Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 17:10:15 (1795)

1998-12-08 17:10:15# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, EOK
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[17:10]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Þetta er 2. umr. um þetta flókna og margslungna mál, gagnagrunninn. Ég ræddi það töluvert við 1. umr. og fór í gegnum mjög mörg atriði í þessum gagnagrunni og lýsti skoðunum mínum og efasemdum.

Ég hef, herra forseti, litið á þetta mál frá upphafi þannig að hér sé um að ræða frv. um áhættufyrirtæki, um stórt og mikið áhættufyrirtæki og að frv. sé flutt til þess að búa til starfsumhverfi fyrir þetta fyrirtæki. Þar sem þetta fyrirtæki er svo sérstætt og verkefni þess svo sértæk þá gefur náttúrlega að skilja að slíkt lagafrumvarp kemur við ákaflega marga þætti þjóðlífsins. Það kemur við ákaflega marga þætti, það kemur við lögfræðileg atriði, það kemur mjög við stöðu samkeppnisgreina, það kemur við efnahagsmál og fleira og fleira.

Í mínum huga var hér að vísu á ferðinni stjórnarfrv., en ég leit þannig á, herra forseti, að þetta stjórnarfrv. í sjálfu sér og það starfsumhverfi sem menn vildu búa þessu áhættufyrirtæki ætti lítt eða ekkert skylt við stefnumörkun og stefnumál hæstv. ríkisstjórnar, sem ég hef alla tíð stutt eins einarðlega og mér hefur verið lagið. Og það er fráleitt að gagnrýni mín á frv. þá og nú eigi neitt skylt við það að ég sé eitthvað í stjórnarandstöðu og fráleitt er að það eigi nokkuð skylt við það að ég beri vantraust til hæstv. heilbrrh. Ég fór aðeins efnislega ofan í þetta mál og benti á ýmislegt, margt sem ég trúi ekki að fái staðist, eins og t.d. einkaleyfið sem hv. síðasti ræðumaður kom inn á áðan og hann spurði mig sérstaklega eftir því hver væri afstaða mín til þess. Það er sjálfsagt að verða við svo persónulegri beiðni. Það liggur alveg fyrir að ég trúi því ekki, miðað við þessi gögn, að einkaleyfi fái staðist. Ég trúi því ekki. Enda er ég viss um að Evrópu-dírektífið um verndun slíks hugbúnaðar og verndun slíkra fyrirtækja mun algjörlega vernda þann einstakling sem gerir starfssamninginn við heilbrrn.

Um þetta eru menn mér ósammála og ekkert er við því að gera. Ég ætla ekki að fara hér í langar tölur um það og endurtaka ræðu mína frá 1. umr. Það er alveg óþarfi og þjónar engum tilgangi. Ég hélt að málið væri ekki bundið við stuðningsmenn og andstæðinga ríkisstjórnarinnar heldur væri hér um mjög flókið og krefjandi mál að ræða og að hver þingmaður yrði að gera það upp við sínar skoðanir og sína samvisku hvern veg þeir greiddu atkvæði. En mál hafa skipast svo í þinginu eins og oft gerist hér, því miður, að ég sé ekki betur en að stjórnarliðar séu búnir að raða sér saman og að stjórnarandstaðan sé búin að raða sér saman og málið sé komið í hið hefðbundna far. Þetta er orðið málefni stjórnarandstöðunnar gegn stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar. Ég harma þetta vegna þess að ég tel þetta alveg óþarft. Ég tel að stefnumörkun ríkisstjórnarinnar gagnvart málefnum þessa lýðveldis í efnahagsmálum, menntamálum o.s.frv., sé í fullu gildi og að við þingmenn stjórnarflokkanna styðjum ríkisstjórnina af alefli, en afstaðan til einstakra hluta í þessu starfsumhverfi komi því alls ekkert við.

En það er nú svo, herra forseti, að þetta er hið vanabundna hér á þinginu. Metnaður manna rekur þá til þess. Metnaður forustu stjórnarandstöðunnar og metnaður forustu ríkisstjórnarinnar rekur til þess að menn raða upp liðinu og því vill verða svo að umræður fara í þennan farveg. Ég harma það að sjálfsögðu vegna þess að þar með er náttúrlega heilmikið af þeim sjarma farið sem í því er fólginn að taka þátt í rökræðum um svo flókið og margslungið mál.

[17:15]

Ég harma það líka að ekki hafi tekist betri sátt í samfélaginu um þetta mál. Ég held að mjög miklu hefði varðað fyrir framgang þess að sem best sátt væri um það, en það er ekkert við því að gera. Ég tók ekki þátt í þeim samningaumleitunum sem hafa farið fram milli heilbrrn. og hv. heilbrn. við lækna- og vísindasamfélag Íslands og ég er kannski ekki í stakk búinn til að dæma neitt þar um. Ég er samt alveg sannfærður um að mun æskilegra hefði verið að við hefðum getað náð meiri sátt vegna þess að sú ósátt sem ríkir á eflaust eftir að skaða heilbrigðismálin og framgang þeirra allra. Eins og allir vita sem hafa hlustað á þessa umræðu og fylgst með því sem hér hefur verið á döfinni undanfarna sex mánuði eða svo og eins og menn hafa farið í gegnum þetta í umræðum, og margir mjög vel, þá eru hér mýmörg álitamál. Ég efast ekkert um hvað verða vill í þessu, herra forseti. Ég sé það alveg í hendi mér hvernig þessum málum er komið. Það er búið að raða upp í fylkingar eins og ég sagði áðan. Þetta mál verður afgreitt svona. Sú umræða sem á sér stað hér í dag og kvöld og kannski í nótt eru eftirhreyturnar af því sem hefur gengið yfir síðustu sex mánuðina og þá er ekkert nema taka því. Það hefur að mínum dómi engan tilgang að fara í gegnum það sem ég hef gagnrýnt í þessu. Staðreyndin er bara sú að ég hef ekki sannfærst um að þetta lagaumhverfi kringum þetta áhættufyrirtæki fái staðist og við því er ekkert að segja. Ég sé hvernig þetta gengur fram.

