Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 13:42:31 (1772)

1998-12-08 13:42:31# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, TIO
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[13:42]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Við 2. umr. um þetta mikilvæga málefni, þegar fyrir liggja brtt. og nál., er brýnt að gæta að því hvort svo er búið um hnútana í þessu máli að það þjóni því markmiði að bæta heilbrigðisþjónustu, skapa sérstakar forsendur fyrir fyrirbyggjandi aðgerðum og smíða kröftugt verkfæri til vísindalegra framfara á sviði læknisvísinda og hjúkrunar. Við þurfum að geta sannfært okkur um að vel takist til því þá aðeins réttlætir ávinningurinn það erfiði og þá áhættu sem því fylgir að koma þessu verki á laggirnar.

Flestu því sem til þess er gert að bæta hag mannsins fylgir ekki einungis fyrirhöfn heldur einnig áhætta og það er hlutverk okkar að meta fyrirhöfnina og áhættuna annars vegar og ávinninginn hins vegar. Við þurfum einnig að meta þann kostnað, beinan og óbeinan, sem við þurfum fyrirsjáanlega að glíma við ef við erum ekki reiðubúin til þess að nýta okkur framfarir og nýjungar með þeirri áhættu sem framförum og nýjungum ávallt fylgir, þ.e. ef við erum ekki reiðubúin til þess að koma á miðlægum gagnagrunni og nýta það tækifæri sem tæknin býður okkur upp á til þess að safna saman upplýsingum um heilsufar í einn miðlægan grunn.

Það er að sjálfsögðu mat þeirra sem gagnagrunninn styðja, meiri hlutans, að þótt frv. ríkisstjórnarinnar fylgi kostnaðarsamt, fyrirhafnarmikið og vandasamt verk við að koma á og reka miðlægan gagnagrunn, og þótt honum fylgi áhætta, sé ávinningurinn slíkur að tvímælalaust beri að ráðast í verkið. Ég vil fara nokkrum almennum orðum um þá kosti sem felast í því að koma upp miðlægum gagnagrunni á heilbrigðissviði.

[13:45]

Leitin að erfðavísum sem valda hefðbundnum erfðasjúkdómum er af sérfræðingum talin afar erfið og það jafnvel þótt sambandið milli stökkbreytinganna og sjúkdómsmyndunar geti talist tiltölulega einfalt samband. Væntanlega er þá um mun erfiðara viðfangsefni að ræða þegar glímt er við flókna erfðasjúkdóma þar sem við sögu koma fleiri en einn erfðavísir. Þar við bætast umhverfisþættir ef svo má nefna, en með orðinu umhverfisþættir er í þessu sambandi átt við aðstæður sem menn búa við, hollustuhætti, læknisfræðileg úrræði sem menn hafa notið og fleiri þætti.

Það er afar flókið og erfitt viðfangsefni að rannsaka á kerfisbundinn hátt samspil milli þessara þriggja þátta, þ.e. erfða, umhverfis í þeirri merkingu sem ég greindi áðan frá og sjúkdóma. Það er seinvirkt að setja fram með hefðbundnum hætti kenningar um samspil af þessu tagi og sjá síðan hvernig kenningarnar falla að veruleikanum. Miðlægur gagnagrunnur býður upp á þá möguleika að spara mikinn tíma og fyrirhöfn með því að leita kerfisbundið með aðstoð kröftugra hugbúnaðarkerfa og fullkominna upplýsingasafna að því samspili erfða og umhverfis sem leiðir til sjúkdóma. Hér er þá um að ræða leið sem takmarkast nánast af umfangi fyrirliggjandi gagna og úrvinnslugetu hugbúnaðarins en ekki af hefðbundnum kenningum eða líkanaferli.

Að mínu mati er um kjarna málsins að ræða því að eftir því sem ég hef fengið upplýst eru flestir algengir sjúkdómar í samfélagi okkar flóknir erfðasjúkdómar. Miðlægur gagnagrunnur gæti gefið Íslendingum tækifæri til að stórauka framlag sitt til þekkingarsköpunar í læknisfræði. Ég vil taka fram að mér finnst mjög athyglisvert og aðdáunarvert að Íslendingar hafa nú þegar gert sig mjög gildandi á sviði læknisfræði á alþjóðlega vísu en er ekki í neinum vafa um að miðlægur gagnagrunnur mundi gefa Íslendingum tækifæri til að stórauka framlag sitt til þekkingarsköpunar á þessu sviði.

