsráðandi aðstöðu til þess að veiting einkaréttar feli í sér brot á EES-reglum. Nánar tiltekið í 1. mgr. 59. gr., sbr. 54. gr. Það nægir að einkarétturinn skapi aðstöðu sem líklegt er að leiði til að einkaréttarhafinn misnoti stöðu sína. Með hliðsjón af þessu komst Samkeppnisstofnun að þeirri niðurstöðu um þessi tvö atriði að í þeim fælist einokun á upplýsingum sem leiddi til þess að mögulegum keppinautum væri haldið frá markaði. Með því væri verið að útvíkka eða efla hina markaðsráðandi stöðu einkaréttarhafans þannig að gengi gegn 54. gr. EES-samningsins. Þeir töldu jafnframt að í þessu fælist samkeppnishamlandi hagsmunaárekstur sem bryti gegn 1. mgr. 59. og 54. gr. samningsins. Þeir töldu jafnframt að þetta ákvæði fæli í sér aðgang að viðskiptaleyndarmálum.

Með setu fulltrúans í aðgangsnefndinni er alveg ljóst að einkaréttarhafinn getur komist að mikilvægum upplýsingum um áform vísindamanna. Í framsögu fyrir nál. meiri hlutans kemur fram að þær upplýsingar sem leggja á fram eigi að vera það takmarkaðar að slíkt sé ekki hægt. Ég held, herra forseti, að sá skilningur hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur kunni að nægja til að fella burt þetta eina atriði af þeim fjórum sem fela í sér brot gegn EES. Ég veit það ekki en a.m.k. þyrfti að útfæra það betur en gert var í ræðu hv. þm.

Sömuleiðis komst stofnunin að því að ákvæðin fælu í sér samkeppnishamlandi mismunun. Hún benti á að fyrst einungis þeir vísindamenn, sem starfa hjá stofnununum sem leggja til upplýsingar í miðlægan gagnagrunn, geti notið upplýsinga úr honum feli það að öllum líkindum í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu í skilningi 54. gr. EES-samningsins. Við teljum því að tillaga meiri hlutans feli án nokkurs vafa í sér margfalt brot á reglum EES eins og bæði Samkeppnisstofnun og Lagastofnun hafa bent á. Við teljum þetta ekki aðeins bera vott um ófagleg vinnubrögð sem óneitanlega séu fallin til að rýra álit og virðingu Alþingis, samþykki það slík ákvæði með þetta fyrir framan sig, heldur feli það í sér ábyrgðarleysi. Ekki síst af þessum ástæðum leggjumst við alfarið gegn 9. gr. eins og hún lítur út eftir breytingar meiri hlutans. (Gripið fram í: Hvaða þið?) Sá sem hér stendur og hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir sem stendur einnig að þessu minnihlutaáliti.

Að okkar mati koma tvær leiðir til álita til að tryggja aðgang vísindamanna. Önnur leiðin felst í að mæla svo fyrir í lögum að sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn, starfsmenn heilbrigðisstofnana og vísindamenn í samstarfi við þær skuli hafa aðgang að upplýsingum úr gagnagrunni á heilbrigðissviði og beri að líta á það sem hluta af endurgjaldi rekstrarleyfishafa fyrir afhendingu heilbrigðisupplýsinga. Þá verði jafnframt tekið fram í lögum að um aðgang þessara aðila skuli rekstrarleyfishafi, heilbrigðisstofnanir og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn semja samkvæmt þeim ákvæðum sem er að finna í 1. mgr. 7. gr. frv. Með öðrum orðum yrði stýring aðgangsins hluti af frjálsum samningi. Við teljum að þá fæli þetta ekki í sér það brot gegn EES-rétti sem felst í tillögu meiri hlutans. Við tökum það hins vegar fram í nál. okkar að það er ekki víst að þessi aðferð okkar dugi fullkomlega. Það er álitamál hvort hún gengur nógu langt til að hægt sé að fullyrða að hún feli ekki í sér samkeppnishamlandi mismunun. Við teljum þó að á því séu mun minni líkur en samkvæmt tillögu meiri hlutans. Við kveðum á um að notkun gagnagrunnsins sé ekki aðeins heimil þeim sem starfa við viðkomandi heilbrigðisstofnanir sem miðla upplýsingum í grunninn, heldur líka þeim sem eru í samstarfi við þær. Við leggjum til og bendum á að hægt sé að fella það beinlínis í frv. sjálft.

Eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði má gera ráð fyrir að allir þeir sem vildu gætu notfært sér þessa aðstöðu með samstarfi við viðkomandi heilbrigðisstofnun. Eigi að síður teljum við að ekki sé útilokað að einnig þessi útfærsla brjóti í bága við EES-réttinn. Við erum hins vegar sannfærð um að ef svo er þá sé það að miklu minna leyti og miklu minni hætta á þeirri niðurstöðu en samkvæmt þeirri tillögu sem meiri hlutinn hefur lagt fram.

Hin leiðin sem við hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir teljum líka færa byggist á eftirfarandi: Samkvæmt upplýsingum frá tilvonandi rekstrarleyfishafa, sem allir vita að er Íslensk erfðagreining, er fyrirhugað að selja áskrift að gagnagrunninum. Handhafar áskriftar geta þá, samkvæmt upplýsingum Kára Stefánssonar, gert rannsóknir sínar ótakmarkaðar án frekara gjalds svo fremi sem þær uppfylli skilyrði laganna. Við teljum að í lögum væri hægt að kveða á um að ríkið fengi sem hluta endurgjalds fyrir afnot af heilsufarsupplýsingum Íslendinga, árlega áskrift að miðlægum gagnagrunni á heilbrigðissviði þar til einkarétti rekstrarleyfishafans sleppir og starfræksla gagnagrunnsins færist í hendur ríkisins eða þess sem ráðherra kveður til, skv. 10. tölul. 3. gr. Við teljum jafnframt eðlilegt að menntmrh. færi með áskriftina fyrir hönd ríkisins því hann er sá ráðherranna sem fer með málefni vísindanna. Sömuleiðis kæmi til álita að inn í lögin yrðu sett ákvæði um að ráðherra vísindamála yrði skylt að setja sérstakar reglur um hvernig nota megi áskriftina og jafnframt að öllum starfsmönnum ríkisins verði gert mögulegt að stunda rannsóknir í gegnum þessa áskrift, svo fremi að þeir uppfylli þessa reglu menntmrh.

Menntmrh. er eins og ég sagði æðsta stjórnsýslulega vald í heimi vísindanna. Það er ekki óeðlilegt að hann færi með þetta mál. Ég tel þar að auki að mörgu leyti heppilegt að hann hefur ekki tekið þátt í þeim miklu deilum sem orðið hafa milli ríkisstjórnar og vísindasamfélagsins. Þar að auki ber honum skylda til, vegna þess valds sem honum er falið, að gæta hagsmuna vísindamanna. Ég tel þess vegna að hér sé um að ræða leið sem komi sterklega til álita.

[17:15]

Þar sem ég tel að hér sé um svo mikilvægt atriði að ræða höfum við í 1. minni hluta ekki lagt fram sérstaka brtt. að svo stöddu vegna þess að við teljum mikilvægt að ná samstöðu við meiri hlutann um að tryggja betri leið en þá sem nú liggur fyrir af hálfu meiri hlutans. Ef ekki verða neinar undirtektir við það í umræðunni munum við auðvitað leggja fram aðra hvora þessa tillögu fyrir 3. umr. og e.t.v. áður en umræðunni lýkur. En ég segi það að ég tel æskilegt að meiri hlutinn og minni hlutinn reyni að ná samstöðu um að bæta aðgengi vísindamanna.

Herra forseti. Ég ætla að lokum að snúa mér að þeim mótbárum sem við höfum flutt fram gegn einkaréttarákvæðunum sem er að finna í frv. Hægt er að færa fjölmörg rök, vísindaleg og viðskiptaleg, gegn því að einkaréttur verði veittur einu fyrirtæki til þess að fénýta allar heilsufarsupplýsingar úr sjúkraskrám landsmanna, sem, nota bene, heilbrrh. hefur skilgreint sem þjóðarauð.

