Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 19:08:56 (1753)

1998-12-07 19:08:56# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. 1. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[19:08]

Frsm. 1. minni hluta heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Áhyggjur hv. þm. út af þeim athugasemdum sem komu fram frá fulltrúum samtaka iðnaðarins og hugbúnaðarfyrirtækja held ég að séu ástæðulausar. Þegar það var rætt í nefndinni taldi ég að það hefði verið einhuga skilningur nefndarmanna á því að sú hugbúnaðarþróun sem þarf að vinna yrði unnin á forræði hins opinbera, þ.e. það mundi ekki verða til nein ,,reiknistofa`` eins og í bönkunum sem fengi einhvers konar einokunarrétt á því að búa til þessi kerfi. Fyrir vikið held ég að skilningurinn hafi legið í nefndinni með eftirfarandi hætti:

Útboð eða eftir atvikum kaup á slíkum hugbúnaði verður að lúta reglum hins opinbera um opinber innkaup.

Mig langaði jafnframt, herra forseti, að drepa örlítið á áhyggjur hv. þm. á þeim möguleika sem er uppi að búin séu til erfðakort með upplýsingum ættingja. Ég held að fullt tilefni sé fyrir áhyggjum hv. þm. í þessu efni en ég er ekki viss um að þær tengist þessu frv. og er reyndar sannfærður um að þær áhyggjur þurfa ekki að tengjast þessu frv. Ég held að það liggi algjörlega skýrt fyrir að í þennan gagnagrunn á heilbrigðissviði verða einungis færðar upplýsingar sem eru teknar úr sjúkraskrám þannig að merkingar á genum, eins og þær sem hv. þm. rakti áðan og hafði upplýsingar um frá Reyni Arngrímssyni lækni, er hægt að vinna með upplýstu samþykki en þær er ekki hægt að færa í miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði. Það er algerlega ljóst eins og frv. er orðað, eins og skýringar í greinargerð með því eru er orðaðar. Að sama skapi er líka alveg ljóst að upplýsingar sem kynnu að tengjast sakamálum eins og DNA o.s.frv. verða ekki nýttar úr þessum grunni.

Ég legg a.m.k. þann skilning í frv. að þar sem talað er um að meðhöndlun upplýsinga í grunninum, samkeyrsla við annað þurfi að lúta gildandi lögum um persónuupplýsingar, útiloki þetta algjörlega.