Sú nýting gagnagrunnsins sem hér hefur verið reifuð getur lagt grundvöll að fyrirbyggjandi úrræðum. Öllum er ljóst, jafnvel þeim sem enga sérþekkingu hafa á læknavísindum eða erfðafræði, að menn erfa tilhneigingu til sjúkleika eða veikleika fyrir ákveðnum heilsufarsáreitum. Fjölmargir einstaklingar stunda fyrirbyggjandi lífshætti, annaðhvort að læknisráði eða einfaldlega af heilbrigðri skynsemi. Niðurstöður rannsókna þeirra sem ég gat um áðan geta lagt grundvöll að öflugri fyrirbyggjandi læknisfræði, öflugri en áður hafa staðið efni til að byggja upp. Í slíkri fyrirbyggjandi læknisfræði er fólginn stór hluti þeirra tækifæra sem ég tel að við eigum til að auðvelda eða auka gæði heilbrigðisþjónustunnar og koma böndum á illviðráðanlegan kostnaðarauka í heilbrigðiskerfinu. Ef gagnagrunnurinn veitir okkur möguleika til forsagnar um heilbrigðisþjónustu, eins konar líkanasmíði í heilbrigðisþjónustunni, má gera ráð fyrir að þar yrði á ferðinni þekking sem Íslendingar gætu flutt út. Ég hygg að það sé ekki síst með tilliti til þessa möguleika sem blaðamaður The Economist, í síðasta tölublaði þess, hefur í huga þegar hann segir í lok umfjöllunar um gagnagrunnsmálið, í lauslegri þýðingu, að heimurinn muni hugsanlega feta þá braut sem Íslendingar séu að ryðja nú.

Telja má líklegt að gagnagrunnurinn gæfi íslenskum heilbrigðisyfirvöldum möguleika á að sjá nákvæmlega hvað er að gerast í lýðheilsu þjóðarinnar á hverjum tíma, hann gæti fengið afar verðmætar upplýsingar um nýgengi sjúkdóma, svör við meðferð og önnur verðmæt gögn sem tryggja bætta heilbrigðisþjónustu. Ég tel lítinn vafa á því að miðlægur gagnagrunnur á heilbrigðissviði mundi líka með ýmsum hætti, beinum og óbeinum, leiða til mikils sparnaðar í íslensku heilbrigðiskerfi á sama tíma og hann mundi auka gæði þess. Ég ætla ekki á þessari stundu að fara ítarlega yfir brtt. meiri hlutans, hv. frsm. meiri hlutans hefur gert rækilega grein fyrir honum en ég ætla hins vegar að víkja að nokkrum athugasemdum sem hafa komið fram í umræðunum og sýna fram á annars vegar að nokkur framför hefur orðið í umræðunni um gagnagrunninn en jafnframt að sumir aðilar innan þingsins hafa ekki nýtt sér þær aðstæður sem þessar framfarir í umræðunni hafa veitt.

Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir vitnaði mjög gjarnan í sérfræðing sem heitir Bogi Andersen en sá ágæti sérfræðingur gerði tilraun til að jafna því sem þessum gagnagrunni er ætlað að gera við tilraunir á músum og spurði hvort Íslendingar nytu minni réttinda en dýr. Miðað við þessa tilvitnun má vissulega efast um að Bogi Andersen viti um hvað málið snýst. Ef hann veit um hvað málið snýst er málflutningur af þessu tagi að sjálfsögðu ekki sæmandi. Alla tíð hefur verið ljóst, a.m.k. frá fyrstu umræðu um þetta mál, að gagnagrunnsfrv. fjallar ekki um tilraunir á fólki, um vísindatilraunir á fólki. Ef þessi sérfræðingur, Bogi Andersen, er að líkja tilraunum á músum við vísindatilraunir á mannfólki þá snertir sú samlíking alls ekki þetta frv. því frv. fjallar alls ekki um vísindarannsóknir á fólki. Það hefur legið alveg ljóst fyrir. Um vísindarannsóknir á fólki gilda ákveðnar reglur samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum og við erum aðilar að þeim reglum og framfylgjum þeim reglum hér. Þær reglur eru í stórum dráttum þær að slíkar rannsóknir á einstaklingum eru háðar upplýstu samþykki.

