Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 19:11:18 (1754)

1998-12-07 19:11:18# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. 2. minni hluta BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[19:11]

Frsm. 2. minni hluta heilbr.- og trn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég kannast við þessa umræðu úr heilbr.- og trn. og ég er sammála því mati sem þar kom fram. En spurningin er kannski þessi: Er frv. nægilega skýrt að þessu leyti? Þá er ég að tala um það sem snýr að hugbúnaðargerðinni. Liggur þetta algjörlega ljóst fyrir og kristaltært í þeirri frumvarpsgerð og með þeim brtt. sem liggja nú fyrir? Ég kannast við umræðuna úr heilbr.- og trn. en ég benti á það áðan að ég mat það t.d. svo að ættfræðiupplýsingarnar ættu ekki að vera hluti af þessum gagnagrunni. En svo kemur fram í brtt. meiri hlutans að þær séu það eftir því sem ég best skil. Ég verð því að segja eins og er að ég hef ekki alveg náð að fylgja eftir öllum þeim tillögum sem hafa verið í umræðunni og treysti því ekki endanlega að þetta sé svona.

Hvað varðar erfðafræðilegu upplýsingarnar tel ég gott að heyra að það sé mat hv. formanns heilbr.- og trn. að þetta sé tryggt og þær verði ekki þarna inni en það verður líka fróðlegt að heyra hvað frsm. meiri hlutans hefur að segja nákvæmlega um það, hvort möguleiki sé á því. Reynir Arngrímsson, læknir og sérfræðingur í erfðafræði, og reyndar fleiri sem þekkja vel til á þessu sviði --- og þarna er einmitt um að ræða mjög þröngt sérsvið sem viðvaningur t.d. á borð við mig á mjög erfitt með að meta og verður að treysta ráðum manna sem þekkja vel til á því sviði --- þeir hafa af þessu áhyggjur og ég held að þær áhyggjur séu raunhæfar.