Sala hlutabréfa í bönkum

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 13:34:49 (1768)

1998-12-08 13:34:49# 123. lþ. 35.91 fundur 147#B sala hlutabréfa í bönkum# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[13:34]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það kemur engum á óvart þó hæstv. fjmrh. standi hér í harðri vörn fyrir kolkrabbann og fjölskyldurnar fjórtán í landinu. En það kemur á óvart sem hæstv. viðskrh. viðurkenndi áðan, að það hefði verið hægt að fá 30% meira fyrir bankana, þetta hefði verið fórnarkostnaðurinn fyrir dreifða eignaraðild.

En hver er þessi dreifða eignaraðild? Við stöndum frammi fyrir því að einn aðili á nú þegar 14% í bankanum þannig að fyrirætlun um dreifða eignaraðild er bara orðin tóm og nákvæmlega ekkert annað. Það vekur furðu, miðað við það sem hér hefur gerst, að ráðherrann skuli ekki beita því valdi sem hann hefur sem eini hluthafinn í Búnaðarbankanum að kalla þegar til hluthafafundar og stöðva þessa vitleysu sem er í gangi.

Það vekur líka furðu að ráðherrann ætlar í ljósi þess sem hér hefur gerst að meta bara reynsluna og sjá hvernig eftirmarkaðurinn virkar. Hvernig virkar hann? Hann virkar auðvitað þannig að fjársterkir aðilar eru, án þess að ráðherrann ætli nokkuð að gera, að sölsa undir sig á undirverði (Gripið fram í: Lífeyrissjóðirnir.) eigur ríkisins og skattgreiðenda.

Og hverju svarar ráðherrann því þegar nú er spurt: Ætlar hann ekki að beita sér fyrir því, t.d. varðandi frv. um Fjárfestingarbankann sem komið er úr efh.- og viðskn., að sett verði þak á eignaraðild, 3--5%, ef hann meinar þá yfirleitt eitthvað með því sem hann heldur hér fram, að ríkisstjórnin vilji stuðla að dreifðri eignaraðild?

Staðreyndin sem við stöndum frammi fyrir er að hæstv. viðskrh. hefur orðið ber að því að vera hreinn umskiptingur frá því 1992 þegar hann sagði hér úr þessum ræðustól að Framsfl. vildi koma í veg fyrir það að brjóta niður bankakerfið þannig að molarnir pössuðu í ginið á kolkrabbanum. Það er nákvæmlega það sem hæstv. ráðherra stendur fyrir núna og ætlar ekkert að gera þó hann sjái fyrir framan nefið á sér að fjársterkir aðilar eru að sölsa undir sig bankann.

Við erum með frv. um Fjárfestingarbankann og það á ekki að fara út úr þessu þingi fyrr en búið er að setja hámark á eignaraðild. Hverju svarar ráðherrann því?