Sala hlutabréfa í bönkum

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 13:21:29 (1762)

1998-12-08 13:21:29# 123. lþ. 35.91 fundur 147#B sala hlutabréfa í bönkum# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[13:21]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Það er nákvæmlega sama hvernig menn velta þessu máli upp. Hér er tragikómiskur farsi á ferðinni. Hæstv. ráðherra kemur fram og segir að þrjú meginmarkmið ríkisstjórnarinnar hafi verið með í för þegar salan á eignarhlutum ríkisins fór fram nú og upp á síðkastið.

Dreifð eignaraðild. Eru menn virkilega að halda því fram að þær tugþúsundir Íslendinga sem fylla út auglýsingu í Morgunblaðinu frá Íslandsbanka vegna tilboða Búnaðarbankans séu að taka þátt í atvinnurekstri, fólk sem hefur ekki fjármuni milli handanna til þess að kaupa sína eigin hluti heldur selur fyrir fram kauprétt sinn? Er það virk þátttaka í atvinnulífi? Menn eru gjörsamlega að snúa veruleikanum á hvolf. Sannleikurinn er auðvitað sá að hin dreifða eignaraðild hefur mistekist og þegar einn söluaðili, Kaupþing, hælist um eftir útboðið á Fjárfestingarbanka atvinnulífsins að hafa náð 14% þess hlutar sem seldur var undir sinn hatt sér náttúrlega hver maður að sú stefna hefur mistekist. Þetta er einmitt að færast á fáar hendur. Það er kjarni málsins.

Einnig hefur hitt meginmarkmiðið, að ná raunvirði fyrir þessar eignir, sömuleiðis mistekist. Það birtist okkur á internetinu og í fréttum fjölmiðla og á heimasíðum verðbréfastofnana. Þegar markaðsverðið er komið langt umfram það gengi sem selja átti á áður en salan hefst. Hvers konar fíflagangur er eiginlega á ferðinni?

Ég árétta spurninguna til hæstv. ráðherra sem hann svaraði ekki: Ætlar hann ekki að setja stopp á 51% söluna á Fjárfestingarbanka atvinnulífsins þar til sýnt verður hvernig menn ætli sér að gera þetta með viti bornum hætti? Sú spurning stendur upp úr. Henni var ekki svarað áðan en við henni verður að fást svar. Þessum farsa verður að linna.