Það sem um er að ræða í frv. um gagnagrunn á heilbrigðissviði fjallar ekki um vísindarannsóknir á fólki. Það fjallar um nýtingu upplýsinga sem safnað er í öðrum tilgangi en vísindatilgangi. Þetta er öllum ljóst sem hafa komið að þessari umræðu nema e.t.v. þessum ágæta sérfræðingi og þá kannski þeim þingmanni sem notar þessa tilvitnun. Ég hygg þó að honum sé ljóst að verið er að blanda saman óskyldum málum vegna þess að það kom fram við 1. umr. að þegar rætt er um að nota upplýsingar sem safnað er í öðrum tilgangi en vísindatilgangi gilda aðrar reglur og aðrar viðmiðanir. Ég hef sjálfur lagt fram á þinginu fyrirspurn um það hvernig farið sé með endurvinnslu á upplýsingum í heilbrigðiskerfinu og svar við því er væntanlegt nú fljótlega. Það varðar sérstaklega Krabbameinsfélagið. Ég veit hvað kemur út úr þeim athugunum. Það sem kemur út úr þeim athugunum er að upplýsingar úr heilbrigðiskerfinu hafa gengið til Krabbameinsfélagsins og þar hafa þessar upplýsingar verið notaðar í rannsóknir, sem sagt í öðrum tilgangi en þeim var safnað til. Og nýting þessara upplýsinga er ekki gerð á grundvelli upplýsts samþykkis heldur ætlaðs samþykkis og það eru einmitt slíkar viðmiðanir sem gert er ráð fyrir að nota í þessu frv. Sú gagnrýni sem fram kom á frv. við 1. umr. og var réttmæt beindist að því að slík nýting með ætluðu samþykki styddist ekki við störf vísindasiðanefndar. Almennt er notast við einhvers konar vísindasiðfræðilegt mat á nýtingu á þeim upplýsingum sem leyfðar eru og þá er það ýmist að komið er upp vísindasiðanefnd innan fyrirtækis, sem er mjög algengt, það á t.d. við um Krabbameinsfélagið sem hefur innanhússvísindasiðanefnd eða þá að vísindasiðanefndirnar eru með öðrum hætti. Nú vill svo til að tillaga liggur fyrir um það að setja upp vísindasiðanefnd til að taka á þessu vandamáli í sambandi við frv. Sú vísindasiðanefnd er ekki innanhússvísindasiðanefnd heldur er hún ráðherraskipuð. Einmitt það veldur því að sú réttmæta gagnrýni sem fram kom á frv. hefur verið tekin til skoðunar og það hefur verið tekið tillit til hennar. Einmitt þess vegna er það þeim mun sérkennilegra að þessu skuli enn vera haldið fram, að enn skuli þessu vera haldið við að hér sé verið að brjóta grundvallarregluna um að þarna eigi að nota upplýst samþykki. Það er ekki til að skýra umræðuna, það er ekki til að leiða til meiri skilnings á því vandamáli sem hér er verið að tala um heldur eru slíkar röksemdir þvert á móti til þess ætlaðar að flækja málið og gera það óskýrara.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson fjallaði um tengsl frv. við EES-samninginn og samkeppnisreglur EES-samningsins. Ég vil aðeins geta þess fyrst að mér fannst það mjög sérkennilegur samanburður hjá hv. þm. að bera saman gagnagrunn á heilbrigðissviði við framleiðslu á áli og telja sjálfkrafa að samkeppnisreglur ættu við um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði af því þær ættu við um álframleiðslu. Oft hef ég heyrt sérkennilega samlíkingu en sjaldan eins og þessa og ég vil einnig draga í efa að slíkar samlíkingar séu boðlegar. Fyrir það fyrsta eiga samkeppnisreglur Evrópska efnahagssvæðisins, sem eru samkeppnisreglur Evrópusambandsins, eiga fyrst og fremst við um viðskipti. Fjölmargt í mannlegu samfélagi sem er á gráu svæði á annars vegar við um viðskipti en tengist hins vegar öðrum þáttum samfélagsins eins og menningu, heilsugæslu eða öðrum þáttum, telst ekki sjálfkrafa heyra undir samkeppnisreglur Evrópusambandsins. Þá vaknar sú spurning: Er sjálfgefið að það sem hér er verið að fjalla um, og þá er náttúrlega fyrst og fremst verið að tala um aðgengi vísindamanna að þessu og hins vegar um einkaréttinn, falli undir EES-samkeppnisreglurnar? Ég vil nefna í þessu sambandi að á einu sviði sem flokkast jafnan undir menningarsvið, þ.e. útvarpsrekstur, fara fram viðamikil viðskipti, aðallega í formi auglýsinga. Engu að síður hefur það verið talið samræmast ESB-grunninum, þ.e. Rómarsáttmálanum og samkeppnisreglunum, að útvarpsstöðvar í eigu ríkisins innheimti sérstakt gjald, ,,license fee`` eins og það heitir á ensku, en selji jafnframt auglýsingar. Þetta er réttlætt með þeim rökum að þarna sé um að ræða menningarstofnanir sem stundi ekki hreinræktuð viðskipti heldur gegni ákveðnu samfélagslegu hlutverki, menningarlegu hlutverki. Enn sem komið er er það svo að samkeppnisreglurnar eru ekki nýttar á útvarpsreksturinn. Hins vegar er sagt að svo geti farið að seinna meir verði það og um það er ekki hægt að segja. Reglur hins opinbera heilbrigðiskerfis lúta ekki reglum EES. Það liggur alveg ljóst fyrir. Heilbrigðiskerfið fellur ekki undir EES. Þá vaknar sú spurning hvort sú staðreynd að þarna fara fram viðskipti setur atriði þessa frv., sérstaklega einkaréttinn og aðgengi, í uppnám vegna samkeppnisreglnanna. Ég tel mjög ólíklegt að svo sé. Ég tel það ekki útilokað en ég tel mjög ólíklegt að svo sé.