Í nútímavísindum er þróunin hvergi jafnhröð og á sviði erfðagreiningarinnar þar sem ný tækni og miklar fjárfestingar hafa á síðustu árum stuðlað að ótrúlegum framförum. Það er heldur engin grein vísindanna þar sem samspilið milli viðskiptanna er jafnofið vísindalegri framþróun og einmitt innan erfðagreiningarinnar. Þar ríkir gríðarlega hörð samkeppni og hún hefur leitt til undraverðra uppfinninga og nábýli greinarinnar við hinn sterkríka lyfjaiðnað hefur orðið til þess að tekist hefur að hagnýta þessar uppfinningar á örskömmum tíma. Þannig hefur skapast umhverfi þar sem viðskiptin og vísindi erfðafræðinnar eru samofin. Drifkraftur þessarar hröðu þróunar innan þessarar greinar er samkeppnin. Einokunin, sem lagt er til í frv. að eitt fyrirtæki fái, er líkleg til þess að stuðla skamma hríð að jákvæðri þróun í erfðatengdum iðnaði hér á landi. En til lengri tíma tel ég að hún verði fjötur sem leiðir til þess að greinin muni eiga erfitt með að þróast jafnörugglega hér á landi og annars staðar. Í þessu samhengi verður að leggja áherslu á að Ísland er ekki eina landið þar sem öflug fyrirtæki á sviði erfðagreiningar hafa komið fram. Svipuð þróun er alls staðar á Vesturlöndum. Ég veit ekki betur en að slík fyrirtæki séu jafnvel farin að teygja sig til okkar ágætu nágranna í Færeyjum.

Erfðagreining er sólrisuiðnaður í hinum iðnvæddu samfélögum nútímans. Hún einskorðast ekki bara við Ísland þó að séríslenskar aðstæður og öflugt fyrirtæki, Íslensk erfðagreining, sem hefur skapast í krafti séríslenskra aðstæðna og afskaplega öflugs starfsliðs, innlends og erlends, sem hefur gengið til liðs við það, hafi gefið Íslandi tímabundið forskot. En reynslan sýnir að samkeppnin stuðlar jafnan að nýjum og snjallari tæknilegum lausnum en raunin er þegar einum aðila er veitt einokun. Þess vegna tel ég að samkeppni mundi leiða til þess að stuðla að enn vandaðri úrlausn þess flókna viðfangsefnis sem gerð miðlægs gagnagrunns er. Ég tel líka að til lengri tíma mundi hún leiða til enn meiri vísindalegs ávinnings og verðmætasköpunar.

Ég held líka að það orki tvímælis að halda því fram, miðað við reynslu á samkeppnismarkaði, að erfiðara yrði að markaðssetja afurðir gagnagrunnsins ef einkaréttarins nyti ekki við en því er auðvitað haldið fram. Við vitum að af einkarétti leiðir oftlega að menn fara á mis við tækifæri til viðskipta sem einkaréttarhafi hefur annaðhvort ekki áhuga á að nýta eða sér einfaldlega ekki. Þess vegna held ég að fullyrða megi að það sé þekkt regla úr heimi viðskiptanna að fleiri markaðir vinnast og fleiri viðskiptatækifæri nýtast þegar vara er markaðssett af fleiri fyrirtækjum í beinni eða óbeinni innbyrðis samkeppni og þá með tilheyrandi ávinningi fyrir hagkerfið allt í heild. Þetta eru rökin að baki því að einkaréttur á sviði útflutnings tiltekinna sjávarafurða var afnuminn með augljósum ávinningi bæði fyrir sjávarútveginn og íslensku þjóðina. Ég held þess vegna að því megi halda fram með vísan til reynslu af samkeppnisviðskiptum að fyrir Íslendinga yrði betra að fleiri en eitt fyrirtæki mundu keppa um að markaðssetja þá vöru sem er hægt að vinna úr íslenskum heilsufarsupplýsingum. Ég held að markaðurinn mundi nýtast betur, störfin sem sköpuðust yrðu fleiri og þegar upp er staðið er líklegt að afraksturinn í formi verðmæta sem rynnu inn í íslenskt samfélag yrði meiri. Þess vegna held ég því fram, herra forseti, að með því að veita einkarétt á rekstri miðlægs gagnagrunns sé verið að valda óbeinum skaða með því að útiloka slíka þróun. Eins og ég kem að síðar, herra forseti, hafna ég algjörlega þeim rökum sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir færði áðan sem einu rök sín og meiri hlutans fyrir einkarétti og þau voru eftirfarandi: Það kostar svo mikið að smíða gagnagrunninn og markaðssetningin er svo óviss að það verður að gefa einkarétt. Herra forseti. Ég er ekki einn um að hafna þessum rökum vegna þess að Lagastofnun hafnar þeim alfarið og Samkeppnisstofnun líka. Með öðrum orðum hafna allir þeir sem hafa sérfræðiþekkingu á málinu rökum meiri hlutans.

