Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 17:06:00 (1793)

1998-12-08 17:06:00# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[17:06]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. er að gera tortryggilega þá 200 einstaklinga sem vinna hjá Íslenskri erfðagreiningu. Það er það sem hv. þm. gerði með ræðu sinni og gerði lítið úr störfum þessara einstaklinga. Mér er alveg sama hvar þessir einstaklingar hafa unnið áður eða koma til með að vinna. Þeir hafa alveg sama rétt til að hafa skoðanir og aðrir Íslendingar. Ég að benda á að hv. þm. var hér með mjög alvarlegar aðdróttanir í garð ákveðins manns sem hann nafngreindi. Og hann getur ekki komist fram hjá því.

Ég skal svara hv. þm. lið fyrir lið í ræðu á eftir. Ég vona að hann verði þá viðstaddur því svo vill til að þegar kom að máli hv. þm. um dreifða gagnagrunna þá sat ég í þingsalnum og hann mælti ekki fyrir sínu máli. Eftir því var tekið og menn geta lesið það í þingtíðindum.

En mér fannst hv. þm. líka alveg gleyma öðru málefni. Það voru hagsmunir heilbrigðisþjónustunnar. Þegar hann ræddi um sérleyfi þá nefndi hann það aldrei að hér væri um mikla hagsmuni fyrir heilbrigðisþjónustuna sjálfa að ræða. Og þetta er hv. þm. sem var heilbrrh. áður. Hefur hann ekki skoðað þá miklu hagsmuni sem heilbrigðisþjónustan sjálf á undir því að ná þessum gagnagrunni fram á hinu háa Alþingi? Hefur hann ekki skoðað það?