[14:00]

Fyrir það fyrsta er ærið margt ólíkt í framleiðslu á áli og við gerð heilbrigðisgrunns af þessu tagi þó sumir þingmenn átti sig ekki á því. Það þarf að fjalla um mjög viðkvæmar upplýsingar við gerð þessa gagnagrunns og það kemur raunar fram í álitsgerð Lagastofnunar að það mundi setja meðferð slíkra upplýsinga nánast í hættu ef almennar samkeppnisreglur giltu um það hvernig það verður gert. Ég fellst á þessa túlkun og tel útilokað að slíkt yrði fellt undir samkeppnisreglur.

Þá er það einnig að athuga þegar við tölum um aðgengið að það má velta því fyrir sér hvort Samkeppnisstofnun hafi ekki gert 9. gr. frv. sem fjallar um aðgengisnefndina nokkuð hátt undir höfði eða jafnvel gengið svo langt að rangtúlka þá grein eins og raunar hefur hent marga. Sú grein hefur verið rangtúlkuð. Það kann að vera að orðalagið í frv. hafi gefið eitthvert tilefni til þess. Við verðum að hafa í huga að tilgangur aðgengisákvæðisins var eingöngu sá að veita þeim sem leggja upplýsingar af mörkum inn í grunninn rétt til aðgangs að upplýsingum úr grunninum á sérkjörum. Það er því nátengt hinu almenna heilbrigðiskerfi hvernig þetta er hugsað og aðstaða sérleyfishafans innan þessarar aðgengisnefndar er ekki á nokkurn hátt til þess hugsuð að hann geti stundað nokkurs konar njósnastarfsemi að því er varðar þá sem sækja upplýsingar úr grunninum.

Í nál. meiri hluta heilbr.- og trn. er sérstaklega hnykkt á því að alls ekki sé ætlast til þess að umræddir vísindamenn sem sækja upplýsingar í grunninn þurfi að leggja fram rannsóknaráætlanir sínar og tilgátur í smáatriðum. Tilgangur aðgangsnefndarinnar var fyrst og fremst sá að menn kæmust ekki inn um bakdyrnar ókeypis ef þeir ættu ekki aðild að því að veita grunninum upplýsingar.

Ég er þeirrar skoðunar að aðgengisnefndin og ákvæðin um aðgengisnefndina séu skynsamleg. Sú skoðun hefur komið hér fram að æskilegt væri að skoða möguleikana á því að glíma við þetta verkefni í samningum. Ég vil ekki útiloka að það geti verið skynsamleg leið og finnst sjálfsagt að skoða það milli 2. og 3. umr.

Hér kom til umræðu í gær sú skoðun að þeir sem óska eftir því að upplýsingar um þá fari ekki inn í grunninn ættu að geta sett fram óskir um að upplýsingarnar um þá í grunninum yrðu eyðilagðar. Þess var getið að það væru sjálfsögð réttindi sjúklinga að fá að eyðileggja upplýsingar um sig jafnvel þó að það næði eitthvað aftur í tímann. Nú verðum við að hafa það í huga sem ég hef áður getið um að hér er verið að tala um endurnýtingu á upplýsingum, ekki um rannsóknir á fólki og það er verið að tala um að nota upplýsingarnar í vísindaskyni þó að þeirra hafi verið aflað í öðru skyni. Með öðrum orðum erum við komin inn í þann ramma sem gerir það að verkum að styðjast verður við ætlað samþykki. Notkun slíkra upplýsinga verður ekki skilgreind þannig að hægt sé að biðja um upplýst samþykki. Það liggur einnig ljóst fyrir. Við verðum þess vegna að bera þetta saman við það hvernig farið er með upplýsingar þar sem krafist er ætlaðs samþykkis.

Í dag eru upplýsingar endurnýttar ef svo má að orði komast með eins konar ætluðu samþykki og á það t.d. við um Krabbameinsfélagið. Einstaklingar hafa að sjálfsögðu heimild til þess að fara fram á það að upplýsingar um þá séu ekki nýttar í slíkum rannsóknum. Ef þetta frv. verður að lögum er komið fordæmisgildi fyrir því að þessi réttur sé staðfestur í lögum. En það er mjög hæpið að einstaklingar geti farið fram á það að upplýsingar um þá í heilbrigðiskerfinu, upplýsingar um þá t.d. í krabbameinsskrá verði eyðilagðar. Það sem þeir geta farið fram á er að frá þeim degi sem óskin kemur fram verði upplýsingarnar ekki færðar í grunninn á sama hátt og þær yrðu þá heldur ekki færðar í krabbameinsskrá ef ósk kæmi fram um það.