Herra forseti. Rökin fyrir nauðsyn einkaréttarins hafa í rauninni hvergi verið skilgreind ítarlega. Lagastofnun bendir á að rökin fyrir einkarétti í sjálfu frv. komi ekki skýrt fram. Það er þó augljóst af framsöguræðu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur áðan, ýmsum greinum sem aðstandendur Íslenskrar erfðagreiningar hafa skrifað, og líka framsöguræðu hæstv. heilbrrh. við 1. umr., að röksemdirnar sem hníga að nauðsyn þess að einkaréttur verði veittur á miðlægum gagnagrunni eru efnislega þessar:

Stofnkostnaðurinn við gerð grunnsins er mjög hár. Hann er líklegur til þess að verða umtalsvert hærri fyrir þann sem fer fyrstur af stað með slíkan grunn. Mikil óvissa ríkir um hagnýtingarmöguleikana. Gagnagrunnur af þessu tagi hefur aldrei verið markaðssettur áður og ef einkaréttur yrði ekki veittur, eins og við heyrðum hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur áðan, gæti það leitt til þess að samkeppnin ylli því að heildarverðmætin sem rynnu inn í landið vegna viðskipta með upplýsingar úr grunninum yrðu minni en ella, gæti það leitt til þess að ekki tækist að markaðssetja afurðirnar.

Engin önnur rök hafa verið sett fram af talsmönnum ríkisstjórnarinnar til stuðnings einkaréttinum. Það er athyglisvert að þessum rökum er hafnað bæði af Samkeppnisstofnun og Lagastofnun. Samkeppnisstofnun segir skýrt að vafasamt sé að rök um mikinn stofnkostnað réttlæti einkarétt. Hún bendir á að slík rök mætti þá nota í mörgum tilvikum til þess að komast hjá eftirliti á grundvelli samkeppnisreglna EES-samningsins. Samkeppnisstofnun bendir á merkilegt dæmi. Hún vísar til eftirfarandi dæmis:

Hvað ef menn sækjast eftir því að byggja álver? Því fylgir gríðarlegur stofnkostnaður og mjög óviss markaðssetning eins og við vitum. Er þá ekki í krafti sömu raka hægt að fara fram á einkarétt? Að sjálfsögðu, segir Samkeppnisstofnun. Þess vegna segir hún: Þessi rök gilda ekki.

Í áliti Lagastofnunar er að finna nákvæmlega sama viðhorf. Hún rekur hvernig einkarétturinn er rökstuddur í frv. og vísar þar m.a. til þess að þar komi fram að það kosti allt að 19,3 milljarða að smíða grunninn og áhættan sé veruleg. Hún hafnar hins vegar þessum rökum alfarið. Lagastofnun segir hreint út að frá sjónarhóli EES-réttarins geti þau tæpast réttlætt einkarétt og síðan segir orðrétt, með leyfi forseta: ,,Enda eru það þá rök sem eiga alltaf við þegar fjárfesting er mikil, óháð því hvers konar atvinnustarfsemi á í hlut.``

Þar með liggur fyrir, herra forseti, að einu rökunum fyrir einkaréttinum sem hafa komið fram af hálfu meiri hlutans í umfjöllun nefndarinnar er hafnað bæði af Lagastofnun Háskólans og Samkeppnisstofnun.