Ég ætla heldur ekki að eyða tímanum í að spá um það hvað framtíðin ber í skauti sér. Það hefur engan tilgang vegna þess að sagan á bara eftir að sýna okkur það. Það kemur í ljós. Það er miklu betra bara að bíða og sjá hvernig þetta verður. Spádómar sem hafa gengið fram í umræðunni á víxl hafa engan tilgang. Menn hafa sumir verið mjög svartsýnir og aðrir mjög bjartsýnir og við skulum bara bíða og sjá.

Hins vegar er einn þáttur þessa gagnagrunnsmáls sem mér finnst hafa praktískt gildi og ástæða er til að ræða hér og nú þegar ég sé hvað verða vill, þegar ég sé að afgreiða á málið. Það er sá þáttur sem hefur komið fram í máli margra að þessi miðlægi gagnagrunnur eigi eftir að gagnast okkur verulega við að stjórna heilbrigðismálunum í framtíðinni, við að ná tökum á heilbrigðismálunum. Þetta hefur verið margra manna mál og margir verið mjög bjartsýnir um að þetta muni færa okkur hina mestu blessun.

Ég efast stórlega, herra forseti, um það og ætla að vara menn mjög við ef það er viðhorf hv. alþm. að með því að Alþingi samþykki lög um miðlægan gagnagrunn sé búið að útvega einhverjar óskaplega fínar græjur til að stjórna heilbrigðismálunum þannig að við getum áfram komist undan því, eins og við höfum gert í gegnum tíðina. Vegna þess að ég tel engan vafa leika á því að mikill óvilji hafi verið fyrir því lengst af, ef ekki alltaf, að nýta sér nútímatækni til stjórnunar á heilbrigðismálum. Það á alls ekki við núv. hæstv. heilbrrh. frekar en aðra fyrirrennara hennar. Það á ekkert við þessa ríkisstjórn frekar en ríkisstjórnina sem var þar áður og þar áður á undan. Ég lít svo á að menn hafi haft þá skoðun að betra væri að hafa þetta svona í dálitlu limbói, hafa þetta fram og til baka og takast dálítið á um þetta í staðinn fyrir að fara þá braut sem lengi hefur legið fyrir, að við verðum og komumst ekkert hjá því að spara í heilbrigðismálum.

Útgjöld til íslenskra heilbrigðismála eru veruleg. Ísland er með þeim hærri ef við tökum hlutfallið af vergri landsframleiðslu. Við erum með rúm 8%, 8,06% minnir mig. Það er í hærri kantinum. Gagnvart útgjöldum ríkisins er það rúmlega 6,6%, að mig minnir, af vergri landsframleiðslu sem er mjög hátt. Við deilum hæstu sætunum þar með t.d. Noregi sem ég held að sé nokkurn veginn með sömu tölu og við. Öll umræðan um heilbrigðismál sem oft gengur út á það að við séum að spara rosalega mikið og að við veitum litla peninga til heilbrigðismála er því röng. Ég er ekki að segja að heilbrigðismálum á Íslandi sé illa stjórnað en ég fullyrði að hægt sé að gera það betur og það er gríðarleg þörf á að gera það betur. Við höfum allt til þess. Fyrst og fremst, herra forseti, höfum við bestu þjóðskrá í heimi sem menn gleyma stundum. Við höfum mjög góða faraldsfræði, við höfum upplýsingar á tölvutæku formi og ef við vildum fara að stjórna heilbrigðismálunum, þá gætum við það í dag. Það væri hroðalegt ef við færum að ímynda okkur að við ættum að bíða í mörg, mörg ár eftir því að einhver miðlægur gagnagrunnur kæmi. Það er alveg skelfilegt. Við höfum allt til þess að gera þetta nema ég held að okkur vanti pólitískan vilja. Mig grunar það. Ég get ekki fullyrt það en ég finn enga aðra skynsamlega ástæðu fyrir því.

Ég vil meina að við þurfum að stjórna heilbrigðismálunum vegna þess að á komandi árum, bara á næstu missirum og árum er okkur skylt, og við verðum að gera það, að veita verulega meiri fjármuni en við gerum til skóla- og menntamála. Þar erum við eftir á. Og við náum því aldrei að veita þá peninga inn í skóla- og menntamálin öðruvísi en að við getum stjórnað heilbrigðismálunum. Ef menn ætla að stjórna ríkisfjármálunum og gleyma heilbrigðismálunum, þá eru menn ekkert að stjórna. Það er brýnt að menn átti sig á þessu og brýnt að menn séu ekki að ímynda sér að þessi gagnagrunnur komi okkur að nokkru gagni í því sambandi. Þetta held ég að sé það praktískasta sem við þurfum að ímynda okkur að fara í gegnum núna þegar ákveðið er að gera þetta að lögum. Svo verður það bara verkefni sagnfræðinga framtíðarinnar að fara í gegnum hver hafði rétt fyrir sér í þessu og hver rangt.