Það er mjög hæpið að halda því fram að einstaklingar geti átt rétt á því að upplýsingar um þá frá fyrri tíð séu eyðilagðar og ekki gott að sjá hvernig upplýsingakerfi heilbrigðiskerfisins gæti staðist með þeim hætti.

Við verðum að hugsa um það líka að tilgangurinn með gagnagrunninum er m.a. sá að stórefla möguleika á faraldsfræðilegum rannsóknum. En það er með öllu ómögulegt að vinna faraldsfræðilegar rannsóknir ef þátttakendur geta dregið til baka upplýsingar um sig eftir að lagt hefur verið af stað með slíkar faraldsfræðilegar rannsóknir. Þegar lagt er af stað eru oft og tíðum teknar ákvarðanir um frekari rannsóknir á grundvelli bráðabirgðaniðurstaðna. Ef upplýsingarnar eru dregnar til baka er sá möguleiki fyrir hendi að niðurstöðurnar glatist og þar með sé fótunum kippt undan rannsókninni. Það mundi því vega harkalega að möguleikunum til þess að búa til nýja þekkingu í læknisfræði ef svo yrði búið um hnútana að það yrði réttur manna til að draga upplýsingar um sig út úr faraldsfræðilegum rannsóknum. Ég vil sérstaklega taka það fram að ef menn setja slík lagaákvæði inn í þetta frv. og það verður síðan að lögum, þá sé ég ekki betur en að það hafi fordæmisgildi gagnvart því hvernig upplýsingar almennt með ætluðu samþykki eru nýttar hér á landi. Það mundi þá geta haft afleiðingar t.d. á nýtingu Krabbameinsfélagsins á upplýsingum úr heilbrigðiskerfinu þannig að það er enn hér sem ég vara við því að menn fari fram með miklum ofstopa í þessu máli og gæti sín að skemma ekki það starf sem hefur verið unnið t.d. á vegum Krabbameinsfélagsins við að endurvinna upplýsingar á grundvelli ætlaðs samþykkis.

Benda má á að þeir einir munu hafa um sig upplýsingar í þessum miðlæga gagnagrunni á heilbrigðissviðinu sem hafa notað sér íslenska heilbrigðiskerfið. Læknisfræðin eins og hún er í dag á í raun og veru styrkleika sinn því að þakka að þeir sem á undan okkur gengu sættu sig við það að um þá væri safnað upplýsingum sem voru notaðar til þess að búa til þekkingu. Því má leiða að því rök að ákveðnar skyldur fylgi rétti okkar til að nota heilbrigðisþjónustuna eins og hún er í dag. Ég tel að ein af þessum skyldum okkar sé að leggja af mörkum það sem við getum til þess að þróa áfram læknisfræðina þannig að afkomendur okkar njóti góðs af. Það er mikilvægt að vernda rétt einstaklinganna, en það má heldur ekki láta undir höfuð leggjast að tala um skyldur manna við samfélagið. Ég get því ekki fallist á að þessi krafa sé réttmæt eins og hún var sett fram í umræðum í gær.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vék að áliti Lagastofnunar. Sú álitsgerð er unnin af þremur ágætum fræðimönnum við Háskóla Íslands, þeim Davíð Þór Björgvinssyni prófessor, Oddnýju Mjöll Arnardóttur lögfræðingi og Viðari Má Matthíassyni prófessor. Þingmaðurinn gaf í skyn að þarna væru á ferðinni lögfræðingar sem hefðu fengið greitt fyrir álitsgerðina. Í raun og veru er þar með verið að ýja að því, þó að það sé ekki sagt beinum orðum, að niðurstaðan hafi verið keypt og að þessir fræðimenn hefðu komist að annarri niðurstöðu ef annar aðili hefði beðið þá um niðurstöðuna. Þetta er óvenju ósvífinn málflutningur. Þessir þrír fræðimenn mættu reyndar á fund heilbr.- og trn. og skýrðu þar frá vinnuferli sínu. Þeir fengu spurningar frá ákveðnu fyrirtæki og þurftu fyrst að glíma við það hvort spurningarnar væru þess eðlis að um þær mætti fjalla fræðilega, hvort þetta væru gildar spurningar og þeir komust að þeirri niðurstöðu að spurningarnar væru gildar og að hægt væri að fjalla fræðilega um þær, en þeir tóku að sjálfsögðu enga afstöðu til þess hver spurði spurninganna.