Það er raunar athyglisvert, herra forseti, að Lagastofnun treystir sér ekki einu sinni til þess að fullyrða að einkarétturinn standist EES-reglur. Höfundar álits stofnunarinnar telja upp fjölmörg atriði og þeir segja að með tilliti til þeirra allra sé það skoðun þeirra að einkarétturinn ,,geti samrýmst þeim``. Þeir þora ekki að kveða fastar að orði. Þeir fullyrða hins vegar að með því að samþykkja heimildina til einkaréttarins taki löggjafinn áhættu gagnvart EES-réttinum. Sú afstaða birtist mjög skýrt í eftirfarandi yfirlýsingu undir lok umfjöllunar stofnunarinnar um einkaréttinn þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Með því að fela einum aðila einkarétt til gerðar og starfrækslu miðlægs gagnagrunns er því tekin nokkur áhætta.``

Það er alveg ljóst að Lagastofnun varar okkur við. Hún segir: Með því að samþykkja einkaréttinn er verið að taka nokkra áhættu. Samkeppnisstofnun gengur miklu lengra. Hún heldur því fram með mjög gildum rökum að þetta brjóti beinlínis í bága að mörgu leyti við EES-samninginn. Helstu niðurstöður Samkeppnisstofnunar um einkaréttarþátt frv. eru þessar, herra forseti:

Stofnunin segir í fyrsta lagi að veiting einkaréttar sé ekki í samræmi við þróunina innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í öðru lagi að veiting einkaréttarins muni skapa markaðsráðandi stöðu á verulegum hluta Evrópska efnahagssvæðisins. Í þriðja lagi að líklegt sé að sú staða verði misnotuð og misnotkunin hafi áhrif á viðskipti milli aðildarríkja sambandsins. Í fjórða lagi telur hún ólíklegt að veiting einkaréttarins falli undir undanþáguheimildir sem er að finna í 2. mgr. 59. gr. EES-samningsins. Í fimmta lagi lítur Samkeppnisstofnun svo á að veiting einkaréttarins muni fara gegn 1. mgr. 59. gr. EES-samningsins. Í sjötta lagi er það að auki álit stofnunarinnar að veiting einkaréttarins stríði gegn markmiði samkeppnislaga.

Það liggur alveg ljóst fyrir að Lagastofnun segir að veitingu einkaréttar fylgi nokkur áhætta og Samkeppnisstofnun segir einfaldlega: Þessi hluti frv. brýtur gegn ákvæðum EES-reglna.

Herra forseti. Ég gæti haft um þetta talsvert langt mál til viðbótar. En það er eitt sem mig langar að nefna að lokum. Ég held að ef svo fer að einkaréttarákvæðið verði samþykkt hljóti það vera óhjákvæmilegt að ríkið bjóði út gerð grunnsins. Erfitt er að finna rök sem mæla gegn því vegna þess að til að mynda hefur Ríkiskaup fært fram sterk rök, sem ég ætla ekki að tíunda hér enda búinn að tala nógu lengi, sem benda skýrt í þá veru að það sé nánast ekki hægt að horfa fram hjá því að samkvæmt þeim reglum sem við erum aðilar að á alþjóðlega vísu sé óhjákvæmilegt að láta útboð fara fram. Ég vek máls á þessu, herra forseti, vegna þess að ég tel að það sé viðurhlutamikið, svo ekki sé meira sagt, ef menn ætla að ráðast í að samþykkja hér frv. og gera það að lögum sem er beinlínis hægt að segja að brjóti í bága við fjölmargar alþjóðlegar skuldbindingar. Ég vek athygli á því að þegar lesnar eru saman þær breytingartillögur sem meiri hlutinn leggur fram og frumvarpið í heild sinni blasir við að þar er verið að gera tillögur sem brjóta ítrekað í bága við EES-réttinn. Það eru þrjár stofnanir sem benda á það: Samkeppnisstofnun, Lagastofnun og Ríkiskaup. Eigum við samt sem áður, herra forseti, að horfa upp á Alþingi Íslendinga vitandi vits samþykkja frv. með einkaréttinum inni sem er alveg ljóst að felur í sér margfalt brot á alþjóðlegum skuldbindingum?

Ég get ekki, herra forseti, tekið þátt í slíkri afgreiðslu. Ég hef um margt samúð með þeirri tilraun sem hér er gerð með hinn miðlæga gagnagrunn en mér þykir hún hafa klúðrast óhönduglega og mér sýnist að útlitið sé ekki bjart fyrir þann ágæta grunn þegar hann verður loksins að veruleika. En ég lýsi því enn og aftur yfir, herra forseti, að ef svo fer að meiri hlutinn er reiðubúinn til þess að falla frá einkaréttinum og ef hann er reiðubúinn til þess að reyna að ná sáttum við okkur um aðgengi vísindamanna að gagnagrunninum þá er ég reiðubúinn til þess að samþykkja frv.