Ég held að það þjóni engum tilgangi í þessum sal að reyna að gera lítið úr fræðimönnum sem gera það sem þeir geta til þess að skilja þá spurningu sem fyrir þá er lögð. Þeir eru fræðimenn. Þeir eru mennskir. Þeir geta komist að rangri niðurstöðu að sjálfsögðu. Um það þarf ekki að deila. Þeirra verk, eins og þeirra einstaklinga sem skipa Hæstarétt ef því er að skipta, eru breysk eins og mannanna verk. En það er ástæðulaust að gera því skóna í þessum sal og ekki viðeigandi finnst mér að þessir fræðimenn hefðu skipt um skoðun ef annar aðili hefði lagt fyrir þá spurningarnar. Ég hygg að ef menn hugsa málið þá komist þeir að þeirri niðurstöðu að það álitamál hver lagði fyrir þá spurningarnar hafi enga þýðingu í þessu sambandi.

Það er alveg ljóst af umræðunni um þetta mál í þingsalnum að þeir sem hafa efasemdir um frv. skiptast í tvær fylkingar. Annars vegar eru þeir sem eru í raun og veru á móti málinu og keppast við eftir því sem þeir geta að leggja stein í götu þess. Þessir þingmenn sem eru andsnúnir hugmyndinni um miðlægan gagnagrunn munu ekkert spara til þess að spilla hugmyndinni. (Gripið fram í: Þó það nú væri.) Þeir munu reyna að veikja grunninn með öllum tiltækum ráðum og ekki er ólíklegt að ef þeim tekst að veikja grunninn, þá muni þeir nefna það sem rök gegn grunninum að hann sé ekki nógu sterkt verkfæri.

Annar hluti þingmanna virðist hafa áhuga á því að komið verði á fót miðlægum gagnagrunni. Ég tel augljóst af þeirri ræðu sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson flutti í gær að hjá honum sé að finna mikinn áhuga á því að koma á miðlægum gagnagrunni og að hann hafi, ásamt þeim sem hafa svipaða afstöðu, í stórum dráttum áhyggjur af tvenns konar álitamálum. Í fyrsta lagi er persónuverndin afar mikilvæg í augum þingmannsins og þeirra sem deila skoðunum með honum og þeir deila áhuga á og umhyggju fyrir persónuvernd viðkvæmra heilsufarsupplýsinga með meiri hlutanum.

Á hinn bóginn virðist svo vera að áhugi þessara þingmanna reki þá til þess að velta því fyrir sér hversu mikilvirkt og máttugt verkfæri gagnagrunnurinn getur orðið í baráttunni fyrir bættu heilbrigði og öflugri heilsugæslu og hvers þurfi að gæta til þess að jafnvægi verði annars vegar í þeim ráðstöfunum sem gerðar eru til að tryggja öryggi í meðferð upplýsinganna og hins vegar í nýtingu í gagnagrunnsins. Mér finnst jákvætt viðhorf þessara þingmanna vera mjög mikilsvert og það mikla álitamál sem við stöndum frammi fyrir, jafnt í dag sem og við 1. umr. þó að málið hefði skýrst, sé í raun að reyna að finna eitthvert jafnvægi í þeim ráðstöfunum sem við grípum til. Málið er mjög flókið. Þótt athugun í nefnd milli 1. og 2. umr. hafi skýrt málið verulega bæði í ljósi skriflegra athugasemda og upplýsinga sem komið hafa fram á fundum nefndarinnar þá er ljóst að málið er enn á vinnslustigi.

[14:15]

Ég hef því miður ekki notið þess heiðurs að sitja inni á öllum fundum hæstv. heilbr.- og trn. Ég hef aðeins komið þangað nokkrum sinnum, notið þess heiðurs að starfa með því ágæta fólki sem þar er, og hef því átt óbeinan aðgang að málinu. Mér finnst að starf nefndarinnar hafi verið markvisst og til fyrirmyndar og að málið hafi verulega skýrst á fundum nefndarinnar í ljósi þeirra upplýsinga sem þar hafa verið lagðar fram. Að talsverðu leyti held ég að nefndin sé að vinna brautryðjandastarf. Ég held að við eigum að hafa það í huga að nefndin er að vinna brautryðjandastarf og hún verður að líta svo á sem málið sé á vinnslustigi til síðasta dags.

Við þurfum að gæta að öllum þáttum málsins og leiðrétta frv. milli 2. og 3. umr. ef í ljós kemur að á því leynast einhverjir meinbugir ellegar að breytingar sem gerðar hafa verið á frv. hafi skapað sérstök vandamál. Þetta er afar mikilsvert vegna þess að í umræðunni í gær skynjaði ég að enn er nokkur munur á því hvernig menn skilja þetta frv., og á það kannski einkum og sér í lagi við um það hvers konar upplýsingar fara inn í grunninn.

Talsverð umræða hefur orðið um hvort erfðaupplýsingar verði inni í þessum grunni eða ekki. Sumir hafa fullyrt að það sé ljóst að slíkar upplýsingar fari ekki inn í þennan grunn --- (ÖS: Nema þær séu úr sjúkraskrám.) nema þær séu úr sjúkraskrám, segir ágætur þingmaður í frammíkalli, Össur Skarphéðinsson hv., og þetta er ákveðinn skilningur sem vert er að hugleiða.

Ég held að í þessu tilviki sé nauðsynlegt að líta á 7. gr. frv. þar sem segir:

,,Að fengnu samþykki heilbrigðisstofnana eða sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna er rekstrarleyfishafa heimilt að fá upplýsingar sem unnar eru úr sjúkraskrám til flutnings í gagnagrunn á heilbrigðissviði.``

Nú hefur þessu ákvæði verið lítillega breytt. Það breytir þó ekki efnislega því hvaða upplýsingar er þarna verið að tala um heldur hvernig heimildin er orðuð. Spurningin sem vaknar í þessu tilfelli er sú hvort hinn miðlægi gagnagrunnur sé takmarkaður við upplýsingar úr sjúkraskrám eða ekki. Þá förum við í skýringar með 7. gr. þar sem segir:

,,Rétt er að taka fram að heimild rekstrarleyfishafa skv. 1. mgr. til flutnings upplýsinga í gagnagrunn á heilbrigðissviði tekur einungis til upplýsinga úr sjúkraskrám heilbrigðisstofnana og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna.``

Þessi heimild þýðir í raun og veru að 1. mgr. 7. gr. veitir ekki aðrar heimild en þessa. En er þar með hægt að álykta að gagnagrunnurinn sé einskorðaður við sjúkraskrá? Nei, það er ekki hægt, enda segir mjög skýrt í frv. að svo sé ekki. Ef við förum í 3. gr. frv. þá segir þar í skilgreiningu á gagnagrunni á heilbrigðissviði, hvað er gagnagrunnur á heilbrigðissviði, hvaða grunnur það er sem við erum að búa til. Þar stendur ekki ,,safn upplýsinga úr sjúkraskrám``, það er ekki orðað þannig. Það stendur:

,,Safn gagna er hefur að geyma heilsufarsupplýsingar sem skráðar eru á samræmdan kerfisbundinn hátt í einn miðlægan gagnagrunn sem ætlaður er til úrvinnslu og upplýsingamiðlunar.``

Með öðrum orðum, sem hefur að geyma heilsufarsupplýsingar. Og hver er skýring skilgreiningarkaflans eða skilgreiningargreinarinnar á því hvað séu heilsufarsupplýsingar? Það kemur fram í 6. tölulið þar sem segir:

,,Heilsufarsupplýsingar: Upplýsingar er varða heilsu einstaklinga, þar með taldar erfðafræðilegar upplýsingar.``

Hér er ekki verið að tala um sjúkraskrár heldur miklu víðara hugtak. Í 7. gr. kemur fram hvernig heilbrigðisstofnunum er heimilt að veita upplýsingar úr sjúkraskrám inn í gagnagrunninn en hún einskorðar ekki gagnagrunninn við þessar skrár. Þar af leiðandi er skilningur Lagastofnunar á því að inn í þessa skrá muni fara talsvert af erfðafræðilegum upplýsingum hárréttur. Það er hárréttur skilningur en ekki misskilningur, eins og hér kom fram í gær.

Að sjálfsögðu er ljóst að það munu fara og það eiga að geta farið inn í þennan grunn erfðafræðilegar upplýsingar. Það er meira að segja beinlínis tekið fram í frv. Svo er einnig að í fylgiskjölum frv. frá fyrirtækinu Stika efh. er beinlínis talað um að í gagnagrunninum séu erfðafræðilegar upplýsingar. Þar er talað um að það þurfi að torvelda samtengingu upplýsinga um erfðir, ættir og heilsufarsupplýsingar. Það er afar mikilvægt að menn átti sig á því að frv., eins og það er hugsað, er ekki einskorðað við sjúkraskrár, upplýsingar úr sjúkraskrám. Það er afar brýnt að nefndin, sem ég hef ekki haft þann heiður að sitja alltaf í, þó ég hafi haft þá ánægju og þann heiður að sitja stundum á fundum nefndarinnar mér til mikillar gleði og ánægju og upplýsinga, þá er alveg ljóst að þetta verður að skýra.

Það er líka alveg ljóst að þeir þingmenn sem hafa komið fram og sagt að það standi í frv. að engar upplýsingar nema upplýsingar úr sjúkraskrám fari inn í þennan gagnagrunn, hafa oftúlkað textann eða misskilið hann. Að minnsta kosti held ég að það sé afar brýnt að þetta atriði verði tekið til umfjöllunar milli 2. og 3. umr. og farið verði nákvæmlega yfir það hvernig aðrar upplýsingar en úr sjúkraskrám eigi að finna sér leið inn í þennan grunn. Þegar menn fjalla um það verða menn að gæta þess að tryggja persónuverndina, það er ljóst, það þarf að passa það mjög vel. En menn þurfa einnig að gæta þess, sem er í augum allra þeirra sem vilja koma upp miðlægum gagnagrunni, afar mikilvægt en það er að jafnvægi verði milli þeirra ráðstafana sem gripið er til til þess að verja persónulegar upplýsingar og þeirra ráðstafana sem við gerum til að gera gagnagrunninn sem virkastan. Í augum hinna sem eru á móti miðlægum gagnagrunni er að að sjálfsögðu ekkert af þessu mikilvægt því að þeir eru á móti málinu.

Ég vildi að þetta kæmi fram vegna þess að afar brýnt er að við gerum okkur grein fyrir því við þessa umræðu að gert er ráð fyrir því að þarna fari inn erfðafræðilegar upplýsingar.

Í gær var hér nokkuð rætt um þær erfðafræðilegu upplýsingar sem fyrirtækið Íslensk erfðagreining býr yfir. Ég hygg að komið hafi fram í ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, og hafi hann þá vitnað í upplýsingar sem hann hafi eftir Erni Snorrasyni, að fyrirtækið hafi upplýsingar frá 70 þúsund Íslendingum og þar fyrir liggi upplýst samþykki. Ég verð að viðurkenna að ég sperrti eyrun þegar ég heyrði þessa frétt enda var þetta ekki fyllilega í samræmi við þær upplýsingar sem ég hafði áður fengið. Enda væri býsna viðamikið ef fyrir lægju upplýsingar frá 70 þúsund Íslendingum um þátttöku í rannsóknum. Ég hygg að þarna sé ekki rétt með farið. Ég vil ekki gerast einhver upplýsingafulltrúi fyrir Íslenska erfðagreiningu en ég vil hins vegar geta þess að í viðræðum mínum við fyrirtækið bendir allt til þess að upplýsingarnar séu tífaldaðar, að þær séu margfaldaðar með tíu, sem er nokkuð mikil ýking á staðreyndum.

Þó rétt sé að draga saman hlutföllin þannig að þau séu í samræmi við raunveruleikann breytir það ekki því að við þurfum að skoða mjög nákvæmlega hvaða farveg erfðafræðilegar upplýsingar eiga inn í grunninn. Ég held að það sé þannig að það verkfæri sem við búum til með þessum miðlæga gagnagrunni verði sýnu máttugra ef við finnum ásættanlegar leiðir til þess að erfðafræðilegar upplýsingar fari inn í grunninn. Þær geta leitað inn í grunninn í gegnum sjúkraskrárnar en upplýsingar úr sjúkraskrám, erfðafræðilegar upplýsingar úr sjúkraskrám, munu vera mjög takmarkaðar. Engu að síður eru þar upplýsingar um erfðafræðileg efni.

Þetta er eitt af því sem ég held að við þurfum að skoða mjög rækilega. En annað atriði sem ég held að við þurfum líka að skoða og skerpa skilning okkar á snertir þær miklu umræður sem urðu um það hvort upplýsingarnar væru geymdar dulkóðaðar í grunninum eða ekki.

Það er náttúrlega alveg ljóst að ef hægt á að vera að nota grunninn verður líka að vera hægt að afkóða upplýsingarnar, þær eru ekki nothæfar í dulkóðuðu formi. Einmitt í þeim tilgangi hefur sérleyfishafinn lykil að kóðuninni, á upplýsingunum. En upplýsingarnar eru engu að síður notaðar í því formi að þær eru aftengdar persónuupplýsingum sem er grundvallaratriði. Við þurfum að skoða mjög rækilega hvaða tæknilega merkingu þetta hefur í för með sér, hvort sú hugmynd sem er nú inni í breytingartillögunum um að upplýsingarnar séu ekki geymdar í dulkóðuðu formi í grunninum vega eitthvað að rótum persónuverndarinnar. Ég er reyndar ekki þeirrar skoðunar að á þessu sérstaka atriði séu vatnaskil í þessu máli og ef upplýsingarnar eru ekki geymdar kóðaðar í grunninum þá sé þar með ekki lengur hægt að tala um þær sem ópersónugreinanlegar upplýsingar. Ég heyrði þá skoðun koma fram í gær, ég tek eftir þeirri skoðun og hlusta á hana en ég er ekki þar með sammála henni. En þetta er einnig afar mikilvægt atriði sem er nauðsynlegt að taka rækilega til skoðunar milli 2. og 3. umr.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja mál mitt meir, ég hef talað í rúma kennslustund. Gárungarnir í þinginu segja að vegna fortíðar minnar í kennarastarfi miði ég ræður mínar við 40--45 mínútur. Það verður svo að vera. Ég verð að sitja undir því.